22 nóvember 2008

Snjókorn falla

Var að koma heim úr afar endurnærandi göngutúr um götur Brussel. Er búin að sitja og lesa hagfræði í dag og fannst það alveg kjörið að drífa mig út í göngutúr þegar það byrjaði að snjóa.




Það fór hins vegar ekki mikið fyrir snjónum eins og sjá má á myndinni og ég sá akkúrat engan snjó í göngutúrnum mínum. Mér fannst það samt hressandi að fá smá snjókomu ólíkt flestum samnemendum mínum sem eiga ekki til orð yfir það að það sé að snjóa hérna - og það undir lok nóvember. Það er auðvitað merkilegur andskoti.
Annars er þetta búið að vera ansi róleg vika og það er varla hægt að segja að ég hafi þurft að mæta í skólann. Ég notaði tækifærið og verslaði allar jólagjafirnar og er búin að pakka þeim inn líka. Núna er bara að koma öllu af stað í póst og sjá hvort ég geti ekki sent eitthvað með til að minnka líkurnar á yfirvigt þegar ég fer heim um jólin - sem verður eftir nákvæmlega 4 vikur. Ég er farin að hlakka mikið til að komast aðeins heim og það er ágætt að það verði meira en nóg að gera í skólanum þangað til. Tíminn líður þá bara aðeins hraðar.

Á næstu helgi ætlum við Linda til Kölnar á hinn víðfræga jólamarkað. Förum snemma á laugardagsmorgni og komum aftur á sunnudeginum. Ég held að þetta verði ágæt tilbreyting og gaman að fá að skoða Köln þó svo að stoppið sé stutt. Annars verður bara legið yfir námsbókunum fram að jólafríi og ég ætla að reyna að klára þessar 3 ritgerðir sem á að skila strax eftir jólafrí.

Ég hef sagt frá því hérna áður að það sé ansi mikið kattarfár á veröndinni hjá mér og hérna í kring. Mér er hætt að bregða við það þó svo að þeir standi og mæni inn til mín blessaðir. Ég hrökk hins vegar ansi illilega við í vikunni þegar það stóð hundur og horfði inn um gluggann hjá mér og gelti hátt. Mér brá svo að ég hrópaði upp og hundurinn hvarf mjög fljótlega. Hann kom hins vegar aftur í gær og þá náði ég að smella af honum mynd - svona því til sönnunar að ég væri ekki orðin klikkuð.
En jæja, hagfræðin bíður. Au revoir þangað til næst.

Engin ummæli: