01 mars 2009

Ritgerðir enn og aftur

Er búin að nota helgina í að skoða heimildir og melta ritgerðarefni. Ég ákvað að láta tvær smærri ritgerðir bíða örlítið og fókusera á að finna efni í þær tvær stóru sem ég þarf að skrifa sem og að njörva betur niður efni í mastersritgerðina. Í EU in the World ætla ég að skrifa um tengsl ESB og Úkraínu og fókusera sérstaklega á það að Úkraína vonast sterklega til þess að verða aðildarríki ESB þrátt fyrir að það sé kveðið skýrt á um það í stefnusamningi um samskipti ríkjanna að slíkt sé ekki í boði. ESB er að senda Úkraínu frekar misvísandi skilaboð í þessum efnum og þar sem afar ólíklegt verður að teljast að ESB verði stækkað mikið frekar í bili þá held ég að þeir þurfi að hugsa út fyrir rammann og bjóða Úkraínumönnum aðra gulrót.

Í European Foreign and Security Policy ætla ég að skrifa um tengsl Rússlands og ESB. Fór á málþing um þetta á miðvikudaginn þar sem tveir virtir fræðimenn sem höfðu gjörólíka afstöðu til málsins töluðu. Það var mjög fróðlegt að hlusta á þá og þær umræður sem sköpuðust í kjölfarið. Mönnum ber engan vegin saman um hvort að ógn stafi af Rússum eða ekki og því ætti að verða fróðlegt að kafa frekar ofan í þetta. Sérstaklega með tilliti til veru Íslands í Nató. Ef það er engin ógn frá Rússlandi hvers vegna á Ísland þá að eyða fullt af peningum í aðild að Nató? Sérstaklega á þessum síðustu og verstu.

Í mastersritgerðinni ætla ég svo að skrifa um læsi og mikilvægi þess í fullorðinsfræðslu sem hluta af þróunaraðstoð. Ísland hefur unnið að slíku verkefni í Úganda og ég ætla að skoða það nánar og nota í ritgerðinni. Í mínum huga er þetta kjarninn í þróunaraðstoð og fyrsta skrefið í því að hjálpa fólki til að hjálpa sér sjálft. Menn geta rétt ímyndað sér hvaða dyr opnast hjá fólki þegar það hefur lært að lesa og skrifa. Ekki einungis í beinni þekkingarleit heldur bara í daglegu lífi. Menn geta lesið á umferðarskilti, utan á umbúðir, aflað sér upplýsinga um almennt hreinlæti og svo mætti lengi telja.

Þetta hefur því verið frekar róleg helgi. Það var hittingur hjá Marty á fimmtudagskvöldið sem var skemmtilegur að vanda. Það má segja að við séum þar að vinna meðvitað gegn group thinking. Við erum sjaldnast sammála um það sem við erum að ræða og ef við erum of sammála er alltaf einhver sem tekur það að sér að hleypa lífi í umræðuna og finna rök á móti. Það nýtist sumum t.d. í mastersritgerðunum þegar við höfum talað um efni sem þeir ætla að skrifa um. Það er mjög gagnlegt að heyra sjónarmið sem ganga gegn þeim málflutningi sem maður hefur sjálfur og geta þar með gert ráð fyrir hluta af þeirri gagnrýni sem ritgerðin getur fengið. Það geta nefnilegast allir dottið í group thinking og orðið samdauna sínum eigin rökum. Þó svo að Chavez og Mugabe séu ýkt dæmi þá þýðir það ekki að allir séu jafn ýktir og þeir. Geir Haarde var t.d. klárlega fastur í eigin hugsun og má alveg færa rök fyrir því að það hafi fellt ríkisstjórnina. Á meðan Ingibjörg Sólrún kom með mjög klárt pólitískt move og tefldi Jóhönnu fram sem forsætisráðherraefni þá var Geir fastur í því hvernig hlutirnir hafa alltaf verið gerðir og var ekki til umræðu um annað. Ef hann hefði getað horft á hlutina öðrum augum þá hefði stjórnin líklega haldið.

En ég græt það svo sem ekki, íhaldið má vera í hvíld frá ríkisstjórn næstu áratugina mín vegna :p Maybe I should have verða líklega eftirmæli Geirs í pólitík. Stutt og laggóð. En ég á víst að vera að horfa meira til Rússlands en Íslands akkúrat núna. Ætla að halda áfram með lærdóminn. Þangað til næst.

Engin ummæli: