19 mars 2009

Hvað er lýðræði?

Það var hittingur hjá Marty í kvöld og umræðuefni kvöldsins var hvort að lýðræði væri töfralyfið við vandamálum heimsins. Aldrei þessu vant vorum við ótrúlega sammála og það var enginn til í að kvitta upp á það að lýðræði væri allra meina bót. Hinsvegar vorum við sammála um það að lýðræðið væri það besta sem við ættum, hversu meingallað sem það kynni að vera. Þetta voru mjög skemmtilegar pælingar, bara það til dæmis að velta því fyrir sér hvaða gildi samfélag þyrfti að hafa til þess að geta talist lýðræði. Gildi eins og skoðanafrelsi, kosningaréttur og frjáls fjölmiðlun. Sem sagt ekki þessi hefðbundna þrískipting ríkisvalds sem maður lærir um í skólanum heldur bara hvernig lýðræðisleg samfélög eru í raun og veru. Í lýðræðisríkjum ræður til dæmis meirihlutinn, samt eru mýmörg dæmi um það að forsetar komist til dæmis til valda án þess að hafa meirihluta þjóðarinnar á bakvið sig og stjórnmálaflokkar sem meirihlutinn gaf ekki atkvæði sitt geta setið í ríkisstjórn kjörtímabil eftir kjörtímabil. Er það lýðræði? Á að vernda minnihlutahópa sérstaklega þegar þeir verða áþreifanlega undir, eða á meirihlutinn alltaf að ráða? Á að vera herskylda/þegnskylda?

Ég hef ekkert legið á því að mér finnst íslenskt samfélag vera siðferðislega gjaldþrota. Skítt með peningana, við getum unnið okkur út úr því og komið okkur réttum megin við núllið. Það verður hinsvegar miklu meira mál að ná ærunni aftur. Að öðlast virðingu annarra þjóða og komast á það stig að við sem þjóð getum borið virðingu fyrir okkur sjálfum á nýjan leik. Menn eru að karpa um stjórnlagaþing og hvað það kostar en ég spyr á móti, hvað kostar að gera það ekki? Eftir umræðu kvöldsins er ég samt ekkert sérstaklega hlynnt því að það verði kosið til einhvers stjórnlagaþings þar sem hlutirnir verða ákveðnir fyrir okkur. Ég held að það hafi allir Íslendingar gott af því að velta því fyrir sér hvað lýðræði er í þeirra huga og hvort og þá hvernig sú skilgreining eigi við íslenskt samfélag í dag. Ég held að það væri líka áhugavert að nota lífsleiknitíma grunnskólanna til þess að leyfa börnunum að velta því fyrir sér hvað lýðræði er og heyra hvaða pælingar þau hafa.

Við þurfum nefnilega að ákveða í hvernig samfélagi við viljum búa og hvaða gildi við viljum halda í heiðri og það kemur flokkapólitík ekkert við. Ég get ekki ímyndað mér að það þurfi að kosta svo mikla peninga að búa til opinn umræðuvettvang fyrir fólkið í landinu um hvað lýðræði er og hvernig við viljum hafa það. Væri jafnvel hægt að nýta eitthvað af því fólki sem er á atvinnuleysisskrá til þess að halda utan um þær hugmyndir sem þar koma fram og stýra svona verkefni. Auk þess eigum við Ríkisútvarp og sjónvarp sem getur miðlað upplýsingunum áfram til fólksins í landinu og stækkað umræðuvettvanginn enn frekar. Það er fólkið sem skapar samfélagið og ef það þarf að endurbyggja það þá er það fólkið sjálft sem þarf að vinna vinnuna. Við þurfum ekki tveggja milljarða stjórnlagaþing. Við þurfum bara að taka höndum saman og ákveða hvernig við viljum að Nýja Ísland verði. Fólkið í landinu er mesti auðurinn sem Ísland á og það á að fá að taka þátt í því að endurbyggja nýtt samfélag í landinu. Í mínum huga er það lýðræði.

Engin ummæli: