Útskrifuð :-D
Mætti niðrá Lansa í gærmorgun til að fara í skoðun hjá henni Auði en hún skar mig og hefur verið læknirinn minn í gegnum þetta veikindaferli allt. Reyndar voru þau tvö sem skáru mig en hinn læknirinn útskrifaði mig fyrir löngu ;) Skoðunin kom svona glimmrandi vel út og lyfin sem ég var sett á í vetur eru að fúnkera vel. Ég þarf ekki að koma í skoðun fyrr en eftir ár - sem er hentugt því Auður er að fara í barneignarfrí og maður hefði verið vængbrotinn á meðan.
Á meðan ég sat á biðstofunni fór spítalavistin í gegnum hugann á mér. Gerir það einhvern vegin alltaf þegar ég sit á þessari biðstofu. Fyrstu tveir sólarhringarnir eftir aðgerðina eru móðukenndir. Man eftir að hafa vaknað úber hress og hundleiðst á vöknuninni. Fékk að hafa kveikt á útvarpi til að stytta mér stundir og þreytti hjúkkuna á spurningunni hvenær ég fengi að fara. Það var nefnilegast bara hægt að hlusta á Rás 2 á útvarpinu... Klukkan var 8 þegar mamma hringdi og ég horfði glöð á hjúkkuna segja henni í símann að ég væri að fara upp á deild. Mamma, pabbi og Rakel komu til mín á deildina. Það kjaftaði á mér hver tuska til að byrja með en svo byrjuðu verkirnir. Nóttin er í hálfgerðri móðu en mér leið ekki vel. Morguninn eftir aðgerð átti að drífa mig fram úr. Ég man ekki sársaukann eða öskrin í sjálfri mér heldur skelfinguna sem mátti sjá hjá hjúkkunni og sjúkraliðanum. Þá kom sem sagt í ljós að mænurótardeyfingin var ekki á réttum stað og skurðarsvæðið var ódeyft.
Því var að sjálfsögðu reddað og því fylgdi betri líðan. Eða minni verkir allavegana. Fór ekki að líða almennilega fyrr en ég komst á almenna stofu. Var geymd í einhverju skoðunarherbergi fyrstu 2 sólarhringana þar sem maður sá ekkert fram á gang og því ekkert líf nema einhver kæmi til manns. Missti bjölluna mína á gólfið í þeirri kompu. Það heyrði mig enginn kalla svo ég endaði á að hringja í Dagnýju systur og biðja hana um að hringja á deildina og láta vita af mér. Maður verður að redda sér.
Það var stórafrek að komast fram úr rúminu - ég tala nú ekki um þegar ég gat það hjálparlaust. Mér leið eins og ég gæti sigrað heiminn þegar ég var farin að labba margar ferðir um gangana á fínu silfurskónum mínum og var laus við allar slöngurnar. Það var gott að komast heim til mömmu og fá almennilegan mat og það var ennþá betra þegar ég gat farið heim til mín.
Það er aldrei hægt að þakka nógu mikið fyrir góða heilsu og fyrir hvern þann dag sem maður hefur tækifæri til að gera nánast það sem maður vill. Því hvað stoppar mann þegar maður kemst sjálfur allra sinna ferða? Þrátt fyrir að allt líti vel út í dag þá eru líkurnar á því að sjúkdómurinn taki sig upp aftur miklar. Yfir 50%. Enda er engin lækning til. Það er hins vegar margt sem maður getur gert til að halda honum niðri og það verður eilífðarmarkmið mitt í lífinu að gera mitt til að vera laus við þennan fjanda.
Það er nefnilegast ekki til í dæminu að ég fari aftur til þess lífs sem var daglegt brauð fyrir aðgerðina. Ég á ekki til nógu sterk orð til að lýsa því hvað lífið mitt breyttist mikið til hins betra. Það var fyrst þá sem ég fattaði hvað það plagaði mig og hefti líf mitt mikið að fara á blæðingar einu sinni í mánuði. Hvað það voru margir dagar í hverjum einasta mánuði undirlagðir af verkjum. Það var svo venjubundið að maður var með sérstakt plan í gangi þá daga til að komast í gegnum daginn án þess að þurfa að missa úr vinnu eða skóla.
En ég á ennþá langt í land til að ná sama líkamlega styrk og fyrir aðgerðina. Nú tekur þriðja jóganámskeiðið við eftir helgi. Ég ætla að vera búin að finna alla kviðvöðvana mína að því loknu. Svo er markmiðið að taka fram línuskautana, fara að synda og ganga og njóta útiverunnar þegar fer að vora. Hver veit nema maður komist upp Esjuna áður en það fer að hausta. Það yrði allavegana ekki minna afrek en þegar mér tókst að fara ganginn á deildinni fram og til baka óstudd. Ég held samt að fínu silfurskórnir mínir fari ekki með mér upp Esjuna. Ekki þetta sumarið allavegana.