Gleðilegt sumar
Ekki fraus saman vetur og sumar í höfuðborginni en ég vona að sumarið verði gott fyrir því. Ætla nefnilegast að eiga svo svaðalega skemmtilegt sumar. Um að gera að ná góðum stundum með vinum og fjölskyldu áður en maður stingur af í útlandið.
Ég kíkti með mömmu í Hagkaup í Holtagörðum áðan. Okkur þykir álíka leiðinlegt að þvælast í svoleiðis búðum svo það er fréttnæmt þegar það gerist. Við versluðum í snyrtivörudeildinni afmælisgjöf fyrir vinkonu mömmu og ég mundi eftir góðri sögu þegar við reyndum að fá upplýsingar um verð á vörunum en það var ekki ein vara verðmerkt í hillunum hjá þeim.
Við mæðgur skelltum okkur á Grænan Kost eitt laugardagskvöldið til að fá okkur í svanginn. Röltum svo niðrá Laugaveg og fórum í Mál og menningu þar sem mamma þurfti að útrétta eitthvað. Í Mál og menningu var svipað vandamál upp á teningnum og í Hagkaup í Holtagörðum. Það var ekkert verðmerkt af því sem við vorum að skoða. Við segjum við konuna sem var að afgreiða í búðinni svona í léttu gríni hvort þetta sé bara allt ókeypis hjá þeim, svona fyrst engar upplýsingar eru um verð. Konan horfði á okkur eins og við værum með horn og hala og sagði við okkur stórhneyksluð: Þið hljótið nú að geta sagt ykkur það sjálfar að það er ekkert ókeypis hér.
Húmorinn augljóslega að sliga greyið stúlkukindina.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli