Hún er tík þessi blessaða pólitík
Nú ætla ég að bregða örlítið út af þeim vana mínum að blogga ekki um pólitík, svona í ljósi atburða dagsins. Ég verð að viðurkenna að mér er engin eftirsjá í fráfarandi borgarstjóra og því síður í öðrum félögum hans í Sjálfstæðisflokkinum. Mér hafa ekki fundist vinnubrögð Vilhjálms vera til fyrirmyndar undanfarna daga og það hefði verið til marks um siðleysi íslenskrar pólitíkur ef hann hefði setið áfram. Ég skil hins vegar alveg gremju íhaldsins í garð Björns Inga sem virðist vera að stimpla sig inn sem hornsteinn siðlausrar pólitíkur. Hann má alveg missa sín í nýjum meirihluta.
En það er gott fólk í öllum flokkum og mér líst afskaplega vel á nýjan borgarstjóra. Ég er líka mjög sátt að sjá Svandísi Svavars í meirihlutastarfinu. Það er gaman að sjá fólk í pólitík sem er með munninn fyrir neðan nefið og stendur á sinni sannfæringu. Og ég tala nú ekki um sem kann að tjá sig. Það sést allt of sjaldan í íslenskri pólitík í dag. Ég er ekki mjög vinstri græn í skoðunum en ég tek alltaf ofan hattinn fyrir skeleggu fólki sem kann að koma sínum skoðunum á framfæri. Ég neita því ekki að ég ber ekki sömu virðingu fyrir Binga og Margréti Sverris og það verður fróðlegt að sjá hvernig þessu ágæta fólki á eftir að ganga að starfa saman.
Það varð hins vegar nokkuð ljóst í dag að hún er tík þessi blessaða pólitík og ég leyfi mér að efast um að nýr meirihluti breyti nokkru þar um.
1 ummæli:
Frændi minn vill meina að það sé ljótt að kalla pólitík, tík. Hundstíkin hans eigi svona lagað ekki skilið.
Ég ætla ekkert að tjá mig um þetta mál að öðru leiti en svo að guð hjálpi Reykvíkingum með þetta mein gallaða eintak sem borgarstjóra, æj æj æj æj!
Skrifa ummæli