28 febrúar 2005

Kolla, Röggi er búinn að setja inn nýtt kommentkerfi svo þú getur póstað skilaboðum núna ;)

Dagný - þú ert ekkert að standa þig í þessu ;) ;)

Hann Sigurgeir Sturla litli frændi minn er 13 ára í dag. Til hamingju með daginn elskan mín og bestu kveðjur á nesið :)

27 febrúar 2005

Vika í formúlu!!

26 febrúar 2005

Jæja þá er hann Röggi bró farinn að blogga. Loksins getur maður farið að fylgjast með því sem hann er að bralla í Finnlandinu. Smá komment samt frá mömmu Röggi, hún getur ekki póstað kommentum á síðuna hjá þér. Þú getur sótt þér kommentkerfi eins og ég er með á haloscan.com.

25 febrúar 2005

Það er árshátíð í kvöld!!! Er búin að fá lánaðan alveg geggjaðan kjól hjá Ernu Sif og kvöldið verður tekið með trompi ;)

24 febrúar 2005

10 dagar í formúlu :D

23 febrúar 2005

Því hefur oft verið haldið fram að ég hafi karlmannsheila af því að ég get ekki gert tvennt í einu - en það afsannast hér með!!





Your Brain is 73.33% Female, 26.67% Male



Your brain leans female

You think with your heart, not your head

Sweet and considerate, you are a giver

But you're tough enough not to let anyone take advantage of you!


22 febrúar 2005

Þessi er stolin af blogginu hennar Rutar en af því að ég er svo mikill aulahúmoristi þá bara varð ég að setja hann hérna inn.


Það voru einu sinni tvær appelsínur saman út á sjó. Önnur datt í sjóinn og þá sagði hin: Flýttu þér að skera þig í báta!

21 febrúar 2005

Löngu tímabær yfirlýsing frá Félagi grunnskólakennara! Burt með þessi fjandans samræmdu próf!!

Smá pæling

Veit einhver hvert fyrsta boðorðið er?

Jæja, það er best að blogga um eitthvað annað en afmæli! Hvað geri ég ekki fyrir þig Biggi minn ;)

Seinasta vika fór í lærdóm og svo aðeins meiri lærdóm og svo pínu meiri lærdóm. Á helginni vorum við mamma svo að passa púkana hennar Dagnýjar systur. Ég er því búin að lesa Hvar er Valdi? þrisvar sinnum og finna allt sem hægt að finna í bókinni og lesa Gralla Gorm og stafa með Kristni Breka. Á laugardaginn fór ég með Kidda og Rakel í sund og um kvöldið horfðum við frændsystkinin á Thunderpants. Það er einhver bíómynd um strák sem rekur stanslaust við og það var mikil skemmtun fyrir 5 ára púkann. No comment frá frænkunni ;)
Í gær fórum ég og Kiddi svo í bíó. Þetta var í fyrsta skipti sem að ég fór í púkabíó en það var ágætt. Við sáum Bangsímon og frílinn og Kiddi skemmti sér konunglega. Þessi mynd var allavegana skemmtilegri en prumpumyndin...

Það verður svo mikið að gera næstu tvær vikurnar eða alveg þangað til að vettvangsnámið byrjar. Árshátíð Kennó er svo á föstudaginn og þá verður aðeins slett úr klaufunum. Það verður samt ekki Sálin Biggi en ég lofa að bjalla næst þegar ég dansa við Sálina ;)

19 febrúar 2005

Hann Arnar Páll litla krús er eins árs í dag. Foreldrar hans eru að heiman á afmælisdaginn svo hann hefur það bara gott hjá ömmu sinni og bestu frænkunni í dag :)

18 febrúar 2005

Hin eina sanna Hjördís Fjördís á afmæli í dag. Til hamingju með afmælið elskan mín og hafðu það uber gott í dag :)

17 febrúar 2005

ERLA
Eis forEnchanting
Ris forRelaxed
Lis forLegendary
Ais forAbstract

Allir að skrifa undir!!!

14 febrúar 2005

Hann Gubbi frændi minn (hann frændi minn sem er kallaður æl eins og einhver uber klár sagði :p) er fimmtugur í dag og óska ég honum innilega til hamingju með daginn. Hann Gubbi frændi er frægur fyrir mismæli sín og það er tilvalið að benda áhugasömum á að lesa bubbólínurnar hans inn á Flateyri.com (undir fólkið). Ég veit ekki af hverju þetta er kallað bubbólínur, svona mismæli eru í einfaldlega kölluð önfirska heima hjá mér....

Þessi mynd inn á síðu Bolungarvíkurkaupstaðar hefur verið afar umdeild. Núna er kominn linkur á þessa mynd á Tilverunni undir heitinu brrr...kuldaleg mynd....ekki langar mig að fara þangað Góð auglýsing fyrir Bolungarvík eða hitt þó heldur.....

13 febrúar 2005

Dagurinn í dag fór í að vinna verkefnið í lífsleikni - að gera eitthvað sem ég hef aldrei gert áður. Ég var í mestu vandræðum með hvað ég ætti að gera en hin yfirmáta gáfuðu systkini mín komu með nokkrar hugmyndir, t.d. að keyra upp Laugaveginn, bakka niður Laugaveginn eða hlaupa nakin niður Laugaveginn. Mér leist ekki alveg á að gera mig að fífli - enda hef ég svo sem gert það áður - svo ég bað um fleiri hugmyndir. Þá kom einhver með þá snilldar hugmynd að fara á samkomu hjá Krossinum eða öðrum sértrúarsöfnuði. Ég lagði reyndar ekki í það að fara í Krossinn. Fordómarnir mínir eru slíkir að ég sá fyrir mér að þar yrði ég gleypt með húð og hári svo hægt væri að reka alla djöfla úr mér.. eða eitthvað. Svo ég ákvað að fara í Hvítasunnusöfnuðinn Fíladelfíu. Reyndar þorði ég ekki ein - ég meina, þau gætu verið eitthvað biluð - svo ég tók mömmu með mér.

Við vorum mættar þarna snemma, settumst aftast og fylgdumst með fólkinu koma inn. Mér til mikillar furðu var þetta allt bara ósköp venjulegt fólk á öllum aldri og öllum þjóðfélagsgerðum. Allir voru bara voða vinalegir og það virtust bara allir þekkjast þarna. Mér fannst merkilegt að sjá að heilu fjölskyldurnar komu saman og hvað þetta var mikil fjölskyldustund. Það fannst mér jákvætt.

En svo byrjaði ballið og þá var gaman að stúdera liðið í halelúja og amen köllum. Það var mikið sungið og oft falleg lög og orkan sem myndaðist var gífurleg. Hef ekki fundið svoleiðis inn í neinni kirkju eða bara nokkurs staðar yfirhöfuð. Það sem kom mér mest á óvart var hvað allt var afslappað. Enginn að sussa á púkana eða að vesenast í einhverju stífu helgihaldi. Við mamma laumuðum okkur svo út eftir einn og hálfan tíma af dýrð sé guði en þá var ekki útlit fyrir að samkomunni væri að ljúka.

Það var gaman að prófa að fara á svona samkomu en það sló nú ekkert voðalega mikið á fordómana mína. Ég hef ekki þessa þörf fyrir að tilbiðja eitthvað sem er mér æðra og mína lífsfyllingu held ég að ég fái með því að þroska sjálfa mig. Mér finnst líka alltaf eitthvað ógeðfellt við peningaplokkið sem fylgir þessum söfnuðum. Það kom kall þarna upp og sagði að fórnin (samskotabaukur) væri að ganga og að það væru posar frammi fyrir þá sem væru ekki með lausan pening. Það stakk mig soldið því að í mínum huga snýst trú um nánungakærleik og að rækta garðinn sinn en ekki peninga.

En já, eins og ég sagði þá var gaman að prófa þetta. Mér finnst þetta fólk enn þá stór furðulegt en ég skil kannski aðeins betur út á hvað þetta gengur þrátt fyrir að mér finnist þetta uber öfgakennt. Á meðan að fólkinu líður ekki illa og enginn er að notfæra sér það þá hlýtur þetta að vera í lagi. Er fólk ekki almennt sammála um það?

10 febrúar 2005

Jæja, þá er minnz búinn að næla í sér í einhverja pest. Er að vísu bara með smá hita og hálsbólgu svo ég hef nú reynt að mæta eitthvað í vinnuna og í skólann en það fer lítið fyrir dugnaði heima fyrir. Litla systir mín var svo góð að senda mér fullt af Friends diskum svo ég ligg aðallega yfir því. Það er því lítið að frétta af þessum bænum. Ég er loksins byrjuð í öllum kúrsum í skólanum og kennararnir eru að drekkja okkur í verkefnum. Furðulegasta verkefnið sem ég á að gera þessa vikuna er í valinu mínu en það er kúrs í lífsleikni. Fyrir næsta þriðjudag á ég sem sagt að gera eitthvað sem ég hef aldrei gert áður. Systkini mín eru búin að koma með góða hugmynd og er planið að koma henni í framkvæmd yfir helgina. Ég segi frá því í næstu viku ;)

07 febrúar 2005

Þetta er nú búinn að vera meiri dagurinn. Ég byrjaði á því að bókstaflega fljúga á hausinn á bílastæðinu við Hofsstaðaskóla. Að sjálfsögðu voru allir iðnaðarmennirnir sem eru að vinna við íþróttahúsið við hliðina á skólanum mættir og urðu allir vitni að þessari flugferð minni. Ég var með skólatöskuna og þar með tölvuna mína á bakinu og flaug taskan náttla líka. Ég dreif mig bara inn í skólann og þegar ég labbaði fram hjá iðnaðarmönnum sneru þeir sér allir við með glottið á vörunum.

Sem betur fer var nú allt í lagi með tölvuna og ég meiddi mig ekkert - fyrir utan sært stolt. Ég vandaði mig samt mikið að labba á bílastæðinu þegar við Ása fórum í mat. En þá uppgötvaði ég það að bíllyklarnir mínir voru ekki í vasanum. Eins og ég hef alltaf vandað mig við að setja þá í vasann eftir að hafa týnt þeim í seinustu viku. Ása var nú ekkert að trúa mér þegar ég sagðist ekki finna lyklana og grét úr hlátri þegar ég fann þá á bílastæðinu akkúrat þar sem ég hafði flogið á hausinn fyrr um morguninn. Þeir höfðu sem sagt dottið upp úr vasanum við fallið.

Það er því eitthvað með mig og þetta blessaða bílastæði. Það er spurning hvort ég komist í gegnum tveggja vikna æfingakennslu þarna án þess að týna neinu og fljúga ekki á hausinn :-/

05 febrúar 2005

Þeir sem taka vel eftir sjá að það er kominn nýr linkur hjá mér. Það er linkur á heimasíðu Snyrtistofunnar Dísar sem hún Drífa hans Stjána Jóns var að opna fyrir stuttu. Sniðugt að fá sér förðun þar fyrir árshátíðina stelpur í Kennó ;)

Svo setti ég annan nýjan link inn fyrir ekki svo löngu. Hann pabbi minn er að gerast tæknilegur og var að gera heimasíðu. Endilega skoðið þið hana!

04 febrúar 2005

Þessi er svartur en góður ;)

George W. Bush og Tony Blair voru á fínum veitingastað að snæða kvöldverð saman. Maður, sem sat ekki langt frá þeim, tók eftir því að þeir áttu í heitum samræðum og töluðu mjög ákaflega. Maðurinn stóðst ekki mátið og stóð upp og gekk til þeirra í þeirri von að fá að komast að samræðum þeirra.
Þegar hann kom til þeirra varð hann mjög feiminn en samt sem áður sagði hann: "Ég komst ekki hjá því að heyra til ykkar, og af algjöri forvitni spyr ég; hvað voruð þið að tala um?
George glotti í áttina til Tony Blair og sagði: "Gaman að þú spurðir, væni. Við Tony erum að búa okkur undir árás á Írak mjög fljótlega. Okkur finnst heimurinn vera í hættu út af þeim. Það á samt að vera algjört hernaðarleyndarmál!"
"Vá, það er rosalegt! Eruð þið búnir að gera einhverjar áætlanir, t.d. hversu marga þið ætlið að drepa?"
"George glotti aftur til Tony og sagði: "Já, það er allt frágengið. Takmarkið okkar er að drepa um 2 milljónir múslima og 1 tannlækni."
"Ha?" -sagði maðurinn gáttaður. "Bíddu, af hverju í ósköpunum tannlækni? Hver er ástæðan fyrir því?"
"HAHAHAHAHA! Þarna hefurðu það, Tony!" öskraði George yfir allan staðinn.
"Ég sagði þér að enginn myndi pæla í þessum múslimum!!"

03 febrúar 2005

Já og heyrðu Pétur, þessi síðasti pistill er kannski ekki beint að fegra geðheilsuna mína en ég las það í alvörunni einhvers staðar að það að tala við sjálfan sig styrkir tengingar taugafruma í heilanum og gerir mann miklu klárari! Og ef ég á ekki að gleyma sjálfri mér einhvern daginn þarf ég á öllum tengingum sem heilinn getur myndað að halda svo að ég babbla bara við sjálfa mig eins og ég mögulega get og skammast mín ekkert fyrir það. Nágrannarnir halda bara að ég sé með gesti ;)

Undanfarnar vikur hef ég verið óvenju mikið utan við mig og sauðshátturinn er farinn að ná nýjum hæðum. Mér til mikillar gremju en sumum vinum mínum til mikillar skemmtunar. Við Ása erum búnar að vera í Hofsstaðaskóla í áheyrn fyrir vettvangsnámið okkar og þegar ég mætti þangað einn morguninn í þessari viku tókst mér að týna bíllyklunum mínum. Þegar við stöllur ætluðum í hádegismat fundust hvergi lyklarnir. Það var leitað og leitað og að lokum brunað heim að sækja varalyklana svo minnz kæmist heim eftir skóla. Ása vildi samt endilega tékka á því hvort að einhver hefði fundið lyklana og skilað þeim á skrifstofu skólans og jújú vissulega var einhver öfga heiðarlegur sem gerði það og kann ég honum/henni bestu þakkir fyrir. Ég þarf hins vegar að vera meira vakandi þegar ég set hluti í vasann. Í staðinn fyrir að setja bíllyklana í vasann henti ég þeim einfaldlega á götuna.

Amma segir að ég eigi að hætta að vera svona utan við mig og fara að vera skýr í hausnum því að ég sé ekki orðin nógu gömul til að vera svona rugluð. Ég vil halda því fram að það sé glötuð barátta, ég geti ekkert að því gert að ég sé svona mikill sauður, þetta sé einfaldlega arfgengt. Enda R?????? Ég segi bara enn og aftur, hver fattar það?

02 febrúar 2005

Hún Kolla frænka á afmæli í dag. Til hamingju með daginn!! Vonandi áttu eftir að hafa það öfga gott í dag :)

01 febrúar 2005

Ég horfði á heimildarmynd um Mjóddina á RÚV á sunnudagskvöldið. Ég vil nú ekki vera eitthvað fordómafull eða neitt slíkt en oh my god!!! Þetta voru eintómir sauðir sem komu fram í myndinni og það eina sem ég hugsaði á meðan ég grét úr hlátri yfir myndinni var að ég ætlaði mér aldrei, aldrei að vinna í Mjóddinni. Sá einhver þessa mynd??