23 mars 2007

Bylgjan - björt og brosandi

Þegar Friðrik byrjaði að vinna með mér þurfti að finna útvarpsstöð sem við gætum bæði haft í eyrunum allan daginn án þess að sturlast. Létt var prófuð til að byrja með þangað til að væmnin gerði út af við Friðrik. Ég stakk ekki upp á FM. Við enduðum því á Bylgjunni sem hefur svo sem reynst ágætlega. Á morgnana er gaurinn sem er alltaf svo hissa. Er ekki alveg að kaupa að þetta sé hans eðlilegi andlitssvipur. Hann minnir mig meira á miðaldra hollywoodfrú sem hefur farið í aðeins of margar strekkingar. Seinnipartinn byrjar Reykjavík síðdegis - og þá slekk ég venjulega.

Fyrir ekki svo löngu gat ég ekki fyrir mitt litla líf hlustað á Bylgjuna. Eighties tónlistin ætlaði mig lifandi að drepa og mér var (og er) gjörsamlega fyrirmunað að skilja hvernig nokkrum manni getur fundist þessi tónlist skemmtileg. Núna er Bylgjan farin að spila nineties tónlist og það er farið að gerast ansi oft seinustu daga að ég lít undrandi upp frá vinnunni á útvarpið og hugsa að það hljóti að vera 10 ár síðan ég heyrði þetta lag síðast. Á milli þess sem ég hrylli mig yfir því að ég sé orðin svo skelfilega gömul að Bylgjan sé farin að spila lögin síðan ég var ,,ung" þá hugsa ég hvað það væri fjandi gaman að halda eitt gott nineties partý. Rifja upp 2 Unlimited, Ace of Base og allt hitt sem ég man ekki hvað heitir en syng alltaf með. Held að þemað mætti samt ekki fara alla leið, ég er ekki frá því að nineties tískan slái eighties tískuna út í hallærisleika með Buffalo skóna í fararbroddi.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

sæl Erla mín
Ég hef aldrei getað hlustað á bylgjuna, oft reynt en fer alltaf aftur yfir á rás 2
Kolla

Erla Perla sagði...

Úff, ég hef ekki getað hlustað á Rás 2, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir, eftir að ég flutti suður. Held að þar skipti miklu máli að maður gat ekki hlustað á neitt annað..

Ég var alltaf með á létt, hún er svona þægileg í bakgrunninum og maður getur leitt hana innum annað og út um hitt.