31 maí 2009

Salat dagsins

Skólinn var með nokkurskonar árshátíð á föstudagskvöldið. Hátíðin er kölluð International Dinner og er held ég bara tilefni til að hittast áður en við förum öll sitt í hvora áttina. Margir eru þegar farnir og ætla að vinna ritgerðirnar sínar heima svo ekki var allur skólinn þarna en mætingin var samt sem áður ágæt. Þetta var mjög gaman, fínn matur og góður félagsskapur. Ég valdi grænmetismatseðilinn og aðalrétturinn var mjög góður en salatið sem við fengum í forrétt var ábyggilega eitt sérstakasta salat sem mér hefur verið boðið upp á eins og sjá má á myndinni hérna fyrir neðan!



Þetta var semsagt bara tómatur og mozarella sem bragðaðist reyndar ágætlega sem var auðvitað fyrir öllu. Skemmtilegt kvöld og maður á vonandi eftir að halda sambandi við einhverja af skólafélögunum þegar maður verður kominn heim.

Annars er fókusinn allur á mastersritgerðinni. Ég er byrjuð á rannsóknarvinnunni og það er farinn að skýrast hjá mér fókusinn hvernig ég ætla að gera þetta. Planið er að gera comparative study (samanburðarrannsókn?) á mismunandi kennsluaðferðum sem eru notaðar við fullorðinsfræðslu í þróunaraðstoð. Þar ætla ég að bera saman tæknilegar aðferðir sem kenna bara lestur og skrift og félagslegar aðferðir þar sem fókusinn er á hvernig er hægt að gera fólkið hæfara til þess að lifa í sínu umhverfi, nýta bakgrunnsþekkinginu og fleira til þess að byggja nýja reynslu og kunnáttu. Mig langaði til þess að skrifa um menntun og þróunaraðstoð en þar sem allur fókusinn hefur verið á grunnmenntun barna langaði mig til þess að skrifa um eitthvað annað. Fullorðinsfræðsla hefur víðast hvar orðið útundan þrátt fyrir háa tíðni ólæsis á meðal fullorðinna og því fór ég að skoða hana.

Þróunarsamvinnustofnun Íslands er með fullorðinsfræðsluverkefni í gangi í Úganda og Malawi og ég fékk aðgang að skýrslum um þau. Þar á meðal var úttekt á verkefnunum þar sem sérfræðingur í fullorðinsfræðslu fór yfir aðferðarfræðina og árangur hennar. Mér fundust niðurstöðurnar sláandi og það er margt sem hægt er að gera betur t.d. með breyttum kennsluaðferðum og aukinni fræðslu fyrir leiðbeinendur í verkefnunum. Fólk sem hefur tekið þátt í svona fullorðinsfræðslu hagnast lítið af því, það var fátækt fyrir og eftir námskeiðin er það ennþá fátækt en kann að lesa og skrifa og sú hæfni virðist ekki vera þeim til framdráttar. Þannig að þarna er margt mjög spennandi og það verður gaman að kafa ofan í það í ritgerðarvinnunni.

Ég er búin að koma mér í samband við breskan sérfræðing í fullorðinsfræðslu sem hefur unnið mikið að þróunarmálum og vonandi gengur það upp að ég geti farið til Bretlands og tekið við hann viðtal og fengið frekari upplýsingar. Það er nefnilegast ekki um auðugan garð að gresja hér í Brussel því prófessorinn minn hefur ekkert stúderað menntun og þróunarmál (hún er samt sérfræðingur í þróunarmálum) svo hún hefur lítið getað leiðbeint mér með fræðilegu hliðina á kennsluaðferðum og þvíumlíku þó svo hún aðstoði mig auðvitað eins og hún getur.

Það er svo farið að styttast í að mamma og amma komi í heimsókn en ég hlakka mikið til að fá loksins gesti. Það hefur enginn komið síðan pabbi var hérna í september svo það verður skemmtileg tilbreyting að túristast um Brussel og nágrenni í góðum félagsskap. Þangað til verð ég hinsvegar á haus í ritgerðinni því það er ekki seinna vænna að komast vel af stað þar.

Að lokum sendi ég hamingjuóskir í Grundarfjörðinn í tilefni dagsins en Daníel komst víst í fullorðinna manna tölu í dag. Til hamingju með daginn frændi!

Engin ummæli: