23 júlí 2009

Allt búið

Þá er ég búin að skila inn mastersritgerðinni og lítið annað eftir en að koma sér heim á Klakann. Það er óneitanlega dálítið erfitt að sleppa tökunum og skila. Það hafa ýmsar hugsanir flogið í gegnum hugann í dag. Merkti ég ekki örugglega viðaukann inn? Ætli ég hafi gleymt að laga e-a innsláttarvillu? Ætti ég ekki að renna yfir þetta einu sinni enn til þess að vera nú alveg viss um að þetta sé í lagi? Þá skiptir litlu þó svo að aðrir en ég hafi fínkemmt ritgerðina í leit að villum og að ég hafi líka gert það sjálf. Þegar maður er búin að liggja yfir einhverju verkefni svona lengi er erfitt að setja punkt og hætta. En það þýðir lítið að velta sér upp úr slíkum hugsunum núna. Ritgerðin er farin úr mínum höndum og ég held að ég geti verið ánægð með hana. Í það minnsta gerði ég mitt besta og maður getur víst aldrei gert betur en það.

Morgundagurinn mun fara í það að losa mig við sem mest af dótinu mínu hérna úti. Ég hafði miklar áhyggjur af því að þurfa að henda mestu af eldhúsdótinu mínu - og það er tómt vesen að henda hérna - en það virðist vera að bjargast fyrir horn. Stelpan sem ætlaði hinsvegar að kaupa húsgögnin þurfti að hætta við það með litlum fyrirvara því hún er ekki enn komin með íbúð og ég er ekki enn búin að finna út úr því hvernig ég fer að því að losa mig við þau. En ég krossa bara fingur og vona að það reddist. Vonandi næ ég allavegana að leysa úr þessu á morgun og næ að chilla aðeins á laugardaginn. Við íslensku stelpurnar hérna erum að spá í að skella okkur til Gent að slæpast og það væri gaman að geta náð því.

Á sunnudaginn hoppa ég svo upp í lestina til Amsterdam og lenti á Íslandinu seint um kvöldið. Það verður stutt stopp hjá mömmu því ég fer til Eyja afar seint á fimmtudagskvöldið eftir viku. Tíunda Þjóðhátíðin framundan og alveg pottþétt sú besta hingað til. Sjáumst í Dalnum :-)

Engin ummæli: