Jæja, þá er kominn tími á fyrsta blogg ársins og er við hæfi að byrja á því að óska öllum gleðilegs árs :)
Ég hafði það alveg ljómandi gott hjá henni ömmu yfir jólin og hefði alveg verið til í að vera þar lengur. Ég fékk margt fallegt í jólagjöf og vil bara nota tækifærið og þakka fyrir mig. Áramótin voru róleg og góð og við höfðum það huggulegt skötuhjúin á nýársdag. Við vorum þó ekki lengi að á gamlárskvöld þar sem mér tókst að detta all hressilega inn í nýja árið. Ég rann á hnjánum niður útitröppurnar hjá Kidda og Ingibjörgu og var lítið upplögð í partýstand eftir það. Það skal þó tekið fram ég var bílstjóri kvöldsins svo að ég get bara kennt hálku og eigin klaufaskap um hvernig fór. Það er þó sagt að fall sé fararheill svo það er vonandi að það boði gæfu að detta inn í nýja árið ;)
Ég ætlaði ekki að bulla meira hérna inn að sinni en mig langar að benda á eina frétt á vísi.is þar sem sagt er að Vestfirðingar séu ánægðastir með Sturlu Böðvarsson af öllum sínum þingmönnum. Þessu fannst mér nú erfitt að trúa og sá þegar ég opnaði fréttina að lesendur Skessuhorns - sem er í Borgarnesi ef ég man rétt - voru ánægðastir með Sturlu. Blaðamaðurinn sem skrifaði þessa frétt þyrfti því að rifja upp landafræðina sína áður en hann skellir fram næstu fyrirsögn!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli