01 júní 2006

Þar sem ég er búin að vera með ,,konuveiki” eins og sumir hafa sagt við mig, þá mæli ég ekkert sérstaklega með því að strákar lesi þennan pistil. Sérstaklega ekki þú Arnar ;) Þetta er ansi langt en ég mæli með því að þið stelpur lesið þetta því það gæti gagnast ykkur.

Ástæða þess að ég þurfti að fara í þessa aðgerð er sú að ég greindist með svokallað legslímuflakk eða endometriosis fyrir þá sem vilja gúgla það ;) Ég hafði nú aldrei heyrt á það minnst þegar læknirinn minn sagði mér hvað væri að mér og áttaði mig í raun ekki á hvað var í gangi fyrr en nokkru seinna. Legslímuflakk þýðir að þegar maður fer á blæðingar þá fer blóðið öfuga leið, þe. út um eggjaleiðarana og inn í kviðarholið í staðinn fyrir að fara sína eðlilegu leið út. Þetta gerist hjá 70-80% kvenna skilst mér en hjá langflestum konum nær líkaminn að vinna úr þessu án þess að þetta verði vandamál. Hjá 2-4% kvenna nær líkaminn hins vegar ekki að brjóta þessa slímhúð niður og hún safnast saman í kviðarholinu og á líffærunum í kringum móðurlífið. Á milli blæðinga reynir líkaminn að eyða þessu út og slímhúðin grær því föst við kviðarholið, líffærin eða þann stað sem það er á en þegar blæðingar eiga sér stað blæðir líka úr þessari slímhúð og hringurinn hefst aftur.

Helstu einkennin eru miklir túrverkir sem ég hef alltaf haft en auk þessa fann ég alltaf verki þegar ég var búin að pissa þegar ég var á fyrstu viku pilluspjaldsins. Ég fór með þvagprufu þegar ég fann fyrst fyrir þessum verkjum sem ekkert kom út úr og ég gerði svo ekkert í þessu í 3 ár, því mér datt ekki í hug hvað gæti verið að eða hvað ég ætti að segja við lækninn. Gleymdi þessu svo alltaf þegar þetta var ekki til staðar. Þessir verkir voru vegna þess að slímhúðin var orðin gróin föst við þvagblöðruna og eina leiðin til að fjarlægja hana var að fjarlægja hluta af þvagblöðrunni. Auk þess var ég með mikið legslímuflakk í kviðarholinu og kringum báða eggjastokkana. Þar sem ég var með svona mikið legslímuflakk þá þurfti stóra aðgerð til að fjarlægja hluta þvagblöðrunnar, skafa af báðum eggjastokkum og brenna burt slímhúðina í kviðarholinu. Venjulega er hins vegar hægt að greina þennan sjúkdóm og fjarlægja hann í sömu aðgerðinni en ég var því miður ekki svo heppin að það væri hægt hjá mér.

Legslímuflakk getur valdið ófrjósemi og 20-30% þeirra kvenna sem ekki geta átt börn eru með þennan sjúkdóm. Það er ekkert sem bendir til annars en að allt sé í gúddí í þeim málum hjá mér en auðvitað er aldrei hægt að segja til um það fyrr en maður reynir að eignast börn. Til þess að minnka líkurnar á því að ég fái þennan sjúkdóm aftur og til að auka líkurnar á því að ég geti eignast börn þá má ég ekki fara á blæðingar fyrr en ég ætla mér að reyna að verða ólétt. Ég las um daginn grein í Blaðinu um að það væri ekki gott fyrir líkamann að sleppa því of oft að fara á blæðingar en allir mínir læknar eru sammála um það að það geri ekkert til. Þegar pillan er tekin í einni beit eða önnur getnaðarvörn notuð eins þá er sama ástand í líkamanum og þegar maður er með barn á brjósti. Konur í dag fara mun oftar á blæðingar en konur gerðu í gamla daga og læknar vilja nú meina að líkaminn sé ekki hannaður fyrir það að vera alltaf á blæðingum og það sé meðal annars skýringin á því að legslímuflakk hefur aukist. Í denn voru konur svo oft óléttar eða með barn á brjósti að þær fóru ekki nálægt því eins oft á túr eins og konur í dag.

Skilaboðin með þessu öllu hjá mér eru þau að fara alltaf til læknis þegar maður finnur verki, jafnvel þó svo maður átti sig ekki á orsökum þeirra. Ekki trassa hlutina svona lengi eins og ég gerði. Og spjalla við vinkonur sínar því maður veit aldrei hver þeirra reynsla er þegar svona prívat mál eru aldrei rædd. Reynsla þeirra sem eru í kringum mann er oft mun meiri viskubrunnur en vitneskja lækna og það hef ég svo sannarlega fengið að kynnast frá öllum mínum vinkonum sem hafa stutt dyggilega við bakið á mér undanfarið. Takk fyrir það stelpur, þið vitið hverjar þið eruð ;)

Engin ummæli: