13 febrúar 2008

Almennt röfl

Mikið svakalega fara auglýsingarnar frá MS í taugarnar á mér. Þar sem fólk sem drekkur ekki mjólk er hálfpartinn sett fram sem hálfvitar og farðað þannig að það lítur út fyrir að vera fárveikt. Ég hef ekki drukkið mjólk síðan ég fór að hafa vit á því að harðneita þegar hún var pínd ofan í mig. Ég er engin hálfviti og þau veikindi sem ég hef átt við að stríða í gegnum tíðina koma því einfaldlega ekkert við að ég drekk ekki mjólk og borða ekki mjólkurvörur. Seinna meir kom auðvitað í ljós að ég er með mjólkuróþol en fyrir utan það eru mjólkurvörur eitur fyrir þær konur sem eru með endómetríósu. Eru númer eitt á bannlistanum. Auðvitað eru mjólkurvörur hollar en þær eru ekki hafnar yfir gagnrýni frekar en aðrar matvörur. Ég held að það sé ágætt fyrir alla að hafa það í huga. Kannanir mega sín oft lítils þegar afkoma heillrar iðngreinar liggur á bakvið þær og það er afar mikilvægt að hafa það í huga þegar hollusta matvara yfir höfuð er skoðuð að oft eru milljarða hagsmunir í húfi að niðurstöðurnar séu ,,réttar".

Önnur auglýsing sem fer svaðalega í taugarnar á mér er kattarauglýsingin frá Símanum um collect símtöl. Fyrir utan hvað mér finnst þær mikill viðbjóður - enda hef ég lítinn áhuga á innyflum katta - þá vekja þær hjá mér tvenns konar viðbrögð. Annars vegar skipti ég venjulega um stöð og hins vegar velti ég því fyrir mér hvernig ég geti afþakkað það að fá svona collect símtöl. Auðvitað getur þetta komið að góðum notum en þetta er augljóslega vatn á myllu þeirra sem hafa hingað til hringt og skellt á þegar þeir eiga ekki inneign og vilja að það sé hringt til baka. Eins góð og þessi þjónusta er fyrir þá er hún jafn hvimleið fyrir þá sem þurfa alltaf að borga. Ég prísa mig allavegana sæla að eiga ekki vini sem horfa á collect símtöl sem leið til að fá aðra til að borga brúsann.

Annars var ég að koma úr þriðju svæfingunni á innan við tveimur árum. Þeirri fyrstu samt sem ég sá ekki ástæðu að biðja um kæruleysispillu fyrir aðgerðina. Þetta gekk svo sem allt vel bara og nú tekur við viku afslöppun og rólegheit.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Algjörlega sammála þér Erla, ég fæ alveg gubbu þegar ég sé símaauglýsinguna...ekkert smá óþolandi auglýsing ásamt "Hæ þetta er Ásgeir í Tölvulistanum..."
En góðan bata elskan og farðu vel með þig...
knús að vestan, Ella