29 apríl 2008

Víkin fagra, Víkin mín

Það er óhætt að segja að Bolungarvíkin logi fjallanna á milli þessa dagana. Meirihlutaslitin hafa aldeilis komið við kauninn hjá fólki og lái þeim hver sem vill. Það er hins vegar ekkert nýtt við þá atburðarrás sem er í gangi núna. Þetta er ekkert í fyrsta skipti sem bæjarbúar skipta sér í fylkingar og hatrammar deilur eiga sér stað. Og örugglega ekki í það síðasta. Því miður.

Ég hef aldrei tekið þátt í innanbæjardeilum í Bolungarvík en ég hef hins vegar orðið fyrir barðinu á þeim af þeirri einföldu ástæðu að pabbi minn sat í bæjarstjórn. Það virðist vera eðli svona hatrammra deilna í Víkinni minni fögru að níða skóinn af þeim sem hafa aðrar skoðanir en maður sjálfur og láta fólk finna fyrir því. Mér hefur ekki tekist að skilja það enn þann dag í dag, þrátt fyrir að ég sé komin til vits og ára, hvernig í ósköpunum fullorðnu fólki getur dottið það til hugar að láta pólitíska andúð sína á ákveðnum aðilum bitna á saklausum börnum. Eitthvað segir mér að það hafi ekki breyst til batnaðar síðan ég var krakki.

Ég var hins vegar alin upp fyrir tíma internetsins. Ég var því blessunarlega laus við það að lesa óritskoðuð álit annarra bæjarbúa á pabba mínum - og minni fjölskyldu yfir höfuð. Ekki það að það hafi verið skemmtilegt að upplifa fyrirlitningu frá ónefndum bæjarbúum út á götu en tilvist internetsins hefði ekki gert rölt um götur bæjarins að skemmtilegri lífsreynslu.

Það þarf því ekki að hafa mörg orð um það hvað ég er guðs lifandi fegin að vera ekki búsett í Bolungarvík þessa dagana. Það er búið að fylla kvótann hjá mér af innbyrðis deilum bæjarbúa fyrir lífstíð. Víkin mín á hins vegar alltaf sérstakan sess í mínu hjarta enda minn fæðingarstaður. Ég finn það samt aldrei jafn sterkt og þegar svona deilur blossa upp hvað það hefur teygst mikið á rótunum. Ég hef ekkert að sækja til Bolungarvíkur þar sem neikvæðni og átök ríkja.

Fyrrverandi meirihluti með Grím í broddi fylkingar fékk mann til að trúa því að kannski væri hægt að gera hlutina af jákvæðni í Bolungarvík. Kannski væri hægt að sjá sólina rísa yfir fjöllunum þannig að hún skini inn í hvert einasta hús. Núna er ég ekki svo viss. Ég er þó viss um það að áframhaldandi átök og deilur á meðal bæjarbúa gera ekkert nema rífa bæjarheildina niður innan frá og búa til sár sem aldrei koma til með að gróa.

Ég vona að Bolvíkingum eigi eftir að lánast að standa saman sem heild og skapa samfélag sem verður gott heim að sækja í framtíðinni. Búa til samfélag sem fær mann til þess að fyllast stolti yfir uppruna sínum og finna fyrir löngun til þess að flytja heim aftur. Þá skal ég segja það með stolti að ég sé borin og barnfæddur Bolvíkingur.

Engin ummæli: