Það má tala um snjóflóð núna
eins og segir í þessu frábæra bloggi sem gefur góða mynd af því andrúmslofti sem ég ólst upp við heima í Víkinni. Ég bíð hins vegar ennþá eftir því að það megi tala um hættu á jarðskjálftum og eldgosum á Höfuðborgarsvæðinu og þá staðreynd að engin rýmingaráætlun er til fyrir svæðið - ekki einu sinni fyrir einstök hverfi - ef náttúruhamfarir eiga sér stað. Það má svo sem færa rök fyrir því að það sé nánast óraunhæft að búa til rýmingaráætlun fyrir Höfuðborgarsvæðið allt en hins vegar ætti að vera mjög raunhæft að búa til rýmingaráætlanir fyrir einstök hverfi og hvert væri þá best að færa fólk. Ég skal þó viðurkenna að það er komið ár síðan ég heyrði viðtal við yfirmann Almannavarna Reykjavíkur þar sem hann viðurkenndi að engar rýmingaráætlanir væru til. Ef þær hafa hins vegar orðið til síðan þetta viðtal var tekið þá hafa upplýsingar um þær varla farið hátt.
Mér finnst allavegana umhugsunarefni þegar byggð Höfuðborgarinnar og bæjarfélaganna í kring er farin að dreifa sér víðar og byggð skipulögð alstaðar þar sem er pláss fyrir hana að engin umræða sé um hvort ný byggingarsvæði séu t.d. þekkt sprungusvæði og hver séu í raun gæði byggingarlandsins. En það er ekki spurt að því og þetta þykir ekki meira tiltökumál en þegar byggt var upp í fjöll fyrir vestan. Það er ekki laust við að fólk sem vill ræða þessi mál þyki jafn skrýtið og þeir sem bentu á snjóflóðahættu fyrir vestan fyrir flóðið í Súðavík. Ég vona samt að það verði grundvöllur til að ræða þessi mál á vitsmunalegan hátt á fjölmennasta horni landsins og menn læri af þeim harmleikjum sem urðu í Súðavík og á Flateyri árið 1995.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli