10 apríl 2008

Be careful what you wish for...

Ég hef stundum sagt í gamni að ég sé ekkert að leita mér að kærasta heldur sé ég að bíða eftir því að rétti aðilinn banki bara upp á hjá mér. Fyrir nokkru síðan fékk ég símtal sem má flokka undir það að það hafi verið bankað upp á og ég verð að viðurkenna að þegar ég stóð frammi fyrir aðstæðunum þá fannst mér það ekkert sérstaklega aðlaðandi hugmynd að einhver bankaði bara upp á og byði manni á deit.

Þegar ég svaraði í símann var sagt við mig að þetta væri örugglega furðulegasta símtal sem ég hefði fengið. Ég held að það sé óhætt að halda því fram og það verður örugglega seint toppað. Í símanum var sem sagt bláókunnugur maður sem vildi endilega bjóða mér á deit. Hann sagðist vera meira fyrir að framkvæma en að tala bara um hlutina svo hann bankaði bara upp á - í gegnum símann. Ég held að ég hafi aldrei á ævinni verið jafn mikið kjafstopp og sagt jafn lítið í einu símtali. En þrátt fyrir að þessi ágæti maður hafi eflaust margt til brunns að bera þá varð mín upplifun af þessu atviki ekki þess eðlis að ég væri til í að drífa mig á deit. Það var bara of mikið að höndla að það hefði bara verið bankað upp á.

Síðan þetta var hef ég fengið annað furðulegt símtal. Síminn vakti mig um miðja nótt, ég hrökk upp og greip símann og svaraði. Það var strax byrjað að tala á fullu á hinni línunni en heilinn á mér var ennþá sofandi og meðtók ekkert af því sem sagt var. Honum var hins vegar sparkað inn í meðvitundina þegar það var byrjað á því að stynja all svakalega í símann. Þar sem ég hafði enga hugmynd um hver var á hinni línunni skellti ég á. Það var hins vegar hringt aftur með það sama og ég svaraði án þess að segja nokkuð í símann. Viðkomandi spurði hvort þetta væri ekki hún Anna og ég neitaði því. Drengurinn var ekki tilbúinn til þess að meðtaka það, sagði að þetta væri víst hún Anna, hún hefði beðið hann um að hringja og hann setti í fimmta gírinn í kynlífslýsingunum. Anna greyið hefur eflaust setið svekkt og sár og beðið við símann en drengurinn fékk ekkert nema hótanir um kæru til lögreglu frá mér áður en ég skellti á hann aftur. Ég svaraði ekki þegar hann hringdi í þriðja skiptið. Hann hefur kannski fundið Önnu eftir það. Hver veit.

Núna er ég farin að hugsa mig tvisvar um áður en ég svara í símann. Ég veit ekki hvort mér finnst óhuggulegra, símaperrar að hringja í skakkt númer eða ókunnugir gaurar út í bæ séu að bjóða mér á deit. Eins furðulega og það kannski hljómar. Það er hins vegar alveg búið að stroka út þann möguleika að það sé fínt að það verði bara bankað upp á. Þegar á reyndi þá var það einfaldlega ekki fyrir mig.

Engin ummæli: