19 maí 2009

Búin í prófum!

Jæja, þá eru prófin búin og þessum hluta námsins þar með lokið. Ekkert nema mastersritgerðin eftir. Prófin gengu ágætlega, annað mun betur en hitt en ég á ekki von á öðru en ég nái öllu saman. Núna er planið að taka smá pásu frá öllu sem heitir skóli áður en ég helli mér út í rannsóknarvinnu fyrir ritgerðina. Það er bara vonandi að veðrið haldist gott á meðan en mér skilst að það sé búið að vera mun betra heima heldur en hérna úti. Ekki það að hér sé eitthvað skítaveður, milt og gott sumarveður bara en sólin mætti sýna sig meira.

Þrátt fyrir próflestur skellti ég mér í Eurovision partý á laugardaginn. Bresk stelpa í skólanum var með partý og það fór mest fyrir Grikkjunum sem mættu málaðir í fánalitunum til að styðja hann Sakis sinn. Íslenska lagið féll ekki alveg í kramið hjá hópnum sem var ekki mikið fyrir svona ballöður og sama má eiginlega segja um norska lagið. Ég og Rosanna (frá DK) skemmtum okkur langbest yfir stigagjöfinni þó svo að Danir hafi svo sem ekki riðið feitum hesti frá keppninni (hún ætlar aldrei aftur til Svíþjóðar því Svíar gáfum Dönum engin stig í ár..). Grikkirnir voru með svaka keppnisskap og það voru rosaleg viðbrögðin þegar einhverjar vinaþjóðirnar "svikust" um að gefa þeim 12 stig - ég tala nú ekki um ef tólfan fór til Tyrklands. En litla Ísland stóð svo sannarlega fyrir sínu og þjóðarstoltið náði nýjum hæðum. Það lærðu allir að segja Áfram Ísland og Heija Norge fékk að hljóma inn á milli. Frábært kvöld!

En jæja, ég er farin út í góða veðrið og ætla að njóta þess að vera laus við allan próflestur. Þangað til næst.

Engin ummæli: