29 apríl 2008

Víkin fagra, Víkin mín

Það er óhætt að segja að Bolungarvíkin logi fjallanna á milli þessa dagana. Meirihlutaslitin hafa aldeilis komið við kauninn hjá fólki og lái þeim hver sem vill. Það er hins vegar ekkert nýtt við þá atburðarrás sem er í gangi núna. Þetta er ekkert í fyrsta skipti sem bæjarbúar skipta sér í fylkingar og hatrammar deilur eiga sér stað. Og örugglega ekki í það síðasta. Því miður.

Ég hef aldrei tekið þátt í innanbæjardeilum í Bolungarvík en ég hef hins vegar orðið fyrir barðinu á þeim af þeirri einföldu ástæðu að pabbi minn sat í bæjarstjórn. Það virðist vera eðli svona hatrammra deilna í Víkinni minni fögru að níða skóinn af þeim sem hafa aðrar skoðanir en maður sjálfur og láta fólk finna fyrir því. Mér hefur ekki tekist að skilja það enn þann dag í dag, þrátt fyrir að ég sé komin til vits og ára, hvernig í ósköpunum fullorðnu fólki getur dottið það til hugar að láta pólitíska andúð sína á ákveðnum aðilum bitna á saklausum börnum. Eitthvað segir mér að það hafi ekki breyst til batnaðar síðan ég var krakki.

Ég var hins vegar alin upp fyrir tíma internetsins. Ég var því blessunarlega laus við það að lesa óritskoðuð álit annarra bæjarbúa á pabba mínum - og minni fjölskyldu yfir höfuð. Ekki það að það hafi verið skemmtilegt að upplifa fyrirlitningu frá ónefndum bæjarbúum út á götu en tilvist internetsins hefði ekki gert rölt um götur bæjarins að skemmtilegri lífsreynslu.

Það þarf því ekki að hafa mörg orð um það hvað ég er guðs lifandi fegin að vera ekki búsett í Bolungarvík þessa dagana. Það er búið að fylla kvótann hjá mér af innbyrðis deilum bæjarbúa fyrir lífstíð. Víkin mín á hins vegar alltaf sérstakan sess í mínu hjarta enda minn fæðingarstaður. Ég finn það samt aldrei jafn sterkt og þegar svona deilur blossa upp hvað það hefur teygst mikið á rótunum. Ég hef ekkert að sækja til Bolungarvíkur þar sem neikvæðni og átök ríkja.

Fyrrverandi meirihluti með Grím í broddi fylkingar fékk mann til að trúa því að kannski væri hægt að gera hlutina af jákvæðni í Bolungarvík. Kannski væri hægt að sjá sólina rísa yfir fjöllunum þannig að hún skini inn í hvert einasta hús. Núna er ég ekki svo viss. Ég er þó viss um það að áframhaldandi átök og deilur á meðal bæjarbúa gera ekkert nema rífa bæjarheildina niður innan frá og búa til sár sem aldrei koma til með að gróa.

Ég vona að Bolvíkingum eigi eftir að lánast að standa saman sem heild og skapa samfélag sem verður gott heim að sækja í framtíðinni. Búa til samfélag sem fær mann til þess að fyllast stolti yfir uppruna sínum og finna fyrir löngun til þess að flytja heim aftur. Þá skal ég segja það með stolti að ég sé borin og barnfæddur Bolvíkingur.

25 apríl 2008

Fermingarafmæli

Ég á víst fermingarafmæli í dag. Það eru heil 15 ár síðan ég gekk í fullorðinna manna tölu í Hólskirkju í Bolungarvík. Ef ég hefði verið á heimaslóðum hefði ég tekið þátt í þöglum mótmælum við Ráðhúsið í tilefni dagsins. Það er ekki öll vitleysan eins.

24 apríl 2008

Gleðilegt sumar

Ekki fraus saman vetur og sumar í höfuðborginni en ég vona að sumarið verði gott fyrir því. Ætla nefnilegast að eiga svo svaðalega skemmtilegt sumar. Um að gera að ná góðum stundum með vinum og fjölskyldu áður en maður stingur af í útlandið.

Ég kíkti með mömmu í Hagkaup í Holtagörðum áðan. Okkur þykir álíka leiðinlegt að þvælast í svoleiðis búðum svo það er fréttnæmt þegar það gerist. Við versluðum í snyrtivörudeildinni afmælisgjöf fyrir vinkonu mömmu og ég mundi eftir góðri sögu þegar við reyndum að fá upplýsingar um verð á vörunum en það var ekki ein vara verðmerkt í hillunum hjá þeim.

Við mæðgur skelltum okkur á Grænan Kost eitt laugardagskvöldið til að fá okkur í svanginn. Röltum svo niðrá Laugaveg og fórum í Mál og menningu þar sem mamma þurfti að útrétta eitthvað. Í Mál og menningu var svipað vandamál upp á teningnum og í Hagkaup í Holtagörðum. Það var ekkert verðmerkt af því sem við vorum að skoða. Við segjum við konuna sem var að afgreiða í búðinni svona í léttu gríni hvort þetta sé bara allt ókeypis hjá þeim, svona fyrst engar upplýsingar eru um verð. Konan horfði á okkur eins og við værum með horn og hala og sagði við okkur stórhneyksluð: Þið hljótið nú að geta sagt ykkur það sjálfar að það er ekkert ókeypis hér.

Húmorinn augljóslega að sliga greyið stúlkukindina.

20 apríl 2008

Hún Dagný systir mín á afmæli í dag og er orðin þrítug. Ég sendi hamingjuóskir í Grenibyggðina og vona að þau eigi góðan dag.

10 apríl 2008

Be careful what you wish for...

Ég hef stundum sagt í gamni að ég sé ekkert að leita mér að kærasta heldur sé ég að bíða eftir því að rétti aðilinn banki bara upp á hjá mér. Fyrir nokkru síðan fékk ég símtal sem má flokka undir það að það hafi verið bankað upp á og ég verð að viðurkenna að þegar ég stóð frammi fyrir aðstæðunum þá fannst mér það ekkert sérstaklega aðlaðandi hugmynd að einhver bankaði bara upp á og byði manni á deit.

Þegar ég svaraði í símann var sagt við mig að þetta væri örugglega furðulegasta símtal sem ég hefði fengið. Ég held að það sé óhætt að halda því fram og það verður örugglega seint toppað. Í símanum var sem sagt bláókunnugur maður sem vildi endilega bjóða mér á deit. Hann sagðist vera meira fyrir að framkvæma en að tala bara um hlutina svo hann bankaði bara upp á - í gegnum símann. Ég held að ég hafi aldrei á ævinni verið jafn mikið kjafstopp og sagt jafn lítið í einu símtali. En þrátt fyrir að þessi ágæti maður hafi eflaust margt til brunns að bera þá varð mín upplifun af þessu atviki ekki þess eðlis að ég væri til í að drífa mig á deit. Það var bara of mikið að höndla að það hefði bara verið bankað upp á.

Síðan þetta var hef ég fengið annað furðulegt símtal. Síminn vakti mig um miðja nótt, ég hrökk upp og greip símann og svaraði. Það var strax byrjað að tala á fullu á hinni línunni en heilinn á mér var ennþá sofandi og meðtók ekkert af því sem sagt var. Honum var hins vegar sparkað inn í meðvitundina þegar það var byrjað á því að stynja all svakalega í símann. Þar sem ég hafði enga hugmynd um hver var á hinni línunni skellti ég á. Það var hins vegar hringt aftur með það sama og ég svaraði án þess að segja nokkuð í símann. Viðkomandi spurði hvort þetta væri ekki hún Anna og ég neitaði því. Drengurinn var ekki tilbúinn til þess að meðtaka það, sagði að þetta væri víst hún Anna, hún hefði beðið hann um að hringja og hann setti í fimmta gírinn í kynlífslýsingunum. Anna greyið hefur eflaust setið svekkt og sár og beðið við símann en drengurinn fékk ekkert nema hótanir um kæru til lögreglu frá mér áður en ég skellti á hann aftur. Ég svaraði ekki þegar hann hringdi í þriðja skiptið. Hann hefur kannski fundið Önnu eftir það. Hver veit.

Núna er ég farin að hugsa mig tvisvar um áður en ég svara í símann. Ég veit ekki hvort mér finnst óhuggulegra, símaperrar að hringja í skakkt númer eða ókunnugir gaurar út í bæ séu að bjóða mér á deit. Eins furðulega og það kannski hljómar. Það er hins vegar alveg búið að stroka út þann möguleika að það sé fínt að það verði bara bankað upp á. Þegar á reyndi þá var það einfaldlega ekki fyrir mig.

04 apríl 2008

Með lífið í lúkunum

Á sama tíma og glymur auglýsingaherferð á landanum um að hvíla sig í 15 mínútur til þess að sofna nú ekki undir stýri herja atvinnubílstjórar á þjóðina og vilja ekki þurfa að hvíla sig í vinnunni. Segja að löggjöf um hvíldartíma frá háum herrum í Brussel eigi ekki við hér á landi. Kannski er það bara ég en mér finnst þetta óttaleg þversögn. Ég held að hinar margfrægu sér íslensku aðstæður kalli frekar á meiri hvíld en í öðrum löndum Evrópu þar sem vegir eru sómasamlega breiðir og veðurfarið nokkuð stöðugt. Ég hef allavegana lítinn áhuga á því að setjast upp í rútu þar sem bílstjórinn hefur verið í vinnunni án hvíldar í marga klukkutíma. Hann hefur nefnilega lífið mitt í lúkunum á meðan hann situr ósofinn undir stýri.

Ég mun því ekki leggja inn á styrktarreikning til þess að menn sem taka meðvitaða ákvörðun um að brjóta lög og reglur geti borgað sektirnar sínar. Menn verða að bera ábyrgð á því sem þeir gera. Það að keyra jafnvel sólarhringum saman án þess að taka sér reglulega hvíld er vítavert gáleysi í umferðinni rétt eins og að keyra fullur. Ég get ekki vorkennt mönnum fyrir að vera sektaðir fyrir það. Mér finnst barátta bílstjóranna að mörgu leyti vanhugsuð og ég velti því fyrir mér fyrir hvaða hagsmunum er verið að berjast í raun og veru. Ég vil varla trúa því að menn séu í fúlustu alvöru að berjast fyrir því að fá að keyra jafnvel hringveginn án þess að stoppa til að hvíla sig. Hefði ekki verið nær lagi að berjast fyrir því að það yrðu settir upp hvíldaráningarstaðir sem víðast um landið?

Því verður ekki neitað að akstur er dauðans alvara. Það er líka dauðans alvara að teppa umferð á öllum stofngötum höfuðborgarinnar dag eftir dag án nokkurs samráðs við slökkvi- og sjúkralið. Slíkar aðgerðir njóta bara stuðnings þangað til sú dauðans alvara ber að dyrum. Ég held því að atvinnubílstjórar hefðu gott af því að leggja sig aðeins. Hvíla bílflautið og leggja sig í svona eins og 15 mínútur. Það er alveg merkilegt hvað heimurinn getur litið öðruvísi út þegar maður er búinn að hvíla sig aðeins. Kannski menn átti sig þá á þeirri dauðans alvöru sem er fólgin í akstri á hverjum einasta degi.

02 apríl 2008

Fræðslufundur

Samtök kvenna með endómetríósu halda fræðslufund annað kvöld í Hringsal LSH við Hringbraut kl. 20. Efni fundarins er næring og áhrif hennar á endómetríósu. Bertha M Ársælsdóttir, næringarfræðingur við kvennadeild LSH, og Birna Imsland hómópati munu flytja erindi á fundinum. Allir áhugasamir eru velkomnir.