13 febrúar 2005

Dagurinn í dag fór í að vinna verkefnið í lífsleikni - að gera eitthvað sem ég hef aldrei gert áður. Ég var í mestu vandræðum með hvað ég ætti að gera en hin yfirmáta gáfuðu systkini mín komu með nokkrar hugmyndir, t.d. að keyra upp Laugaveginn, bakka niður Laugaveginn eða hlaupa nakin niður Laugaveginn. Mér leist ekki alveg á að gera mig að fífli - enda hef ég svo sem gert það áður - svo ég bað um fleiri hugmyndir. Þá kom einhver með þá snilldar hugmynd að fara á samkomu hjá Krossinum eða öðrum sértrúarsöfnuði. Ég lagði reyndar ekki í það að fara í Krossinn. Fordómarnir mínir eru slíkir að ég sá fyrir mér að þar yrði ég gleypt með húð og hári svo hægt væri að reka alla djöfla úr mér.. eða eitthvað. Svo ég ákvað að fara í Hvítasunnusöfnuðinn Fíladelfíu. Reyndar þorði ég ekki ein - ég meina, þau gætu verið eitthvað biluð - svo ég tók mömmu með mér.

Við vorum mættar þarna snemma, settumst aftast og fylgdumst með fólkinu koma inn. Mér til mikillar furðu var þetta allt bara ósköp venjulegt fólk á öllum aldri og öllum þjóðfélagsgerðum. Allir voru bara voða vinalegir og það virtust bara allir þekkjast þarna. Mér fannst merkilegt að sjá að heilu fjölskyldurnar komu saman og hvað þetta var mikil fjölskyldustund. Það fannst mér jákvætt.

En svo byrjaði ballið og þá var gaman að stúdera liðið í halelúja og amen köllum. Það var mikið sungið og oft falleg lög og orkan sem myndaðist var gífurleg. Hef ekki fundið svoleiðis inn í neinni kirkju eða bara nokkurs staðar yfirhöfuð. Það sem kom mér mest á óvart var hvað allt var afslappað. Enginn að sussa á púkana eða að vesenast í einhverju stífu helgihaldi. Við mamma laumuðum okkur svo út eftir einn og hálfan tíma af dýrð sé guði en þá var ekki útlit fyrir að samkomunni væri að ljúka.

Það var gaman að prófa að fara á svona samkomu en það sló nú ekkert voðalega mikið á fordómana mína. Ég hef ekki þessa þörf fyrir að tilbiðja eitthvað sem er mér æðra og mína lífsfyllingu held ég að ég fái með því að þroska sjálfa mig. Mér finnst líka alltaf eitthvað ógeðfellt við peningaplokkið sem fylgir þessum söfnuðum. Það kom kall þarna upp og sagði að fórnin (samskotabaukur) væri að ganga og að það væru posar frammi fyrir þá sem væru ekki með lausan pening. Það stakk mig soldið því að í mínum huga snýst trú um nánungakærleik og að rækta garðinn sinn en ekki peninga.

En já, eins og ég sagði þá var gaman að prófa þetta. Mér finnst þetta fólk enn þá stór furðulegt en ég skil kannski aðeins betur út á hvað þetta gengur þrátt fyrir að mér finnist þetta uber öfgakennt. Á meðan að fólkinu líður ekki illa og enginn er að notfæra sér það þá hlýtur þetta að vera í lagi. Er fólk ekki almennt sammála um það?

Engin ummæli: