24 janúar 2009

Nýtt Ísland?

Það er búið að vera magnað að fylgjast með appelsínugulu búsáhaldabyltingunni sem hefur tröllriðið öllu heima þessa vikuna. Miðað við andrúmsloftið í samfélaginu var viðbúið að það myndi sjóða upp úr fyrr eða síðar og þrátt fyrir að svartir sauðir hafi leynst í hópnum þá held ég að megi segja að þetta hafi farið skikkanlega fram. Það er sorglegt að heyra af veikindum Geirs en mér finnst samt magnað að bæði Geir og Ingibjörg ætli sér að sitja áfram þrátt fyrir veikindin. Það er ástæða fyrir því að veikindafrí voru fundin upp og ástandið í landinu er ekki það gott að hægt sé að stýra því af sjúkrabeði með góðu móti.

Það sem mér finnst samt sorglegast er að Geir ætli sér að hætta sem formaður Sjálfstæðisflokksins af því að hann er veikur. Ekki af því að hann telji sig bera einhverja ábyrgð á því ástandi sem nú ríkir. Það sem stjórnmálamenn virðast ekki vera búnir að átta sig á er að Ísland er ekki einungis fjárhagslega gjaldþrota heldur einnig siðferðislega. Siðferðislega gjaldþrotið er jafnvel stærra en hitt. Fólk hefur fengið nóg af skorti af siðferði í íslenskri pólitík þar sem flokkshollustan gengur fyrir öllu og vinum og vandamönnum raðað í feit embætti. Þar sem völdin skipta öllu máli en ekki velferð fólksins í landinu. Þess vegna eru háværar kröfur um nýtt Ísland.

Svar Sjálfstæðisflokksins við því var vandlega útpælt PR stunt þar sem Geir tilkynnti um veikindi sín og að það yrðu kosningar í vor. Ræða sem ég efast stórlega um að Geir hafi skrifað sjálfur enda var þetta of plottað til þess. Þarna var tónninn settur fyrir kosningabaráttu og ekki gat maður séð vott af nýju Íslandi í honum. Þetta var bara gamla Ísland í uppfærðri útgáfu. Ekki veit maður hvort að hinir flokkarnir fari niður á þetta plan og haldi sig við sömu lúalegu pólitíkina og hefur verið stunduð á Íslandi hingað til en það er ekkert sem bendir til þess að menn séu að breyta vinnubrögðum sínum. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki geð í mér til að fylgjast með kosningabaráttu þar sem photosjoppaðir pólitíkusar halda því fram að allt fari til fjandans ef þeir fá ekki að stýra landinu eða að allt komi til með að fara til fjandans ef að "hinir" komist að völdum - þrátt fyrir að allt hafi bókstaflega farið til fjandans á þeirra eigin vakt.

Allir flokkarnir eru með sínar kreddur um hvernig allt fari til fjandans ef þeir fá ekki að stjórna, hvað hinir séu nú vitlausir og þeir sjálfir mikið betri. Sú lífseigasta sem ég man eftir er frá íhaldinu um að enginn geti stjórnað efnahagi landsins eins vel og þeir. Ef að það er rétt hjá þeim þá held ég að það hafi verið rétt hjá Geir Haarde að biðja guð að blessa Ísland því þá er þjóðin illa stödd svo ekki sé meira sagt. Hins vegar held ég að allar þessar kreddur séu lítið meira en orðin ein og það er sorglegra en orð fá lýst ef þær eiga að ráða ferðinni eina kosningabaráttuna í viðbót.

Það er nefnilegast gott fólk í öllum flokkum og sjaldnast hefur allt farið til fjandans þó svo að "hinir" hafi haldið um stjórnvölinn í einhvern tíma. Ég held að reynslan sýni okkur frekar að hlutirnir fari fyrst að fara til fjandans þegar menn sitja of lengi og tapa tengslum við umbjóðendur sína - fólkið í landinu. Ég á mér enga draumastjórn eftir þessar kosningar hins vegar á ég mér þann draum að krafa fólksins í landinu um nýtt Ísland nái fram að ganga og að við stjórnvölinn setjist fólk sem ætlar sér af heilindum að vinna að því ásamt fólkinu í landinu að byggja upp nýtt þjóðfélag á rústum þess gamla. Að gamla flokkapólitíkin líði undir lok og að menn starfi saman að heilindum að hagsmunum þjóðarinnar. Þjóðar sem veiti stjórnvöldum sínum það aðhald sem hún þarf og viðhaldi þar með því siðferði sem þjóðin vill sjá.

Ég held að komandi kosningar eigi eftir að setja tóninn að því samfélagi sem Íslendingar vilja sjá. Ég vona svo sannarlega að Íslendingar eigi eftir að fylgja kröfunni um breytt þjóðfélag eftir alla leið og að kosningabaráttan eigi eftir að bera því vitni að leikreglurnar í íslenskri pólitík hafi breyst til batnaðar. Ég vona að við fáum í alvörunni að sjá nýtt Ísland. Samfélag byggt á þeim siðferðilegu gildum sem við viljum halda í heiðri. Samfélag sem getur staðið undir því að vera eitt þriggja minnst spilltustu landanna í heiminum í dag. Samfélag sem fyllir mann stolti yfir því að vera Íslendingur. Samfélag sem er óumdeilanlega nýtt Ísland.

Engin ummæli: