Is International Law a Good Predictor of State Behaviour?
Ég ætla að bregða aðeins út af þeim vana að blogga ekki um pólitík og fjalla aðeins um Icesave. Aðallega vegna þess að ég rakst á komment við einhverja frétt sem sagði að venjulega dragi maður menn fyrir dóm þegar maður væri ósáttur við þá og af hverju það væri ekki gert við Breta og Hollendinga. Í FPA í vetur var einn fyrirlestur um alþjóðalög undir sama titli og þessi færsla. Það var engin tilviljun að þetta er sett fram sem spurning. Groom svaraði spurningunni fyrir okkur líka. Alþjóðalög geta venjulega spáð fyrir um hegðun ríkja í viðkomandi málefnum. Ríki væru ekki aðilar að alþjóðalögum ef þau vildu ekki fara eftir þeim. EN á þessu eru undantekningar og flest ríki vilja semja um mál sem skipa mjög miklu máli fyrir ríkið sjálft. Að því leyti er dómstólaafstaða Íslendinga sérstök í Icesave málinu. Fæstar þjóðir væru til í að taka áhættuna á að láta dómstól ákvarða niðurstöðu málsins þegar hægt væri að hafa puttana meira í niðurstöðunni með því að semja sjálfir.
Svo er það hinn vinkillinn. Í milliríkjadeilum getur annað ríkið ALDREI stefnt hinu fyrir alþjóðadómstól (Öryggisráð SÞ er ekki dómstóll sem slíkur). Alþjóðadómstóllinn í Haag tekur t.d. aðeins mál til meðferðar sem að BÆÐI ríkin samþykkja að fari þangað. Þetta má sjá á heimasíðu dómstólsins. Þannig að ef að Bretar og Hollendingar segja nei við dómstólaleið í Icesave þá er bara ekkert sem Ísland getur gert við því. Ísland hafnaði dómstólaleið í Þorskastríðunum og það var ekkert sem Bretar gátu gert við því - nema bara reyna að semja.
Alþjóðalög urðu ekki til í því formi sem við þekkjum þau í dag fyrr en eftir seinni heimsstyrjöld. Það eru engin viðurlög þannig séð fyrir að brjóta þau, nema kannski stríð ef þau þykja þeim mun alvarlegri, og lagabókstafurinn er einfaldlega ekki það sterkur að hann skipti verulegu máli þegar alvarlegar milliríkjadeilur koma upp. Auðvitað hefði það verið mjög áhugavert ef Icesave hefði farið fyrir dóm - það hefði væntanlega verið fyrsta meiriháttar milliríkjadeilan sem gerði slíkt - en lagabókstafurinn er einfaldlega ekki aðalatriði í þessari deilu hversu furðulega sem það kann að hljóma í eyrum sumra. Þetta snýst um pólitík og litla Ísland er bara lítill fiskur í stórum sjó þegar kemur að alþjóðastjórnmálum. Það skiptir litlu máli þó svo við getum fært mjög góð rök fyrir þeirri afstöðu okkar að það sé ekki sanngjarnt að ESB taki enga ábyrgð á sínu gallaða regluverki í þessu máli. Þegar stóru kallarnir setja byssuna á hausinn á okkur og segja okkur að borga samt þá getum við ósköp lítið gert.
Á tímum kalda stríðsins var Ísland mjög mikilvægt á alþjóðavettvangi og íslensk stjórnvöld nýttu sér það grimmt í Þorskastríðunum. Við gátum hótað úrsögn úr NATO og því að senda herinn burt og það voru alvöru vopn í höndunum á okkur - og þau virkuðu. Eftir fall Sovétríkjanna og brotthvarf hersins þá höfum við einfaldlega ekki slík þungaviktarvopn í höndunum. Menn geta gagnrýnt samninganefndina fyrir að hafa ekki náð betri samningi og jújú kannski hefði það verið mögulegt, ég hef ekki kynnt mér það til hlítar. En menn verða að horfa á hlutina í samhengi og átta sig á hversu fá pólitísk vopn Ísland hafði undir höndum þegar sest var að samningaborðinu. Við hefðum getað sent breska sendiherrann úr landi - sem mér finnst að hefði átt að gera þó það næði aldrei lengra en að vera táknrænn gjörningur - og við hefðum getað hótað úrsögn úr NATO. Slík hótun hefur ekki sama gildi núna og á tímum kalda stríðsins en hefði kannski skilað einhverju. Á tímum Þorskastríðanna voru íslensk stjórnvöld með áróðursmaskínu í gangi í Bretlandi til þess að styðja málstað Íslendinga og sú vinna skilaði góðum árangri. Kannski hefði það borgað sig að gera slíkt hið sama í Icesave en það verður að viðurkennast að það hefði ekki verið auðvelt verk að útbúa góða herferð á þeim grunni.
Menn geta því rifið kjaft heima á Fróni og þóst vera stórir kallar en það leysir ekki neitt. Það er bæði ósanngjarnt og blóðugt að þurfa að taka ábyrgð á þessum skuldum - en við höfum ekkert val. Deilan sýnir glöggt hver staða Íslands er á alþjóðavettvangi í dag - við erum núll og nix eins og ég las einhverstaðar og við höfum einfaldlega ekki mikið efni á því að vera að rífa kjaft. Mér finnst það vera ábyrgðarhlutverk hjá Alþingi að samþykkja þennan samning því öll uppbygging er byggð á því að þetta fari í gegn. Þessi slagur er tapaður en þá er ekki málið að liggja eins og barn í frekjukasti og væla það heldur að standa upp aftur og vinna þann næsta. Ég vona að þannig verði Íslands minnst í framtíðinni - sem þjóðar sem var illa kýld niður árið 2008 en stóð alltaf upp aftur og hélt alltaf áfram.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli