30 október 2007

Góðir Gíslar

Mig langar að benda á góðan pistil á síðu Ólínu Þorvarðardóttur um nafnana Gísla á Uppsölum og Gísla Hjartar sem báðir hefðu átt stórafmæli um þessar mundir ef þeir hefðu lifað. Ég stúderaði líf Gísla á Uppsölum nokkuð þegar ég var í Kvennó og ævi hans var meginuppistaðan í stúdentsritgerðinni minni. Merkur maður þar á ferð. Gísli Hjartar var góður fjölskylduvinur og ég var ekki há í loftinu þegar ég fór fyrst á Hornstrandirnar undir hans leiðsögn og þær voru margar stundirnar sem við í fjölskyldunni áttum með honum þar. Ekki síðri maður þar á ferð.

Blessuð sé minning þeirra beggja.

24 október 2007

Gjafapappír

Ég hef verið soldið í því að gefa afmælisgjafir undanfarið. Þá þarf maður að kaupa gjafapappír til að pakka herlegheitunum inn eða jafnvel kaupa gjafapoka og sleppa við allt límbandið. Ég keypti gjafapoka um daginn og hann kostaði á við helminginn af gjöfinni. Ég passaði mig á að skrifa ekki á miðann sem var fastur við svo að viðkomandi gæti pottþétt notað hann aftur. Núna stend ég í því að pakka inn afmælisgjöf sem er í stærra lagi og kemst því ekki í gjafapoka. Þar sem ég á ekki gott með að komast í búðir fram að afmælinu og hef ekki mikinn tíma til að dúllast við innpökkun fór ég í Mál og menningu til að kaupa pappír undir herlegheitin eftir jógatímann áðan.

Þar var til úrval af pappír. Litríkum og fallegum og í 99% tilfella ætluðum 10 ára og yngri. Spiderman, Latibær og aðrar fígúrur skörtuðu sínu fegursta á pappírnum. Jafnvel þó svo að tilvonandi afmælisbarn sé ungt í anda þá var Spiderman ekki alveg við hæfi. Ég greip því rúllu sem hentar afmælisbörnum á besta aldri og dreif mig að kassanum. Var að spá í að spurja bólugrafna unglinginn á kassanum hvort að hann ætti ekki vaselín til að deyfa sársaukann þegar hann sagði mér hvað þetta kostaði. Tvö þúsund krónur fyrir eina rúllu af gjafapappír og eitt stykki kort. Það hlýtur að vera svona tilfinningin að láta taka sig í ósmurt - afsakið orðbragðið.

19 október 2007

Að búa einn

Mér finnst ágætt að búa ein en nokkuð reglulega finnst mér það alveg svaðalega pirrandi og reyni að lokka gott fólk í heimsókn til mín. Kvöldið í kvöld er einmitt svoleiðis. Ástæðan? Jú, ég var að skipta á rúminu og mig vantar einhvern í heimsókn til að hjálpa mér að brjóta.

Annars er allt fínt að frétta úr kotinu. Enn eitt árið búið að bætast í sarpinn en ég samt bara 24. Sumt breytist aldrei. Svo eru ýmsar pælingar í gangi sem ég ætla að hafa sem fæst orð um þangað til þær fá á sig endanlega mynd. En það verða þó breytingar, það er nokkuð ljóst. Svo er margt skemmtilegt framundan. Masterinn í NLP, jóganámskeið, elítuhittingur, námskeið hjá Rauða Krossinum og nóg af verkefnum hjá Endósamtökunum. Svo ekki leiðist mér þó svo að það hafi enn enginn bankað upp á sem passar við mig eins og flís við rass.

En mig vantar samt einhvern í heimsókn til að hjálpa mér að brjóta. Helst áður en það verður kominn tími til að skipta á rúminu aftur.

16 október 2007

Að gefa af sér

Mér hefur oft dottið það í hug að skrá mig í Rauða Krossinn og taka þátt í sjálfboðaliðastarfi þar en einhvern vegin aldrei látið verða af því. Núna eru þeir í átaki að kynna sjálfboðaliðastarfið sitt og ég dreif í því að skrá mig á heimasíðunni þeirra og bíð spennt eftir að fá að kynnast nýju fólki og láta gott af mér leiða. Ég skora á þig að gera slíkt hið sama.

11 október 2007

Hún er tík þessi blessaða pólitík

Nú ætla ég að bregða örlítið út af þeim vana mínum að blogga ekki um pólitík, svona í ljósi atburða dagsins. Ég verð að viðurkenna að mér er engin eftirsjá í fráfarandi borgarstjóra og því síður í öðrum félögum hans í Sjálfstæðisflokkinum. Mér hafa ekki fundist vinnubrögð Vilhjálms vera til fyrirmyndar undanfarna daga og það hefði verið til marks um siðleysi íslenskrar pólitíkur ef hann hefði setið áfram. Ég skil hins vegar alveg gremju íhaldsins í garð Björns Inga sem virðist vera að stimpla sig inn sem hornsteinn siðlausrar pólitíkur. Hann má alveg missa sín í nýjum meirihluta.

En það er gott fólk í öllum flokkum og mér líst afskaplega vel á nýjan borgarstjóra. Ég er líka mjög sátt að sjá Svandísi Svavars í meirihlutastarfinu. Það er gaman að sjá fólk í pólitík sem er með munninn fyrir neðan nefið og stendur á sinni sannfæringu. Og ég tala nú ekki um sem kann að tjá sig. Það sést allt of sjaldan í íslenskri pólitík í dag. Ég er ekki mjög vinstri græn í skoðunum en ég tek alltaf ofan hattinn fyrir skeleggu fólki sem kann að koma sínum skoðunum á framfæri. Ég neita því ekki að ég ber ekki sömu virðingu fyrir Binga og Margréti Sverris og það verður fróðlegt að sjá hvernig þessu ágæta fólki á eftir að ganga að starfa saman.

Það varð hins vegar nokkuð ljóst í dag að hún er tík þessi blessaða pólitík og ég leyfi mér að efast um að nýr meirihluti breyti nokkru þar um.

06 október 2007

Maður kallar nú ekki allt ömmu sína

Mér hefur alltaf þótt þetta frekar fyndið máltæki enda hef ég aldrei kallað neinn annan ömmu en mínar ágætu ömmur í gegnum tíðina. Núna á ég hins vegar bara eina ömmu og eins og sjá má hér er ekkert að ástæðulausu að maður kallar ekki allt ömmu sína.... Hún er bara flottust.

04 október 2007

Agnes skvísa á afmæli í dag og yngist hreinlega með hverju árinu stúlkan. Til hamingju með daginn elskan mín og hafðu það öfga gott í dag :-)

03 október 2007

Fyrir ári síðan kom lítill púki í heiminn sem oft var kallaður Tommi togvagn áður en hann fékk nafnið Tómas Orri. Núna er hann orðinn eins árs og litla hraðlestin er meira réttnefni heldur en togvagn enda drengurinn afburða hress. Til hamingju með daginn litli kall :-)

02 október 2007

Myndir frá NYC

Jæja, hér kemur seinasti skammturinn af myndum frá New York. Það var ekki hægt að láta inn myndir án þess að Empire State og Flatiron fylgdu með.



The Flatiron Building


Empire State - tekin af 5th Avenue


Gosbrunnurinn við Rockefeller Center

Kraftaverkakirkjan St. Paul's Chapel

World Trade Center séð frá St. Paul's