Ég hef aldrei verið hrifin af sokkabuxum. Þær eru þröngar og óþægilegar og það er komið lykkjufall á þær eftir tvær klósettferðir - og þá er 700 kall farinn fyrir lítið. Ef ég fer í pilsi á djammið þá hef ég alltaf bara sleppt sokkabuxunum ef ég hef mögulega komist upp með það. Núna á ég hins vegar stutt pils og það er ekki fræðilegur að fara í því á djammið án þess að vera í sokkabuxum. Ég fór í þessu pilsi út á laugardaginn og þá byrjaði helv.. sokkabuxnavesenið. Sokkabuxur ná nebblast upp í mitti en pils og buxur í dag liggja almennt á mjöðmunum. Maður rúllar því alltaf strengnum á sokkabuxunum niður svo þær komi ekki upp fyrir buxna- eða pilsastrenginn.
Þá kemur aftur í móti annað vandamál. Sokkabuxurnar liggja núna talsvert neðar en þær eiga að gera og skerast inn í mjaðmirnar. Það gerðist núna á laugardaginn. Ég var voða fín í stuttu pilsi og svarta bolnum mínum og eins og ég væri með snæri strekkt inn í mjaðmirnar á mér. Ég var lengi að vesenast með hvernig ég gæti lagað þetta því þetta var það áberandi að mér datt ekki til hugar að fara svona út úr húsi. Á endanum klippti ég strenginn á sokkabuxunum niður að pilsastrenginum og málið var leyst. Þá var miklu auðveldara að rúlla sokkabuxunum niður og með því að klippa þessa einu línu meðfram sauminum þá losnaði um þrýstinginn og fellinguna. Ég er búin að þvo þessar sokkabuxur síðan og þær rakna ekkert upp við þetta - þó svo að amma hafi sagt að þær myndu gera það.
Það er hins vegar annað mál með þykkar sokkabuxur. Þær haldast aldrei uppi og ef ég vil vera fín í pilsi einhvern daginn þá er ég alltaf eins og versti skítbuxi innan undir pilsinu og ég þarf að fara reglulega á klósettið til að hysja buxurnar upp um mig. Amma leysti þetta vandamál fyrir mig. Auka nærbuxur utan yfir sokkabuxurnar og málið er leyst. Maður verður gella yst sem innst :)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli