09 mars 2008

LÍN - vinur námsmannsins?

Eins og hefur komið fram á síðunni þá er ég að fara erlendis í nám í haust. Það er óneitanlega kominn spenningur í mig og ég skoða mikið á netinu tengt skólanum og Brussel. Krossa bara fingur að ég eigi ekki eftir að týnast á djamminu þar eins og Waris Dirie - en það er nú önnur saga. Í vikunni fékk ég Prospectus frá skólanum í pósti sem gildir fyrir næsta vetur og settist niður að lesa. Margt skemmtilegt sem kom þar fram og ég varð bara spenntari fyrir því að fara út. Alveg þangað til ég fór og skoðaði heimasíðu LÍN. Þá varð reikningsdæmið allt svo miklu þyngra.

Þegar ég byrjaði í Kennó 2003 fékk ég heilar 30.000 kr á mánuði í námslán og var þá skráð inn í kerfið sem einstaklingur í leiguhúsnæði. Þar sem ég var að koma af vinnumarkaðinum fékk ég svona mikla skerðingu á námslánin enda mátti ekki þéna nema um 250.000 kr á ári á þessum tíma án þess að námslánin skertust. Þar sem ég hafði enga fyrirvinnu á meðan ég var í skólanum var ekkert annað í stöðunni en að fá sér vinnu með skólanum. Sem þýddi meiri skerðingu á námslánin önnina á eftir og endaði ég á að vinna 50-80% vinnu með skólanum öll þrjú árin. Ekkert afar skynsamlegt en kerfi LÍN bauð ekki upp á annað ef ég ætlaði mér ekki að sofa í bílnum og sníkja mat af mínum nánustu.

Ég er búin að vinna mikið í ár og í fyrra reyndar líka, aðallega til þess að borga niður skuldir eftir seinasta nám og til þess að safna mér pening svo ég geti farið erlendis í nám - já eða bara í nám yfir höfuð. Vinnan þykir hins vegar ekki göfga manninn hjá LÍN og þar sem ég hef verið dugleg að vinna til þess að eiga eitthvað í handraðanum annað en skuldir þegar ég verð komin út þá fæ ég skerðingu á námslánin mín vegna tekna. 10% af heildartekjum takk fyrir pent. Skiptir þá engu hvort maður hefur þénað eina milljón eða fjórar. Ef ég leigi svo íbúðina mína út á meðan ég er í skólanum telst það sem tekjur í minn vasa og skerðir námslánin mín enn frekar. Það virðist vera metnaður hjá LÍN að passa upp á að allir hafi það nú jafn skítt á meðan þeir eru í námi.

Í NLP heitir hugsunin sem LÍN batteríið er planað eftir frá hugsun. Í grófum dráttum má útskýra það þannig að það er stöðugt verið að passa upp á að enginn fái of mikið í staðinn fyrir að fókusera á það að allir hafi nóg. Það er stór munur á því að vera alltaf að hlaupa frá einhverju eða stefna að einhverju. Í dag er grunnframfærsla LÍN lægri en fullar örorkubætur frá Tryggingastofnun. Ég hef ekki heyrt neinn nema Pétur Blöndal halda því fram að öryrkjar hafi úr nægu að moða. Ég held að rökin hans dæmi sig sjálf. Nýlega var í fréttum að menntunarstig íslensku þjóðarinnar væri langt fyrir neðan meðaltal OECD ríkjanna. Íslendingar fara í hrönnum í nám til Danmerkur og annarra landa þar sem mun betur er búið að námsmönnum en hér heima á Fróni. Í dag er fátt annað en fjölskyldan sem togar fólk heim aftur eftir nám. Húsnæði er ódýrara erlendis og aðbúnaður barnafjölskyldna oft mun betri.

Væri ekki þjóðráð hjá íslenskum stjórnvöldum að fara að styðja íslenska námsmenn og fjárfesta af einhverju viti í framtíð íslensku þjóðarinnar? Afnema tekjutengingu LÍN og hækka grunnframfærsluna þannig að hún sé í einhverju samhengi við hvað það kostar að lifa á Íslandi í dag? Hvetja námsmenn t.d. með því að fella niður endurgreiðslu námslána ef ákveðnum námsárangri er náð og taka að einhverju leyti upp styrkjakerfi í stað þess að horfa á það sem sjálfsagt mál að fólk eigi ekki bót fyrir boruna á sér á meðan það er í námi og refsa því fyrir hverja krónu sem það vinnur sér inn? Í NLP heitir sú hugsun hugsun. Þar er verið að stefna í áttina að einhverju og byggja upp. Þá fyrst fara hlutirnir að gerast. Þá fyrst verður LÍN vinur námsmannsins. Skyldi ég eiga eftir að lifa það?

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ótrúlegt námsmannakerfi hér á landi, vítahringur og gerir engum auðvelt að stunda nám. Áfram vestfirðir.