31 maí 2009

Salat dagsins

Skólinn var með nokkurskonar árshátíð á föstudagskvöldið. Hátíðin er kölluð International Dinner og er held ég bara tilefni til að hittast áður en við förum öll sitt í hvora áttina. Margir eru þegar farnir og ætla að vinna ritgerðirnar sínar heima svo ekki var allur skólinn þarna en mætingin var samt sem áður ágæt. Þetta var mjög gaman, fínn matur og góður félagsskapur. Ég valdi grænmetismatseðilinn og aðalrétturinn var mjög góður en salatið sem við fengum í forrétt var ábyggilega eitt sérstakasta salat sem mér hefur verið boðið upp á eins og sjá má á myndinni hérna fyrir neðan!



Þetta var semsagt bara tómatur og mozarella sem bragðaðist reyndar ágætlega sem var auðvitað fyrir öllu. Skemmtilegt kvöld og maður á vonandi eftir að halda sambandi við einhverja af skólafélögunum þegar maður verður kominn heim.

Annars er fókusinn allur á mastersritgerðinni. Ég er byrjuð á rannsóknarvinnunni og það er farinn að skýrast hjá mér fókusinn hvernig ég ætla að gera þetta. Planið er að gera comparative study (samanburðarrannsókn?) á mismunandi kennsluaðferðum sem eru notaðar við fullorðinsfræðslu í þróunaraðstoð. Þar ætla ég að bera saman tæknilegar aðferðir sem kenna bara lestur og skrift og félagslegar aðferðir þar sem fókusinn er á hvernig er hægt að gera fólkið hæfara til þess að lifa í sínu umhverfi, nýta bakgrunnsþekkinginu og fleira til þess að byggja nýja reynslu og kunnáttu. Mig langaði til þess að skrifa um menntun og þróunaraðstoð en þar sem allur fókusinn hefur verið á grunnmenntun barna langaði mig til þess að skrifa um eitthvað annað. Fullorðinsfræðsla hefur víðast hvar orðið útundan þrátt fyrir háa tíðni ólæsis á meðal fullorðinna og því fór ég að skoða hana.

Þróunarsamvinnustofnun Íslands er með fullorðinsfræðsluverkefni í gangi í Úganda og Malawi og ég fékk aðgang að skýrslum um þau. Þar á meðal var úttekt á verkefnunum þar sem sérfræðingur í fullorðinsfræðslu fór yfir aðferðarfræðina og árangur hennar. Mér fundust niðurstöðurnar sláandi og það er margt sem hægt er að gera betur t.d. með breyttum kennsluaðferðum og aukinni fræðslu fyrir leiðbeinendur í verkefnunum. Fólk sem hefur tekið þátt í svona fullorðinsfræðslu hagnast lítið af því, það var fátækt fyrir og eftir námskeiðin er það ennþá fátækt en kann að lesa og skrifa og sú hæfni virðist ekki vera þeim til framdráttar. Þannig að þarna er margt mjög spennandi og það verður gaman að kafa ofan í það í ritgerðarvinnunni.

Ég er búin að koma mér í samband við breskan sérfræðing í fullorðinsfræðslu sem hefur unnið mikið að þróunarmálum og vonandi gengur það upp að ég geti farið til Bretlands og tekið við hann viðtal og fengið frekari upplýsingar. Það er nefnilegast ekki um auðugan garð að gresja hér í Brussel því prófessorinn minn hefur ekkert stúderað menntun og þróunarmál (hún er samt sérfræðingur í þróunarmálum) svo hún hefur lítið getað leiðbeint mér með fræðilegu hliðina á kennsluaðferðum og þvíumlíku þó svo hún aðstoði mig auðvitað eins og hún getur.

Það er svo farið að styttast í að mamma og amma komi í heimsókn en ég hlakka mikið til að fá loksins gesti. Það hefur enginn komið síðan pabbi var hérna í september svo það verður skemmtileg tilbreyting að túristast um Brussel og nágrenni í góðum félagsskap. Þangað til verð ég hinsvegar á haus í ritgerðinni því það er ekki seinna vænna að komast vel af stað þar.

Að lokum sendi ég hamingjuóskir í Grundarfjörðinn í tilefni dagsins en Daníel komst víst í fullorðinna manna tölu í dag. Til hamingju með daginn frændi!

26 maí 2009

Þrumuveður

Eitt mesta þrumuveður í áraraðir gekk yfir Belgíu í nótt og má sjá frekari fréttir og myndir hér. Lest fauk af teinunum, tré rifnuðu upp með rótum og um 30.000 eldingar létu sjá sig. 10.000 af þeim létu til sín taka á jörðu niðri og kveiktu meðal annars í einu húsi. Hávaðinn var víst rosalegur og var eins og himinn og jörð væru að farast í þá 3 tíma sem veðrið gekk yfir. Ég rumskaði hinsvegar ekki við lætin og svaf bara vel í nótt. Það má til gamans geta að ég vakna við minnsta hljóð í símanum mínum en svo tekst mér að sofa af mér heilt þrumuveður. Skemmtilegt.

25 maí 2009

Status Update

Maður er búinn að eiga hálfgert letilíf síðan að prófunum lauk í síðustu viku. Ég tók mér tveggja daga pásu og hafði það bara notalegt áður en ég tók upp bækurnar á ný og fór að lesa og undirbúa mastersritgerðina. Hef nú samt verið að því í hálfgerðum rólegheitum. Veðrið hefur verið upp á sitt besta í Brussel undanfarna daga og ég kom mér vel fyrir á veröndinni með bækurnar. Keypti mér svona sólbekk til þess að geta nú legið og haft þetta almennilegt! Ég var nú ekki tilbúin að spreða í rosa græju svo þetta er hálfgerður garmur en ég krossa bara fingur að hann dugi undir rassinn á mér þangað til ég kem heim. Ég var ansi rjóð á bringunni og handleggjunum eftir einn sólardaginn og ákvað að fjárfesta í sólarvörn og after sun til þess að verða nú frekar frískleg en brunnin. Það er svo bara vonandi að maður fái sem flesta sólardaga í sumar svo maður geti nú notið þess að vera í útlandinu.

Annars er mest lítið í fréttum héðan af meginlandinu fyrir utan það að það kviknaði víst í Commissioninni í síðustu viku. Það fór nú samt algjörlega fram hjá mér. Við ætlum að hittast nokkur úr skólanum og horfa á úrslitin í Meistaradeildinni á miðvikudaginn og svo er hálfgerð árshátíð skólans á föstudaginn, svokallaður international dinner. Ætti að verða gaman þar. Svo er ég bara að reyna að búa mér til góða rútínu svo að ég komist nú vel í gírinn með ritgerðarvinnuna og nái að verða komin heim fyrir Þjóðhátíð. Það væri toppurinn að skila ritgerðinni og mæta beint í Dalinn til að halda upp á það. Lífið er yndislegt á Þjóðhátíð í Eyjum. Það er nú bara þannig.

19 maí 2009

Búin í prófum!

Jæja, þá eru prófin búin og þessum hluta námsins þar með lokið. Ekkert nema mastersritgerðin eftir. Prófin gengu ágætlega, annað mun betur en hitt en ég á ekki von á öðru en ég nái öllu saman. Núna er planið að taka smá pásu frá öllu sem heitir skóli áður en ég helli mér út í rannsóknarvinnu fyrir ritgerðina. Það er bara vonandi að veðrið haldist gott á meðan en mér skilst að það sé búið að vera mun betra heima heldur en hérna úti. Ekki það að hér sé eitthvað skítaveður, milt og gott sumarveður bara en sólin mætti sýna sig meira.

Þrátt fyrir próflestur skellti ég mér í Eurovision partý á laugardaginn. Bresk stelpa í skólanum var með partý og það fór mest fyrir Grikkjunum sem mættu málaðir í fánalitunum til að styðja hann Sakis sinn. Íslenska lagið féll ekki alveg í kramið hjá hópnum sem var ekki mikið fyrir svona ballöður og sama má eiginlega segja um norska lagið. Ég og Rosanna (frá DK) skemmtum okkur langbest yfir stigagjöfinni þó svo að Danir hafi svo sem ekki riðið feitum hesti frá keppninni (hún ætlar aldrei aftur til Svíþjóðar því Svíar gáfum Dönum engin stig í ár..). Grikkirnir voru með svaka keppnisskap og það voru rosaleg viðbrögðin þegar einhverjar vinaþjóðirnar "svikust" um að gefa þeim 12 stig - ég tala nú ekki um ef tólfan fór til Tyrklands. En litla Ísland stóð svo sannarlega fyrir sínu og þjóðarstoltið náði nýjum hæðum. Það lærðu allir að segja Áfram Ísland og Heija Norge fékk að hljóma inn á milli. Frábært kvöld!

En jæja, ég er farin út í góða veðrið og ætla að njóta þess að vera laus við allan próflestur. Þangað til næst.

10 maí 2009

Mætt aftur til Brussel

Þá er góðu fríi á Íslandi lokið og ég er mætt aftur til Brussel. Ferðalagið gekk bara vel fyrir utan smá flugveiki. Já flugveiki, ótrúlegt en satt. Ég hefði ælt ef flugvélin hefði verið í loftinu mínútu lengur en það var talsverð ókyrrð í aðfluginu að Schiphol. Ekkert alvarlegt samt en nóg til þess að triggera þessa skemmtilegu aukaverkun að hormónunum mínum sem ég á það til að finna fyrir þegar það er farið að líða að næsta skammti. Hef meira að segja orðið "bílveik" í metróinu hérna úti. Mjög skemmtilegt. Annars átti ég mjög góðar stundir heima á Klakanum og komst ekki yfir allt sem ég ætlaði að gera, náði ekki að hitta alla sem planað var að hitta eða heyra í þeim sem áætlað var að heyra í. En svoleiðis er lífið bara og núna er málið að hella sér af fullum krafti út í seinustu törnina og kveðja svo Brussel sátt.

Á morgun á ég að skila 4 ritgerðum sem eru að mestu leyti klárar. Þarf að fínisera smá í fyrramálið áður en ég skutla þeim í skólann. 18. og 19. maí eru svo próf þannig að næsta vika fer í að læra fyrir þau. Eftir það kem ég aðeins til með að hafa eitt verkefni og það er mastersritgerðin. Henni á að skila 10. ágúst en ég ætla mér að hafa ritgerðina klára í lok júlí og vera flutt heim til Íslands fyrir Verslunarmannahelgi. Það má svo búast við að hin árlega Þjóðhátíðarveiki verði farin að gera vart við sig á þeim tíma og aldrei að vita nema maður skelli sér á sína 10. Þjóðhátíð. Við sjáum til ;-)

En þetta er orðið gott í bili enda langur dagur og margir kílómetrar að baki. Bestu kveðjur heim.

05 maí 2009

Hún Rakel litla systir mín á afmæli í dag og er víst orðin 24 ára þó svo að ég hafi ekki hugmynd um hvernig hún fór að því að verða svona gömul... Það er eitthvað lítið af myndum af henni á vinnutölvunni en ég fann þessa ágætu mynd af okkur systrum sem var tekin á Marmaris á sínum tíma. Til hamingju með daginn elsku Rakel og hafðu það gott í dag :-)

02 maí 2009

Status Update

Það er kannski við hæfi að láta vita af sér hérna. Mér finnst ég ekkert þurfa að vera á netinu þegar ég er á Íslandi og það er svo lítið mál að hafa samband við alla. Annars hefur tíminn hreinlega flogið og bara rétt rúm vika í Brussel. Ég er búin að vinna, heimsækja mann og annan, passa litla púka og er núna að klára að ganga frá ritgerðunum fjórum sem á að skila 11. maí. Það verður að segjast eins og er að það er hreinlega fullt starf og rúmlega það að koma svona heim í frí, svo þétt hefur planið verið. En seinasta hollið er framundan og ég ætla að njóta þess að vera úti í belgíska sumrinu. En það er vika þangað til svo þeir sem ég hef ekki hitt ennþá hafa smá tíma til að ná í skottið á mér. Þangað til næst.