Status Update
Maður er búinn að eiga hálfgert letilíf síðan að prófunum lauk í síðustu viku. Ég tók mér tveggja daga pásu og hafði það bara notalegt áður en ég tók upp bækurnar á ný og fór að lesa og undirbúa mastersritgerðina. Hef nú samt verið að því í hálfgerðum rólegheitum. Veðrið hefur verið upp á sitt besta í Brussel undanfarna daga og ég kom mér vel fyrir á veröndinni með bækurnar. Keypti mér svona sólbekk til þess að geta nú legið og haft þetta almennilegt! Ég var nú ekki tilbúin að spreða í rosa græju svo þetta er hálfgerður garmur en ég krossa bara fingur að hann dugi undir rassinn á mér þangað til ég kem heim. Ég var ansi rjóð á bringunni og handleggjunum eftir einn sólardaginn og ákvað að fjárfesta í sólarvörn og after sun til þess að verða nú frekar frískleg en brunnin. Það er svo bara vonandi að maður fái sem flesta sólardaga í sumar svo maður geti nú notið þess að vera í útlandinu.
Annars er mest lítið í fréttum héðan af meginlandinu fyrir utan það að það kviknaði víst í Commissioninni í síðustu viku. Það fór nú samt algjörlega fram hjá mér. Við ætlum að hittast nokkur úr skólanum og horfa á úrslitin í Meistaradeildinni á miðvikudaginn og svo er hálfgerð árshátíð skólans á föstudaginn, svokallaður international dinner. Ætti að verða gaman þar. Svo er ég bara að reyna að búa mér til góða rútínu svo að ég komist nú vel í gírinn með ritgerðarvinnuna og nái að verða komin heim fyrir Þjóðhátíð. Það væri toppurinn að skila ritgerðinni og mæta beint í Dalinn til að halda upp á það. Lífið er yndislegt á Þjóðhátíð í Eyjum. Það er nú bara þannig.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli