Þegar ég verð orðinn ríkur kennari...
Ég hef stundum látið þessi orð falla síðan ég ákvað það að ég ætlaði að verða kennari þegar ég yrði stór. Af einhverjum ástæðum hlægja allir þegar þeir heyra mig segja þessa setningu. Það virðast allir vera sammála um að kennarastarfið sé eitt það mikilvægasta í samfélaginu og að það eigi að vera vel launað. Samt sem áður hlægja allir að þessari litlu setningu minni og virðast ekki telja að ég eigi eftir að lifa það að verða ríkur kennari. Nema kannski ég vinni í lottóinu en það er nú önnur saga.
Er það bara ég eða er ákveðin þversögn í þeim skilaboðum sem samfélagið sendir kennurum? Jú þið vinnið mikilvægt starf og eigið að hafa góð laun - en þvílíkur brandari að það eigi einhvern tíman eftir að takast!! Sú staðreynd að það er nákvæmlega engin arðsemi af kennaranáminu segir sína sögu.
Það eru margir til að gagnrýna kennara núna. Finnst verkfallið rangt og bitna á þeim sem að minnst mega sín. Vissulega er það punktur - verkföll bitna alltaf á þeim sem síst eiga það skilið - en hvað eiga kennarar að gera? Halda áfram að sinna starfinu sínu af hugsjón á lúsarlaunum með síauknum vinnuskyldum án þess að nokkrar breytingar séu gerðar á vinnutímanum? Fólk lætur bara ekki bjóða sér það til lengdar og samstaða kennara sýnir einfaldlega að fólk er búið að fá alveg nóg.
Þeir sem gagnrýna hvað mest vita venjulegast minnst um það út á hvað starf kennarans gengur eða yfirhöfuð hvað það er sem kjaradeilan er að stranda á. Það fólk ætti virkilega að kynna sér málið áður en það kemur með yfirlýsingar. Vondi kallinn í þessu máli er ekki kennararnir og varla sveitarfélögin. Þetta er fyrirséður vandi síðan sveitarfélögin fengu skólana til sín án þess að fá til þess nægjanlegt fjármagn. Það þarf heldur ekki bara að borga kennurunum hærri laun, það þarf að stokka upp skólakerfið í heild sinni. Samfélagið er annað í dag en fyrir 10 árum og skólakerfið hefur ekki breyst í samræmi við breyttar kröfur þess.
Ég skal viðurkenna það að það stuðar mig virkilega að fá órökstudd komment hérna inn um það hvað kennarar séu ómögulegir og allan þann pakka. Kynnið ykkur um hvað málið snýst áður en þið takið afstöðu, fyrirsagnir blaðanna segja ekki alla söguna. Það er góð ástæða fyrir því að yfir 90% félagsmanna Kennarasambands Íslands samþykkti verkfall. Fólk gerir þetta ekki að gamni sínu.
Niðurstaða þessa verkfalls ræður því hvað ég fæ í laun þegar ég fer að kenna að loknu námi - eða hvort maður missir trúna á íslenskt menntakerfi og fer bara og gerir eitthvað allt annað. Ég ætla þó ennþá að halda í mína bjartsýni og leyfa mér að dreyma um það sem ég ætla að gera þegar ég verð orðinn ríkur kennari.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli