02 mars 2009

Einelti og ofbeldi

Mikið svakalega var það óheppilegt af skólastjóra Sandgerðisskóla að láta hafa það eftir sér að of mikið væri gert úr árásinni sem átti sér stað á skólalóðinni þar fyrir helgi. Auðvitað hlýtur þetta atvik að eiga sér sögu sem á ekki erindi til fjölmiðla og hún sem skólastjóri getur ekki sagt frá en það breytir ekki alvarleika málsins. Ef henni þykir svo of mikið gert úr þessu þá hlýtur maður að spurja sig hvað hún telji nógu alvarlegt til þess að fjölmiðlar fjalli um það með þeim hætti sem nú hefur verið gert. Þessi skólastjóri er hinsvegar ekki í öfundsverðri stöðu. Skólakerfið er ekkert að kikna undan úrlausnum í svona málum. Hún getur jú vísað drengjunum úr skóla í einhvern tíma en það tekur ekki á rótum vandans og getur jafnvel í versta falli aukið á hann.

Einelti og annað ofbeldi hefur alltaf verið soldið afgangs í íslensku skólakerfi og mýmörg dæmi um eineltismál sem skólar hafa höndlað alveg skammarlega illa. Menn virðast ýta þessu dáldið á undan sér og ég leyfi mér að efast um það að menn hafi einhvern tíman sest niður og reynt að horfa á úrlausnarefni á heildstæðan hátt. Vissulega var Olweusaráætlunin trend sem fór víða en málin fara ekki alltaf í góðan farveg þó svo maður hafi voða fína áætlun um hvernig maður ætlar að taka á þeim. Ég ætla þó ekki að níða skóinn af starfsfólkinu innan skólakerfisins þrátt fyrir að þeir hafi oft á tíðum staðið sig afar illa í þessum málum. Kennarar fá enga þjálfun í námi sínu til þess að takast á við einelti, ofbeldi eða erfiðar félagslegar aðstæður nemenda. Kennaranámið snýst bara um þau fög sem á að kenna og það vantar hreinlega alla praktík í námið. Kennarar hafa því litlar forsendur til þess að taka á erfiðum málum á faglegan hátt. Þrátt fyrir það held ég að menn reyni alltaf að gera sitt besta þó svo að aðstæðurnar séu oft erfiðar og það megi deila um árangurinn.

Það eru þó til ljós í myrkrinu. Í Kennó var ég í tímum hjá konu, Kristínu Lilliendahl, sem hefur stúderað einelti á meðal stelpna, svokallaða félagslega ýga hegðun (social agression, varla hægt að þýða þetta á íslensku en ýg hegðun er fræðiheitið). Stelpur nota nefnilegast aðrar aðferðir við að leggja í einelti en strákar. Þær lemja síður en baktala, útiloka frá hópnum og nota aðrar þvíumlíkar aðferðir. Myndin Mean Girls með Lindsey Lohan er byggð á bókinni Queen Bees and Wannabees sem fjallar akkúrat um þetta. Þetta skrifaði ég um í lokaritgerðinni minni í Kennó og svo sem ekkert af ástæðulausu enda verið fórnarlamb svona aðfara sjálf. Það er ekkert djók að upplifa það, máttur kjaftasagna og félagslegrar útilokunar er mikill. Það var ein manneskja í Bolungarvík sem stóð með mér í gegnum þetta tímabil. Ein. Þeir eru svo teljandi á fingrum annarrar handar sem sáu ástæðu til þess að biðja mig afsökunar á framferði sínu eftir á. Allt mátti þetta rekja til einnar manneskju og ég veit að hún tók fleiri fyrir en mig.

Þrátt fyrir að þetta hafi allt átt sér stað eftir að minni grunnskólagöngu var lokið hefði skólinn sem slíkur getað gert ýmislegt með fyrirbyggjandi aðgerðum. Bara með því að hafa stúderað þetta í lokaritgerðinni get ég spottað svona týpur nánast um leið og ég hitti þær og ég veit hvar ég get leitað mér upplýsinga um leiðir til þess að tækla þær á jákvæðan máta. Höfundur Queen Bees and Wannabees hefur unnið mikið starf í Bandaríkjunum og það er nánast óplægður akur á Íslandi að vinna fyrirbyggjandi vinnu í þessum málum t.d. í gegnum Lífsleikni kennslu. Markmiðið með ritgerðinni á sínum tíma var að vekja athygli á efninu og við vonuðum að einhverjir myndu fylgja í kjölfarið og vinna ítarlegri greiningu á þessum málum á Íslandi. Kristín hefur unnið mikið og gott starf og hefur verið óþreytandi við að vekja athygli á þessum málum. Ritgerðin okkar er svo til á bókasafni Kennó og ég á hana líka til á tölvutæku formi.

Það er því margt hægt að gera og margt í boði. Rosalind Wiseman, höfundur Queen Bees and Wannabees, býður t.d. kennurum upp á námskeið í aðferðum hennar við að tækla félagslega ýga hegðun. Kennarar og skólayfirvöld verða hinsvegar að hafa frumkvæði að því að sækjast eftir slíku efni sjálf. Því miður. Vonandi verður þessi stutti pistill hvati að því að einhverstaðar fari bolti af stað.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mikið innilega er ég sammála þér. Ég held að Olweusar áætlunin sem stórlega ofmetin. Ég hef allavega ekki séð hana skila því sem hún á að skila og held að það sé vont þegar fólk "trúir" á svona apparat og treystir því að það bjargi öllu þegar lítil innistæða er fyrir því.

Nafnlaus sagði...

Ahh. Gleymdi að skrifa undir.
Kv. Sólrún.