08 mars 2009

Vorið er komið og grundirnar gróa

Þá held ég að ég geti að vorið sé komið til Brussel. Á minn mælikvarða allavegana. Lækkaði á ofninum í íbúðinni áðan í fyrsta skiptið síðan það fór að kólna í haust og ég er hætt að vera undir sæng á meðan ég er að læra. Að vísu segja skólafélagar mínir að vorið sé á næsta leyti, það sé ekki alveg komið en ég er ekki jafn kröfuhörð á skilgreiningarnar. Það eru ekki nema rétt rúmar 4 vikur í næsta frí svo ég er farin að huga að því sem ég þarf að klára áður en ég fer heim. Ber þar helst að nefna þessar blessuðu ritgerðir, þarf að koma 16.000 orðum á prent fyrir 9. apríl. Er komin með sirka 700 svo ég get allavegana sagt að ég sé byrjuð. Sló hlutunum hinsvegar upp í kæruleysi í gær og skellti mér á djammið. Austurrísk vinkona mín var með partý og það voru þó nokkrir úr skólanum þar. Fórum svo á stað sem heitir Ethnic sem er víst vinsæll djammstaður hjá krökkunum í skólanum. Segir allt sem segja þarf um djammið á mér hérna úti að ég hef aldrei farið þangað áður.

Það spilaði þó stóra rullu að ég skellti mér þangað eftir partýið að staðurinn er hérna uppá Louise svo ég gat labbað heim. Afar hentugt. Það verður þó líklegast ekki mikið meira djamm til viðbótar áður en ég fer heim því ég hef bara 4 helgar til að skrifa þau 15.300 orð sem mig vantar upp á til að klára verkefni annarinnar. Það verður því ræs snemma í fyrramálið og sett í fluggírinn í skriftunum.

Engin ummæli: