19 júlí 2004

Jæja, það er naumast að maður er blogglatur þessar vikurnar. Ég er mikið búin að taka lífinu rólega í sumar og það lítur út fyrir að svo verði áfram. Kristinn Breki gisti hjá mér á föstudaginn. Það var mikið stuð á púkanum í ,,partýinu" og var hann mun hressari en gestgjafinn þegar líða tók á kvöldið. Eitthvað voru farnar að renna á hann tvær grímur í hádeginu á laugardaginn þegar við fengum okkur rúnt niður í bæ og hann vildi bara fara heim til mömmu. Ég vona þó að hann jafni sig greyið og komi aftur í heimsókn til frænku sinnar.
 
Þegar ég var búin að skila púkanum skellti ég mér í smá fjallgöngu með mömmu í góða veðrinu. Við löbbuðum á Úlfarsfellið (sem er við Mosó fyrir þá sem það ekki vita). Þetta var ágætis göngutúr bara. Þetta er nú ekki hátt, um 200 metrar held ég - enda er þetta fell en ekki fjall! En maður má víst monta sig á að hafa labbað þetta ;)
 
Það var svo íslenskur matur fyrir Spánverjana hjá mömmu um kvöldið og síðan var djammað heima hjá mér og haldið svo í bæinn. Þar var stappað af fólki enda veðrið gott. Ég lét mig bara hverfa snemma en liðið tók hins vegar seinasta djammið á Íslandi með stæl og var í bænum til að ganga 8. Minnz er orðinn of gamall fyrir svona ;) Spánverjarnir létu vel af dvölinni og voru afskaplega hrifnir af Vestfjörðunum og henni ömmu gömlu. Maður þarf svo bara að skella sér til Madridar og læra spænsku og heimsækja gaurana!
 
Rakel er búin að vera í Englandi í 2 vikur núna og á tæpar 2 vikur eftir í enskuskólanum. Þetta er allt búið að ganga að óskum og hún lætur vel af sér. Röggi fer svo út til Finnlands eftir 3 vikur og þá flytur Rakel að heiman þannig að það eru miklar breytingar á hótel mömmu þessar vikurnar.
 
Jæja, þá er best að halda á með vinnuna áður en bossinn brjálast, later.
 
 

Engin ummæli: