07 júlí 2009

The Winner Stands Alone

Ég var örugglega seinasta manneskjan í heiminum til þess að frétta af andláti Michaels Jackson. Ég var í Bretlandi að taka viðtal við prófessorinn daginn sem hann lést, var í engu netsambandi og kveikti ekki á sjónvarpi. Ég sá fréttirnar fyrst þegar ég kom aftur til Brussel á föstudagskvöldinu. Ég missti því af öllum viðbrögðunum sem fylgdu í kjölfar andlátsfréttarinnar og ég las bara þær helstu þegar ég kom heim enda ekki hægt að þvæla sér í gegnum óteljandi Jackson fréttir á einu kvöldi. Ég ákvað svo af hálfgerðri rælni að kveikja á sjónvarpinu áðan og horfði á hluta af minningarathöfninni um Jackson. Ég hef aldrei verið neinn sérstakur aðdáandi Michaels Jackson en það snerti mig að horfa á þessa athöfn - þó svo að sumir þættir hennar hefðu alveg mátt missa sín. Þetta var maður sem lifði í kastljósi fjölmiðla frá 5 ára aldri, upplifði aldrei eðlilega barnæsku og fékk aldrei að kynnast eðlilegu lífi. Hann gat ekki labbað um göturnar eða gert neitt af því sem öðrum þykir eðlilegt án þess að fjölmiðlar eltu hann á röndum. Hann var einn mesti listamaður sem hefur verið uppi en hann var líka fangi sinnar eigin frægðar.

Ég las nýlega nýjustu bók Paulo Coelho sem heitir The Winner Stands Alone. Þar fjallar Coelho um þá hlið á glamúrnum og frægðinni sem almenningur fær ekki að sjá. Hann fjallar um stórstjörnur sem eru fastar í heimi frægðar og eru háðar athyglinni og glamúrnum. Hann fjallar um þá sem ströggla við að komast inn í glamúrheiminn og hvernig þeim verður við að upplifa raunveruleika þess heims þegar markmiðin eru alveg að nást. Að upplifa að ekkert er eins og þeir bjuggust við að það yrði. Ég hef lesið misjafna dóma um þessa bók en mér fannst hún góð. Mjög góð. Það má yfirfæra hluta hennar yfir á Ísland ársins 2007 þegar allir vildu vera stærri og meiri en næsti maður. Eiga stærri jeppa, stærra hús, stærri einkaþotu. Margt í bókinni má einnig heimfæra á líf Michaels Jackson. Hún skilur eftir ýmsar hugleiðingar sem öllum er hollt að pæla í.

Í minningarathöfninni áðan sagði prestur nokkur setningu sem greip mig. Hann sagði til barna Michael Jackson eitthvað á þessa leið "There was nothing strange about your father. What was strange were the things he had to deal with". Við gleymum því all oft þegar fluttar eru fréttir af þeim ríku og frægu að þetta er fólk eins og ég og þú. Slúðurblöðin seljast í bílförmum og það virðist engu máli skipta hvort fréttirnar eru sannar eða ósannar. Það þyrstir alla í fréttir af þeim ríku og frægu og flestir eru fljótir að dæma - og þá virðist engu máli skipta hvort að fréttirnar eru sannar eða ósannar. Við horfðum Michael Jackson falla af stallinum nánast í beinni. Við sáum Britney Spears hrynja saman nánast í beinni. Með sama áframhaldi eiga dæmin eftir að verða fleiri og fleiri.

Ég hef það fyrir reglu að kaupa aldrei slúðurblöð og ég fylgist ekki með slúðurdálkunum á netmiðlunum. Mér er alveg sama hvort einhver stórstjarnan sé ómáluð, of mikið máluð, í ljótum fötum, með appelsínuhúð eða hafi skellt sér á djammið. Með því að kaupa þessi blöð og lesa svona fréttir styðjum við sorpbransann og sviptum fólk eins og Michael Jackson og Britney Spears réttinum á einkalífi. Réttinum til þess að vera til eins og ég og þú. Það var því heilmikið til í því sem presturinn sagði, Jackson var ekki endilega skrýtinn - en heimurinn sem hann þurfti að takast á við var - og er - mjög skrýtinn. Hann var einn dáðasti listamaður okkar tíma en þrátt fyrir það var hann einn. Og þar hitti Coelho naglann á höfuðið: The Winner Stands Alone.

Engin ummæli: