26 nóvember 2008

Endalausar ritgerðir

Bara 24 dagar í að ég komi heim og á þeim tíma ætla ég mér að skrifa 3 ritgerðir sem hver á að vera 3-4.000 orð. Ekkert svakalegar lengdir en það þarf slatta undirbúning til að gera þetta vel og ég ætla nú gera meira en bara rétt að ná. Er búin að velja mér efni í 2 af ritgerðunum en er búin að vandræðast mikið með þá þriðju - og á einmitt að skila inn tillögu að henni til prófessorsins í dag! Heppilegt.... Hann reyndar veit að ég er í tómum vandræðum því það var samið um efnið sem ég ætlaði að skrifa um svo það gerist varla neitt stórkostlegt ef tillagan fer ekki inn fyrir miðnætti - en ef ég ætla mér að ná að klára þetta allt fyrir jólafrí þarf ég að gjöra svo vel og sparka mér í gang.

Ég á að skila einni ritgerð í hagfræði og er að spá í að skrifa þar um alþjóðavæðingu og mismunandi áhrif hennar á þróuð og vanþróuð ríki. Maður myndi ætla að alþjóðavæðing kæmi vanþróuðum ríkjum vel en svo er ekki. Þar sem þetta er í fyrsta skipti sem ég læri hagfræði og ég hef nánast ekkert vit á einhverjum módelum og slíku þá held ég að þetta sé nokkuð seif efni. Öruggara en gengi gjaldmiðla allavegana!

Önnur rigerðin er í IRT (international relations theory). Það er skyldukúrs þar sem við erum að læra um kenningarnar í IR. Þurfum að velja okkur konflikt og nota hann til að gagnrýna eina kenningu og nota svo aðra kenningu til þess að útskýra konfliktinn. Alveg svaðalega spennandi og ekki þurrt fyrir fimm aur... Þarna er ég að spá í að nota Þorskastríðin og er nokkurn vegin búin að velja mér kenningar til þess að nota með.

Þriðja ritgerðin er í negotiation and mediation og þar eigum við að velja okkur konflikt sem er í gangi núna, á milli tveggja eða fleiri aðila, velja okkur aðila til þess að ráðleggja og ritgerðin er svo ráðlegging til þess aðila um lausn deilunnar. Ég ætlaði alltaf að skrifa um Icesave og var búin að fá samþykki fyrir því en þá leystu þeir bara deiluna sem þýðir að ég má ekki skrifa um hana. Bölvaður dónaskapur að geta ekki beðið með það fram yfir daginn í dag! Það er ekki lítið mál að velja sér efni í þessu því það er ekki eins og maður horfi til Kongó eða Palestínu og Ísrael og hristi eins og eitt stykki lausn fram úr erminni. Ég er aðeins farin að horfa til Kína og Tíbet og hafði þá hugsað mér að ráðleggja sjálfum Dalai Lama. Er aðeins búin að lesa mér til um þann konflikt og er að melta með mér mögulegar lausnir.

Fyrir utan þetta allt þarf ég að gera simulation í n&m. Okkur verður úthlutað karakterum þar og fáum upplýsingar um hans stöðu og bakgrunn. Síðan þurfum við að setja okkur í samband við aðra í hópnum sem fengu annan karakter og þurfum að semja um málið. Það fer heill laugardagur í verklega hlutann í þessu eftir hálfan mánuð og svo þarf að skila inn skriflegri strategíu líka. Þetta er reyndar lúmskt gaman. Gerðum eina stutta svona æfingu í seinustu lotu og það var ótrúlegt hvað maður datt inn í karakterinn sinn. Minn var samt með pólitískt skítlegt eðli og það var ekki gaman að leika þann hluta og ég átti frekar bágt með að halda andlitinu þá. En það var gaman að prófa þetta og fá smá skilning á því hernig n&m fara fram og hvað hlutirnir snúast oft miklu meira um pólitík og valdapot heldur en málefnin sjálf.

En jæja, þá er ég búin að kortleggja þetta fyrir sjálfa mig sem verður vonandi til þess að tillögunni verði skilað inn í seinasta lagi á morgun og ritgerðarskrif byrji af fullum krafti strax á mánudag. Skjalfesti hér með það markmið að þetta verði allt klárt föstudaginn 19. desember. Gangi mér vel!

24 nóvember 2008

Úti er alltaf að snjóa

Labbaði í búðina áðan í GRENJANDI rigningu. Held að ég hafi eyðilagt leðurhanskana mína á leiðinni svo mikil var rigningin. Bað þess í hljóði á meðan ég var að versla í matinn að það yrði búið að stytta upp áður en ég labbaði heim. Hefði kannski þurft að vera ögn skýrari því það var svo sem hætt að rigna en það hafði bætt örlítið í vindinn og farið að snjóa! Það er því óhætt að segja að þetta hafi verið hressandi göngutúr, maður fékk það næstum því á tilfinninguna að maður væri kominn heim.

Það er því kalt í Brussel þessa dagana. Ég ligg undir teppi í aukapeysu og hosunum sem amma sendi mér og reyni að læra en mér er samt kalt. Næsta skref er að setja utan um gestasængina og sjá hvort að hún ylji meira en teppið. Það er óhætt að segja að það verði gott að komast heim í almennilega upphituð hús! 26 days and counting...

22 nóvember 2008

Snjókorn falla

Var að koma heim úr afar endurnærandi göngutúr um götur Brussel. Er búin að sitja og lesa hagfræði í dag og fannst það alveg kjörið að drífa mig út í göngutúr þegar það byrjaði að snjóa.




Það fór hins vegar ekki mikið fyrir snjónum eins og sjá má á myndinni og ég sá akkúrat engan snjó í göngutúrnum mínum. Mér fannst það samt hressandi að fá smá snjókomu ólíkt flestum samnemendum mínum sem eiga ekki til orð yfir það að það sé að snjóa hérna - og það undir lok nóvember. Það er auðvitað merkilegur andskoti.
Annars er þetta búið að vera ansi róleg vika og það er varla hægt að segja að ég hafi þurft að mæta í skólann. Ég notaði tækifærið og verslaði allar jólagjafirnar og er búin að pakka þeim inn líka. Núna er bara að koma öllu af stað í póst og sjá hvort ég geti ekki sent eitthvað með til að minnka líkurnar á yfirvigt þegar ég fer heim um jólin - sem verður eftir nákvæmlega 4 vikur. Ég er farin að hlakka mikið til að komast aðeins heim og það er ágætt að það verði meira en nóg að gera í skólanum þangað til. Tíminn líður þá bara aðeins hraðar.

Á næstu helgi ætlum við Linda til Kölnar á hinn víðfræga jólamarkað. Förum snemma á laugardagsmorgni og komum aftur á sunnudeginum. Ég held að þetta verði ágæt tilbreyting og gaman að fá að skoða Köln þó svo að stoppið sé stutt. Annars verður bara legið yfir námsbókunum fram að jólafríi og ég ætla að reyna að klára þessar 3 ritgerðir sem á að skila strax eftir jólafrí.

Ég hef sagt frá því hérna áður að það sé ansi mikið kattarfár á veröndinni hjá mér og hérna í kring. Mér er hætt að bregða við það þó svo að þeir standi og mæni inn til mín blessaðir. Ég hrökk hins vegar ansi illilega við í vikunni þegar það stóð hundur og horfði inn um gluggann hjá mér og gelti hátt. Mér brá svo að ég hrópaði upp og hundurinn hvarf mjög fljótlega. Hann kom hins vegar aftur í gær og þá náði ég að smella af honum mynd - svona því til sönnunar að ég væri ekki orðin klikkuð.
En jæja, hagfræðin bíður. Au revoir þangað til næst.

19 nóvember 2008

Ævisagan Tabú

Ævisaga Harðar Torfa er komin út og ég verð að segja að þetta er bók sem mig langar virkilega til að lesa. Ég held að hún sé holl lesning fyrir alla á þessum síðustu og verstu og mæli með henni í jólapakkann í ár.

14 nóvember 2008

Ypres - myndablogg

Jæja, ætla að gera aðra tilraun við að koma inn ferðasögunni til Ypres. Ætla að prófa að setja hana inn í myndaformi. Það eru hins vegar bara örfáar útvaldar myndir, þið verðið að fara á Facebook til að skoða restina ;-)


Ætli helvíti sé ekki ágætis lýsing á Vesturvígstöðvunum...

Poppies blóm sem er minningartákn um fyrri heimsstyrjöldina.
Þau voru alstaðar!


The Menin Gate.

Minnisvarði Breta um þá sem létust en eiga sér enga gröf. Þarna eru rituð

nöfn tæplega 55.000 manna.



Skotgrafirnar í Sanctuary Wood


Tyne Cot, breskur kirkjugarður.

Langemark, þýskur kirkjugarður. Þarna eru margfalt fleiri grafnir en í Tyne Cot,

þó svo það fari lítið fyrir því.

Mér finnst við hæfi að enda þetta á gröf óþekkts hermanns úr Tyne Cot.

Þetta var mögnuð ferð og maður gerir sér fyrst grein fyrir því núna hvað það dóu

alveg svakalega margir í þessu stríði. The Great War er þetta kallað en í mínum

huga er þetta mannlegur harmleikur, hvernig sem á það er litið.

13 nóvember 2008

Ypres - In Flanders' Fields

Ég var búin að setja inn langa færslu um ferðina til Ypres og fullt af myndum en blessaður bloggerinn neitaði að setja þetta inn. Ferðasagan kemur því síðar, ljóðið In Flanders' Fields og ein mynd verða að duga í bili. Myndin er úr þýska kirkjugarðinum Langemark.



In Flanders' Fields

In Flanders' Fields the poppies blow

Between the crosses, row on row,

That mark our place; and in the sky

The larks, still bravely singing, fly

Scarce heard amid the guns below.

We are the dead. Short days ago

we lived, felt dawn, saw sunset glow,

loved and were loved, and now we lie

in Flanders' fields.

Take up your quarrel with the foe:

To you from failing hands we throw

the torch, be yours to hold it high.

If ye break faith with us who die

we shall not sleep, though poppies grow

In Flanders' fields.

10 nóvember 2008

Ritgerðin klár

og ég er nánast búin að lesa allt lesefni sem var sett fyrir þessa vikuna líka. Það verður því rólegra andrúmsloft þessa vikuna heldur en var útlit fyrir fyrir helgi. Eða allavegana hjá mér. Er búin að heyra í nokkrum sem eru ekki byrjaðir á ritgerðinni enda fékk ég að heyra það þegar ég sagðist nánast vera búin. "You're so responsible it's scary". Ég læt það nú samt vera. Á meðan ég átti að vera að skrifa ritgerð í seinustu viku tók ég mig til og lærði að sækja mér þætti á netið til að horfa á og kláraði að horfa á heila 9 One Tree Hill þætti og var almennt séð algjörlega andlaus og löt. Ef maður er impressive í svoleiðis gír þá er spurning hvað liðið segir þegar það er einhver kraftur í manni :p

Um leið og fyrsta ritgerðin fer í hús raðast hinar upp. Þarf að skrifa þrjár í viðbót plús eitt stórt skilaverkefni í negotiation sem er bæði verklegt og skriflegt. Svo er það mastersritgerðin. Ég þarf að skila inn grind strax eftir jólafrí svo ég þarf að fara að pæla í umfjöllunarefni. Ástandið heima á klakanum er manni hugleikið þegar maður veltir því fyrir sér. Mig langar mikið að fá að analysera Icesave deiluna við Breta í lokaverkefninu í negotiation enda er deilan að mörgu leyti sérstök. Það er hins vegar ekki mælt með því sérstaklega að við tökum efni sem tengist okkar heimaþjóð en ég ætla samt að þjarma aðeins að prófessornum og sjá hvort hann hleypi mér ekki í gegn með þetta. Í mastersritgerðinni langar mig soldið að skrifa um hvað Ísland geti gert til þess að byggja upp nýja ímynd á alþjóðavettvangi. Hvaða sóknarfæri séu fyrir land og þjóð. Er samt ekki komin með hugmyndina svo langt að ég sé farin að sjá hvert ég ætti að sækja heimildir og hvernig væri hægt að byggja grunn að því. Ætla að melta þetta aðeins og tek það fram að ég þigg allar ráðleggingar með þökkum ;-)

Ég ætla svo að ljúka þessu á að skora á ykkur sem eruð að lesa að kvitta fyrir komuna í kommentkerfið. Veit um marga eins og Sólrúnu sem fylgjast með en eru ekki mikið fyrir að kvitta. Væri ekki tilvalið að bæta úr því núna? :-)

08 nóvember 2008

Bonjour Islande

This is Brussels calling. Ágætt að frétta héðan eins og venjulega og alltaf nóg að gera. Tíminn hefur verið undirlagður af fyrstu ritgerð vetrarins sem á að skila á föstudaginn. Ég er búin með akkúrat 700 orð af 2000 svo þetta gengur alveg. Ég þyrfti helst að klára ritgerðina á morgun því það er busy vika framundan svo það ætti að vera ljóst hvað ég verð að gera á helginni.

Á dagskrá næstu vikuna er ferðin til Ypres þar sem haldið verður upp á það að 90 ár eru frá lokum fyrri heimsstyrjaldarinnar, skoðunarferð í Evrópuþingið, Negotiation og meira negotiation og enn meira negotiation. Þegar þessari negotiation lotu lýkur á næsta laugardag eru svo Mugison tónleikarnir. Verður vonandi góður endir á annasamri viku.

En jæja, ritgerðin býður eftir mér. Au revoir þangað til næst.

07 nóvember 2008

06 nóvember 2008

Falleg kveðja

Ég vakna þennan morgun og vel að hann sé góður,
vel að hann sé yndislegur, myrkur og hljóður.
Ég vel að kúra um stund og staðnæmast við það
hve stórkostlegt sé lífið ef fátt amar að.

Ég ákveð því að velja að vandamálin fá
vistuð séu hjá mér til þess eins að ljá
tilverunni ennþá fleiri tilbrigði og fleti,
ég tek þeim opnum örmum svo nýtt mér þau ég geti.

Og eftir litla stund ég vel að fara á fætur,
faðma þennan morgun og allar hans rætur,
hita mér gott kaffi, af kærleik þess ég nýt.
Kexið smyr með osti, í blöðin svo ég lít.

Að endingu ég segi við þig sem þetta lest:
Þetta er góður dagur, hafðu það sem best.
Ég óska þess að hugsanir fallegar þig finni.
Faðmlag þér ég sendi, og kveð þig nú að sinni.

höf. Unnur Sólrún

05 nóvember 2008

Tvöfalt stórafmæli


Það eiga tvær kjarnakonur afmæli í dag. Ella er orðin þrítug og hún Sossa mín er orðin fimmtug. Þær eru báðar að vinna í Grunnskóla Bolungarvíkur sem skartar sínu fegursta á myndinni hérna fyrir ofan. Ég get rétt ímyndað mér hvað það var gott að borða á kennarastofunni í dag! Til hamingju með daginn báðar tvær og vonandi eigið þið eftir að eiga góðan dag. Kossar og knús frá Brussel.

03 nóvember 2008

Speki dagsins


02 nóvember 2008

Loksins, loksins, loksins

Lewis Hamilton er heimsmeistari í Formúlu 1!!! Þetta var lokakeppni fyrir allan peninginn og úrslitin réðust á síðustu beygju. Í Brussel var hoppað, hlegið og grátið af gleði.


Viva McLaren!