26 nóvember 2008

Endalausar ritgerðir

Bara 24 dagar í að ég komi heim og á þeim tíma ætla ég mér að skrifa 3 ritgerðir sem hver á að vera 3-4.000 orð. Ekkert svakalegar lengdir en það þarf slatta undirbúning til að gera þetta vel og ég ætla nú gera meira en bara rétt að ná. Er búin að velja mér efni í 2 af ritgerðunum en er búin að vandræðast mikið með þá þriðju - og á einmitt að skila inn tillögu að henni til prófessorsins í dag! Heppilegt.... Hann reyndar veit að ég er í tómum vandræðum því það var samið um efnið sem ég ætlaði að skrifa um svo það gerist varla neitt stórkostlegt ef tillagan fer ekki inn fyrir miðnætti - en ef ég ætla mér að ná að klára þetta allt fyrir jólafrí þarf ég að gjöra svo vel og sparka mér í gang.

Ég á að skila einni ritgerð í hagfræði og er að spá í að skrifa þar um alþjóðavæðingu og mismunandi áhrif hennar á þróuð og vanþróuð ríki. Maður myndi ætla að alþjóðavæðing kæmi vanþróuðum ríkjum vel en svo er ekki. Þar sem þetta er í fyrsta skipti sem ég læri hagfræði og ég hef nánast ekkert vit á einhverjum módelum og slíku þá held ég að þetta sé nokkuð seif efni. Öruggara en gengi gjaldmiðla allavegana!

Önnur rigerðin er í IRT (international relations theory). Það er skyldukúrs þar sem við erum að læra um kenningarnar í IR. Þurfum að velja okkur konflikt og nota hann til að gagnrýna eina kenningu og nota svo aðra kenningu til þess að útskýra konfliktinn. Alveg svaðalega spennandi og ekki þurrt fyrir fimm aur... Þarna er ég að spá í að nota Þorskastríðin og er nokkurn vegin búin að velja mér kenningar til þess að nota með.

Þriðja ritgerðin er í negotiation and mediation og þar eigum við að velja okkur konflikt sem er í gangi núna, á milli tveggja eða fleiri aðila, velja okkur aðila til þess að ráðleggja og ritgerðin er svo ráðlegging til þess aðila um lausn deilunnar. Ég ætlaði alltaf að skrifa um Icesave og var búin að fá samþykki fyrir því en þá leystu þeir bara deiluna sem þýðir að ég má ekki skrifa um hana. Bölvaður dónaskapur að geta ekki beðið með það fram yfir daginn í dag! Það er ekki lítið mál að velja sér efni í þessu því það er ekki eins og maður horfi til Kongó eða Palestínu og Ísrael og hristi eins og eitt stykki lausn fram úr erminni. Ég er aðeins farin að horfa til Kína og Tíbet og hafði þá hugsað mér að ráðleggja sjálfum Dalai Lama. Er aðeins búin að lesa mér til um þann konflikt og er að melta með mér mögulegar lausnir.

Fyrir utan þetta allt þarf ég að gera simulation í n&m. Okkur verður úthlutað karakterum þar og fáum upplýsingar um hans stöðu og bakgrunn. Síðan þurfum við að setja okkur í samband við aðra í hópnum sem fengu annan karakter og þurfum að semja um málið. Það fer heill laugardagur í verklega hlutann í þessu eftir hálfan mánuð og svo þarf að skila inn skriflegri strategíu líka. Þetta er reyndar lúmskt gaman. Gerðum eina stutta svona æfingu í seinustu lotu og það var ótrúlegt hvað maður datt inn í karakterinn sinn. Minn var samt með pólitískt skítlegt eðli og það var ekki gaman að leika þann hluta og ég átti frekar bágt með að halda andlitinu þá. En það var gaman að prófa þetta og fá smá skilning á því hernig n&m fara fram og hvað hlutirnir snúast oft miklu meira um pólitík og valdapot heldur en málefnin sjálf.

En jæja, þá er ég búin að kortleggja þetta fyrir sjálfa mig sem verður vonandi til þess að tillögunni verði skilað inn í seinasta lagi á morgun og ritgerðarskrif byrji af fullum krafti strax á mánudag. Skjalfesti hér með það markmið að þetta verði allt klárt föstudaginn 19. desember. Gangi mér vel!

2 ummæli:

Hjördís sagði...

Verður að nota Democratic Peace Theory til að nota í þorskastíðsdeilunni - því hún var sú eina sem "braut" þessa kenningu, þ.e. að lýðræðisríki fari ekki í stríð hvert við annað.

Ég notaði Írland í Negotiation kúrsinum mínum, mjööög áhugavert og fínt að finna kenningar í það.

Góða skemmtun og gangi þér vel :D

Hjördís

Erla Perla sagði...

Ég hef nú aldrei heyrt um Democratic Peace Theory. Hún er ekki hluti af námsefninu í IRT. Greinilega aðrar áherslur í Bretlandi en í Svíþjóð. En ég er samt með kenningar til þess að nota.

IRT er svo algjörlega óskylt N&M kúrsinum sem ég er í - enda ekki allir í honum í IR. Við eigum heldur ekki að nota kenningar í N&M verkefnunum, í lokaverkefninu eigum við hreinlega að finna lausn á deilunni sem við skrifum um og nota lesefnið til stuðnings.

Eins og ég sagði, allt aðrar áherslur í Bretlandi en í Svíþjóð. Eins og þegar ég var í Kennó, það er ekki sama námið í KHÍ og á Akureyri.