Svartir dagar
Eftir stúdentsprófið var ég í nokkur ár að velta fyrir mér hvað mig langaði að læra og gera í framtíðinni. Ég vann í banka í tvö ár og fann að svoleiðis starf var ekki fyrir mig. Ég skellti mér í sálfræði, fannst það bara nokk skemmtilegt, soldið þurrt samt. Var ekki alveg viss hvort ég vildi halda áfram í sálfræðinni svo ég ákvað að prófa að kenna í eitt ár á meðan ég hugsaði málin. Mér var algjörlega hent út í djúpu laugina, ég gerði fullt af vitleysum en samt var þetta ein skemmtilegasta vinna sem ég hafði unnið við. Ég ákvað að þetta vildi ég læra.
Skólinn er skemmtilegur og ég hef brennandi áhuga á því sem ég er að gera. Ég get satt að segja ekki beðið eftir því að klára skólann og fara að vinna. Ég hef fylgst vel með kennaraverkfallinu því að kennararnir eru jú líka að berjast fyrir okkur sem erum enn í námi. Lending ríkisstjórnarinnar í málinu er hrein og klár vanvirðing við kennarastéttina í heild. Ég skil vel þá kennara sem sátu heima í dag. Ég hefði að vísu mætt í vinnu sjálf, en ég hefði líka sagt upp starfinu mínu. Ég ætla ekki að hætta í skólanum en ef þetta verður raunveruleikinn þegar ég útskrifast mun ég ekki fara að kenna, eins grátlegt og mér finnst að hugsa til þess.
Þessi blessaða ríkisstjórn hefur lítið sem ekkert gert í menntamálum og að mörgu leyti eru þeir að súpa seyðið af því núna. Eins ágætir og lögfræðingar kunna að vera eru þeir ekki bestu menntamálaráðherrarnir. Miðað við það sem maður hefur heyrt í fjölmiðlum undanfarna daga þá verða engar breytingar í tíð þessarar ríkisstjórnar. Kennarar eru ekki fagstétt í menntamálum í þeirra huga það er nokkuð ljóst mál. Formaður menntamálanefndar segir að ef til uppsagna kennara komi þá komi maður í manns stað. Nemendur Kennaraháskólans standa með kennurum í sinni kjarabaráttu og ég held að það myndu ekki margir hlaupa spenntir í kennarastarf við núverandi aðstæður. GIBbinn ætti kannski að taka sér launalaust leyfi frá öllum störfunum sínum og prófa að kenna í svona eins og eina önn og prófa að lifa af kennaralaununum einum saman. Það væri fróðlegt að heyra hvað hann segði þá.
Það voru allir sammála um að lög væru bara frestun á vandamáli, engin lausn. Ég vona svo sannarlega að unnið verði af skynsemi að lausn á þessu vandamáli. Þetta er ekki bara vandamál kennara og sveitarfélaga, það þarf líka að vera líf í menntamálaráðuneytinu. Ég vona að Þorgerður Katrín fari að vakna af þyrnirósarsvefninum, láti til sín taka við lausn þessa máls og blási lífi í hálf dautt ráðuneytið. Mig langar nefnilegast svo að verða stoltur og góður kennari þegar ég verð stór. Mig langar til að hafa efni á því að vinna við það sem ég er að læra sem er ekki staðan í dag. Eru það svo stórkostlegar væntingar?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli