04 nóvember 2005

Jæja, þá er æfingakennslan rúmlega hálfnuð. Þrjár vikur búnar og tvær eftir. Löngu búið að plana enskupartý 19. nóv og ætli allt þriðja árið í Kennó djammi ekki þá. Ég hef bara svei mér þá engan hitt sem er ekki búin að fá nóg af öllu þessu æfingakennslustandi. Ekki það að það sé ekki gaman að kenna, ég hef nú lúmskt gaman af þessum gelgjum þó svo að litlu púkarnir heilli mig ekki svo mjög. Þessir blessuðu kennarar okkar virðast hins vegar halda að það sé ekki nóg að hella sér út í fimm vikna kennslu með tilheyrandi skipulagi heldur eru þeir á þeirri skoðun að við eigum að gera helling af verkefnum á meðan. Ég væri ekki hissa ef Samuel væri búinn að vera með eilífan hiksta síðan æfingakennslan hófst, ég er búin að bölva honum svo mikið. Enda ætlar mín að rífa sig oní rassgat á næsta fundi með honum, maður lætur nú ekki bjóða sér hvað sem er ;)

Annars gengur kennslan ágætlega bara. Enskukennarinn sem við erum hjá er rosalega frjó og hugmyndarík og hefur verið dugleg að kaupa efni sjálf til notkunar í skólanum. Við erum því að fá að skoða og prófa efni sem er til í fæstum skólum og bara mjög gaman að því. Manni veitir víst ekki af hugmyndum ef maður ætlar að fara að kenna ensku í grunnskóla með lítið annað efni en Network bækurnar uber skemmtilegu - eða þannig... Það er nú alveg rannsóknarefni út af fyrir sig af hverju enskubækur eru alltaf svona leiðinlegar.

Að öðru leyti er mest lítið að frétta, mamma fór í bakinu á seinustu helgi og er ekki komin í vinnu ennþá svo að minnz þurfti að redda launum og öllu tilheyrandi um mánaðamótin - eitthvað sem ég er ekki vön að gera. Það reddaðist hins vegar og ég held að ég hafi ekki gert neina stóra skandala. Það er hins vegar ekki laust við það að ég sé farin að hlakka til helgarinnar og gera lítið meira en að sofa og slappa af - eftir vinnu á morgun þeas.

En jæja, ég er alveg búin að fá nóg í dag og ætla að fá mér rúnt niðrí skóla og sækja mér nokkrar bækur. Hafið það gott á helginni elskurnar mínar!

Engin ummæli: