Með lífið í lúkunum
Á sama tíma og glymur auglýsingaherferð á landanum um að hvíla sig í 15 mínútur til þess að sofna nú ekki undir stýri herja atvinnubílstjórar á þjóðina og vilja ekki þurfa að hvíla sig í vinnunni. Segja að löggjöf um hvíldartíma frá háum herrum í Brussel eigi ekki við hér á landi. Kannski er það bara ég en mér finnst þetta óttaleg þversögn. Ég held að hinar margfrægu sér íslensku aðstæður kalli frekar á meiri hvíld en í öðrum löndum Evrópu þar sem vegir eru sómasamlega breiðir og veðurfarið nokkuð stöðugt. Ég hef allavegana lítinn áhuga á því að setjast upp í rútu þar sem bílstjórinn hefur verið í vinnunni án hvíldar í marga klukkutíma. Hann hefur nefnilega lífið mitt í lúkunum á meðan hann situr ósofinn undir stýri.
Ég mun því ekki leggja inn á styrktarreikning til þess að menn sem taka meðvitaða ákvörðun um að brjóta lög og reglur geti borgað sektirnar sínar. Menn verða að bera ábyrgð á því sem þeir gera. Það að keyra jafnvel sólarhringum saman án þess að taka sér reglulega hvíld er vítavert gáleysi í umferðinni rétt eins og að keyra fullur. Ég get ekki vorkennt mönnum fyrir að vera sektaðir fyrir það. Mér finnst barátta bílstjóranna að mörgu leyti vanhugsuð og ég velti því fyrir mér fyrir hvaða hagsmunum er verið að berjast í raun og veru. Ég vil varla trúa því að menn séu í fúlustu alvöru að berjast fyrir því að fá að keyra jafnvel hringveginn án þess að stoppa til að hvíla sig. Hefði ekki verið nær lagi að berjast fyrir því að það yrðu settir upp hvíldaráningarstaðir sem víðast um landið?
Því verður ekki neitað að akstur er dauðans alvara. Það er líka dauðans alvara að teppa umferð á öllum stofngötum höfuðborgarinnar dag eftir dag án nokkurs samráðs við slökkvi- og sjúkralið. Slíkar aðgerðir njóta bara stuðnings þangað til sú dauðans alvara ber að dyrum. Ég held því að atvinnubílstjórar hefðu gott af því að leggja sig aðeins. Hvíla bílflautið og leggja sig í svona eins og 15 mínútur. Það er alveg merkilegt hvað heimurinn getur litið öðruvísi út þegar maður er búinn að hvíla sig aðeins. Kannski menn átti sig þá á þeirri dauðans alvöru sem er fólgin í akstri á hverjum einasta degi.
2 ummæli:
Hmmm .... ég tók mótmælin sem skömmum yfir háu bensínverði. Hitt er rugl, en ef þeir ná bensínverðinu niður um tíkall þá er ég sáttur
Þeir eru að berjast fyrir báðum atriðunum. Tiltók bensínskattana ekkert sérstaklega enda held ég að deili enginn um það að þeir mættu alveg lækka. Þetta atriði er hins vegar það eina sem þeir hafa verið að ræða á fundum með stjórnvöldum - og ég held einmitt að fæstir geri sér grein fyrir því. Þess vegna setti ég þetta inn því það er atriði sem þarfnast umræðu, hvernig sé hægt að leysa það þannig að allir séu sáttir.
Skrifa ummæli