27 febrúar 2008

Hvað er ást?

"Maðurinn minn vill breyta mér. Hann er á móti því að ég vinni sem listamaður og vill að ég fái mér fasta vinnu. Ég get ekki hugsað mér það því ég elska það sem ég er að gera. Og ég veit af gamalli reynslu að ég þoli ekki rútínu, enda Tvíburi og Hrútur. Tekjurnar hjá mér eru óreglulegar og hann þarf því stundum að halda mér uppi. Þetta er því svolítið erfitt ástand." Hún leit á mig og brosti. Aðlaðandi kona, bæði kvenleg og orkumikil.

"Ef hann styður þig ekki í því sem þú ert að gera þá elskar hann þig ekki", sagði ég umbúðalaust. "Ást er að elska hinn aðilann eins og hann. Ást byggir á gagnkvæmri virðingu og stuðningi. Að vilja breyta annarri manneskju í spegilmynd af sjálfri sér er ekki ást. Svo einfalt er það."Hún horfði á mig svolitla stund og sagði síðan: "Þetta er rétt hjá þér. Hann vill breyta mér í sig. Og það gengur ekki.""Það er algjörlega vonlaust", sagði ég, "slíkt drepur þig og það drepur síðan ástina sem er á milli ykkar. Því ef þú ert ekki þú sjálf og nýtur þín ekki, þá hefur þú á endanum ekkert að gefa. Það kulnar í þér og smátt og smátt færist doði yfir líf þitt. Það verður einfaldlega drepleiðinlegt. Og ástin deyr.

"Við sátum kyrr og horfðumst í augu. "Maðurinn minn er Meyja og Vog. Hann vill hafa allt huggulegt og snyrtilegt í kringum sig. Og ég á að vera þannig. En þegar ég er að búa til listaverk, þá er allt í drasli í kringum mig, allt útum allt, litir, efni og hlutir. Það finnst mér frábært. Svo tekur verkið á sig mynd, ég lýk því og fer síðan að svipast um eftir næsta verkefni." "Já" sagði ég "hann féll fyrir þér af því að þið eruð ólík. Þú ert lífleg og skapandi. Og komst eins og ferskur andblær inní líf hans. En svo hætti hann smátt og smátt að þola það sem hreif hann í upphafi. Og vill breyta þér. Þú verður að halda þínu striki. Segja einfaldlega við hann, svona er ég, "take it or leave it." Alls ekki reyna að breyta þér. Ef þú stendur ekki með sjálfri þér, hver gerir það þá?"

Ein af ástæðunum fyrir stjórnsemi í samskiptum er ótti við missi. Ef maðurinn nær að móta þig í sína mynd, þá verður hann öruggari með sig. Hann telur sig koma í veg fyrir að þú farir frá honum. Þetta er auðvitað blekking, því með því að breyta þér er hann að missa þig. Þú, hin raunverulega þú, verður ekki lengur til staðar þegar búið er að breyta þér í aðra konu. Þessi ótti við missi gerir það að verkum að margir setja stein í götu maka síns. Ef konan mín fer í lögfræði og útskrifast með láði eða verður frægur listamaður, missi ég hana þá ekki? Þessi ótti verður oft til þess að þeir sem 'elska' okkur, vona innst inni að okkur gangi ekki of vel. Svolítið öfugsnúið, en eigi að síður satt. Því miður. Það sem margir átta sig ekki á er það hversu þakklát við verðum þeim sem elska okkur og hjálpa án skilyrða. Við viljum dvelja þar sem við fáum ást og stuðning.

Því hvar er betra að vera en þar sem maður er elskaður, með vörtum og öllu?

Þessi góði pistill er tekinn af stjörnuspeki.is.

Engin ummæli: