28 júní 2007

Hollustan er dýr

Ég kom seint heim í gær og hljóp inn í Hagkaup rétt fyrir lokun og greip með mér pulsupakka. Ákvað að hafa smá hollustu í þessu og keypti speltpulsubrauð með. Ég er ennþá að reyna að ná hvaða forsendur liggja á baki verðinu á brauðunum en 5 brauð kostuðu 139 kr. Poki af 5 hvítum brauðum kostar um 70kallinn - ef þau eru hreinlega ekki ódýrari. Mér finnst það alveg ótrúlegt að það skuli nánast vera munaður hér á landi að leyfa sér að borða hollan mat. Ég hef oft þurft að velta fyrir mér hverri krónu nokkrum sinnum áður en ég eyði henni og ef maður ætlaði að halda matarkostnaðinum í lágmarki þá hreinlega borgaði það sig að kaupa óhollan mat. Mér finnst það alveg magnað að stjórnvöld hafi ekki horft í þessa átt í vsk-lækkuninni í vetur. Þessi lækkun skilaði mér allavegana engu enda versla ég eins hollan mat og ég get í 90% tilvika - sem þýðir lífrænt ræktað og hreinn matur fyrir þá sem ekki kunna þessi fræði. Heimilisbókhaldið sýnir þvert á móti að ég eyði meiru í mat og er ég þó ekki að leyfa mér meiri munað en fyrir lækkunina.

Ég velti því fyrir mér þegar ég labbaði út úr Hagkaup í gær hvort að framleiðendur og verslunareigendur stíli inn á það að hafa hollustuvöruna dýrari því þeir sem hugsa um hvað þeir láta ofan í sig láta sig oft hafa það að borga meira fyrir vöruna en góðu hófi gegnir til þess að geta viðhaldið hollum lífstíl. Þeir gera allavegana lítið til að kynna þessar vörur því nær undantekningarlaust er nánast eingöngu boðið upp á tilboð á sælgæti, gosi og lítt hollum mat þegar tilboðsblöðin koma inn um lúguna á fimmtudögum. Þrátt fyrir að ástandið hafi skánað mikið á undanförnum árum þá er samt ennþá langt í land og ég bíð spennt eftir því að einhver átti sig á því að það er markaður fyrir holl matvæli á Íslandi og opni fyrstu lágvöruverslunina þar sem hollustan er höfð í fyrirrúmi.

Ég verð hins vegar að viðurkenna að ég hef enga trú á íslenskum stjórnvöldum í þessum efnum og ég held að skattar og álögur á hollan mat verði seint lækkaðar umfram aðrar vörur þrátt fyrir allan þann kostnað sem óhollt mataræði kostar samfélagið á hverju ári. Það hefði svo verið áhugavert að fá að sjá vsk uppgjör verslana og veitingastaða fyrir mars-apríl á þessu ári samanborið við síðasta ár - já eða bara janúar-febrúar á þessu ári. Ég hef lúmskan grun um að þeir hafi verið ánægðari með það sem þeir greiddu í vsk seinast en oft áður.

Engin ummæli: