Jæja, þá er komin vika síðan ég bloggaði síðast og ég er barasta að fara til Eyja á morgun!! Ótrúlegt en satt. Amma gamla fór á Þjóðhátíð í gær ásamt þeim heiðurshjónum Dísu og Pétri. Mér skilst á þeim að það sé allt að verða tilbúið og ég er farin að hlakka mikið til :) Núna er ég bara að slæpast í Reykjavíkinni, bíllinn minn er í þrifum og ég er svona nokkurn vegin búin að redda því sem ég þarf að redda. Á bara eftir að sækja bílinn og kíkja á hana Öggu Pöggu Pí niðrá Metz. Ætla svo í ljós með mömmu á eftir og hitta svo liðið sem verður samfó í Herjólfi á morgun. Það virðist ætla að sannast það sem ég er búin að vera að tönglast á lengi - það verður gott veður á Þjóðhátíð. Allavegana er spáin góð, aldrei að vita nema maður verði í sólbaði hjá Magga og Sísí eins og fyrir tveimur árum.
Annars er bara mest lítið að frétta af mér. Ég er komin með kvef og hálsbólgu - sem verður reddað með koníaki annað kvöld ef ég verð ekkert farin að skána þá. Það er allavegana ekki fræðilegur að ég leggist í flensu yfir sjálfa Þjóðhátíðina. Annars svíf ég bara á mínu bleika skýji og brosi hringinn. Lífið er eitthvað svo yndislegt núna :)
Þjóðhátíðarsagan kemur eftir helgi. Hafið það öll gott yfir helgina hvar sem þið verðið!
31 júlí 2003
24 júlí 2003
Jamm og jæja, ég ætlaði víst að vakna á skikkanlegum tíma í dag og vera svaka dugleg.. Ég vaknaði nú reyndar snemma. Það er eitthvað verið að vinna bak við blokkina mína og ég vaknaði við bölvuð læti kl. hálf 9.. Ekki ánægð eins og kannski gefur að skilja.. En ég sofnaði nú aftur og var alveg vöknuð um tíuleytið en nennti ekki fram úr og sofnaði aftur :p Svo var bara allt í einu komið hádegi og þá loksins drattaðist ég á lappir. Fljótlega eftir það var hringt í mig til að segja mér fréttir. Það er víst búið að kæra þrjá stráka hérna fyrir nauðgun. Það er nú búið að ræða fátt annað hérna í dag og ég verð að viðurkenna það af öllu því sem ég hef heyrt þá vil ég leyfa strákunum að njóta vafans þangað til annað sannast. Að sjálfsögðu veit maður ekkert hvað gerðist þarna og er í engri aðstöðu til að dæma nokkurn mann - en miðað við sem maður heyrði eftir þessa helgi sem nauðganirnar eiga að hafa átt sér stað þá gengur dæmið ekki alveg upp miðað við þessar kærur. Ég sendi bara allar mínar hlýju hugsanir til mæðra (já og pabba) strákanna sem hér eiga að máli. Stelpan á líka alla mína samúð því hvort sem hún er að fara með rétt eða rangt mál þá á hún bágt.
Jæja, bara 9 dagar í Eyjar - 6 dagar þangað til að ég fer suður og bara 1 dagur í að ég fái svaka skemmtilegan gest :) Það stefnir allt í svaka skemmtilega helgi þó svo ég verði að vinna á föstudagskvöldið. Yndið mitt hún amma ætlar að vinna fyrir mig á laugardaginn og sunnudaginn svo ég ætla að njóta þess í botn að kúra hjá gestinum mínum og hafa það huggulegt. (jæja, elskan mín, þá er búið að minnast á þig á blogginu. Þú verður bara að sætta þig við að ég ætla að fá að hafa þig bara fyrir mig til að byrja með ;)
Birt af Erla Perla kl. 1:22 f.h. 0 skilaboð
23 júlí 2003
Hellú!! Bara 10 dagar í Eyjar og vika þangað til að ég fer suður :) Ég hef tvo daga til að slæpast í Reykjavík áður en ég fer til Eyja - og ég ætla svooo að fara á Brennsluna og fá mér super nachos og e-ð annað svaðalega gott að borða. If you wanna join me just let me know ;) Svo verð ég eiginlega að fara að Pizza Hut því ég gleymi því alltaf þegar ég er í bænum. Ég sleppi frekar Stylnum núna því ég á eftir að búa í návígi við hann í vetur.
Annars er ég búin að vera svaka löt. Ég var bara að vinna og slæpast í gær og í dag var ég bara að vinna og slæpast. Þarf að fara að gera eitthvað í þessu því ég hef svo lítinn tíma í ágúst til að pakka niður og svoleiðis. Mamma ætlar að vísu að reyna að koma vestur og hún ætti að geta tekið eitthvað af dóti fyrir mig, svo kemur Kolla líka og ég get kannski doblað hana til að hjálpa mér eitthvað. Æi, þetta reddast allt. Ég vakna bara á skikkanlegum tíma á morgun og verð dugleg áður en ég fer að vinna. Svo á ég frí á fimmtudaginn.. Ég var svo að fatta að ég þarf að fara að spá hvað ég þarf að taka með mér til Eyja - og reyna að hafa það sem minnst af dóti því að ég þarf að taka dekkin með mér suður og koma þeim í geymslu á Nesdekk og amma keyrir með mér og hún verður pottþétt með fullt af töskum þannig að bíllinn verður vel fullur.
Hildur vinkona í Eyjum var að segja mér að Árni Johnsen verður í helgarleyfi á þjóðhátíð. Vandamálið er bara að hann á að vera kominn á svefnstað sinn kl. 22 en brekkusöngurinn byrjar ekki fyrr en kl. 23. Það er því spurning hvort það verði hægt að fá leyfið framlengt um svona 3 tíma - eða bara að flýta brekkusöngnum!! Ég vona bara að kallinum verði vel tekið ef hann fær að vera með brekkusönginn. Mér finnst umræðan um hann núna alveg ofboðslega leiðinleg og á lágu plani. Vissulega braut hann af sér en hann er líka búinn að gjalda fyrir það og þjóðhátíð er ekki vettvangurinn fyrir persónulegt skítkast og leiðindi. Hvern skaðar það eiginlega ef hann fær að koma þarna fram?? Nákvæmlega engann. Ég finn eiginlega til með fólkinu sem hefur það lítinn þroska að það nennir að eyða orkunni sinni og tímanum sínum í að vera með skítkast og leiðindi út af einhverju sem skiptir engu máli fyrir það. Það vantar alveg þá umræðu í samfélagið okkar að fangelsin eiga að vera endurhæfing og þegar menn hafa tekið út sína refsingu þá eiga þeir skilinn annan sjens. Kannski er ástæðan fyrir því að umræðan er svona sú að lítil sem engin endurhæfing fer fram í íslenskum fangelsum. Mér fannst það nokkuð sniðugt hjá föngunum á Litla Hrauni að senda Árna bréf og biðja hann um að sækja um flutning til að hann gæti með eigin augum séð aðbúnað fanga þar. Það kæmi mér margt meira á óvart en að hann væri ekki góður og ekki mikið lagt upp úr því að vinna að málefnum fanganna. Enda eru þeir oft að koma mun verri út heldur en þeir voru þegar þeir fóru inn og hver er hagur almennings af því?!?! Það sýnir kannski viðhorf Íslendinga til fangelsismála að víðast var hlegið að þessari beiðni fanganna. Það þykir bara gott mál að henda þeim sem eitthvað hafa gert af sér þangað inn og helst henda lyklinum. Fornaldarhugsunarháttur sem gerir engum gott! Björn Bjarnason dómsmálaráðherra ætti að fara að huga að þessum málum - það er bara verst að venjulega er hann fullur af bölvuðu kjaftæði en gerir ekki neitt. Maður ætti kannski að fara að óska eftir stefnum stjórnmálaflokkanna í fangelsis- og dómsmálum? Þeir hafa þó allavegana fjögur ár til að móta hana ef hún er ekki til...
Ég verð bara að deila með ykkur einu atviki sem ég lenti í í seinustu viku. Ég fór í Ríkið til að kaupa bjór (hann vex nefnilegast ekki í ísskápnum mínum ólíkt því sem sumir halda :P) og fékk svona líka góðan díl á bjórnum. Ég keypti tvær kippur og borgaði fyrir þær báðar 1300 krónur.. Ég veit ekki hvort að það var 2 fyrir 1 dagur í Ríkinu en ég efast einhvern vegin um það. Stelpugreyið sem var að afgreiða mig var bara svona utan við sig. Ég var ekki að trúa því að stelpan væri ekki að fatta þetta - að 1300 fyrir tvær kippur gæti bara ekki staðist.. En ég labbaði út sátt með mitt - ágætt að fá smá bónus eftir að hafa lagt talsvert til þessarar verslunar í gegnum árin!
Birt af Erla Perla kl. 1:29 f.h. 0 skilaboð
20 júlí 2003
Jæja, þá er helgarfríinu mínu að verða lokið. Ég var bara að slæpast á föstudaginn. Byrjaði daginn á að koma kössunum á pabba og fór síðan í apótekið til að kaupa aloe vera gel. Sólbruninn var allur skárri og ég er bara fín núna. My tomato days are over :) Ég og amma fórum á Ísafjörð til að kaupa þjóðhátíðarmiðana okkar og fengum þessa líka fínu bakpoka með. Þeir eru merktir Þjóðhátíð 2003 og innihalda picnic sett - alveg rosaflott - og nammi, gos og smokka. Við fórum svo í heimsókn til Dísu og Péturs og þegar ég kom heim þaðan fór ég að pakka niður í kassa. Í gær var ég svo að vinna í brúðkaupi hjá Halldóru Dagnýju frænku minni. Áður en ég mætti þangað fór ég til ömmu - sem afhenti mér smokkakassann úr bakpokanum sínum. Hún var þá búin að fatta að þetta væru smokkar... Hún tók pakkann nefnilegast upp því að hún hélt að þetta væri ópal eða eitthvað svoleiðis... Stundum er hún amma alveg snilld! Það var bara voða gaman í brúðkaupinu. Það gekk vel hjá okkur að þjóna en þegar kom að aðalréttinum kom í ljós að allt var í skralli og kokkurinn orðinn blindfullur.. Það tókst nú samt að redda öllu en óneitanlega varð vaktin hjá manni lengri og strembnari. Ég var mætt þarna kl 5 í gær og þurrkaði seinasta glasið kl 3 um nóttina. Ég er búin að vera alveg búin á því í dag, rétt náði að vakna til að sjá skemmtilega formúlukeppni en sofnaði um leið og hún var búin og hef bara verið í letikasti í allan dag. Amma kom hérna í hádeginu með konu sem ætlaði að fá að skoða sófann sem ég hef verið með í stofunni í vetur. Amma kenndi eitthvað svo í brjósti um konuna og gaf henni sófann sem hún tók med det samme þannig að ég er orðin sófalaus. Sem er nú reyndar allt í lagi, það er bara rétt rúmur mánuður þangað til að ég fer suður og strax komnir pappakassar út um allt.
Af því að ég er svona frekar tímanlega í því að pakka þá gef ég mér tíma til að fara í gegnum dótið mitt. Ég hef svo sem ekkert verið rosalega dugleg að henda - enda var ég það í fyrra þegar ég flutti hingað. En það er samt alveg ótrúlegt hvað manni tekst að sanka að sér miklu dóti. Ég er búin að fylla 10 kassa en samt er alveg fullt eftir. Sumt af þessu dóti er erfitt að skoða, margar sárar minningar sem tengjast því. Missárar eins og gengur. En þetta minnir mann á drauga fortíðarinnar sem maður hefur kannski ýtt soldið á undan sér að takast á við - og þá er bara að hella sér út í það verkefni!
Ég er oft spurð að því núna hvort ég hlakki ekki til þess að fara suður. Að mörgu leyti geri ég það. Það verður frábært að fara geta hitt allt liðið þar reglulega og ég hlakka mikið til þess að byrja í skólanum. En ég kvíði því líka að fara suður. Ég er orðin svo mikil smábæjarsál í mér að ég fer ekki einu sinni í Bónus á Ísafirði ef mér finnst vera of margir þar. Þá líður mér bara illa og ég vil bara komast út. Ég á líka eftir að sakna allra í skólanum. Þær eru nokkrar þar sem hafa gengið mér í móðurstað í vetur og stutt dyggilega við bakið á mér ef eitthvað hefur bjátað á. Svo er það náttúrulega hún amma. Ég hefði aldrei meikað að vera hérna í vetur ef ég hefði ekki haft hana hérna. Ég hef svo saknað þess í sumar að hafa ekki Ellu hérna. Við björguðum soldið vetrinum hjá hvor annarri. Óli reddaði mér líka alveg í vetur þegar mér leiddist hvað mest. Hann kann að stappa í mig stálinu. Annars er ég alveg sátt við að fara. Ég veit ekki hvort ég er alveg læknuð af Vestfjarðaveikinni en ég er alveg á því að ég hafði gott af því að vera hérna í vetur. Stundum var það erfitt, ég fer t.d. aldrei gömlu götuna mína, en það var líka oft gaman. Þetta síðastliðna ár verður allavegana gott innlegg í reynslubankann hjá mér, svo mikið er víst!
Jæja, ég er orðin alltof meir og ætla að hætta þessu röfli í bili. Það er stundum ágætt að fá útrás hérna á blogginu og gott fyrir vini og vandamenn mína líka. Þeir þurfa nefnilegast ekki hlusta á mig röfla á meðan ég fæ útrás hérna - og geta bara ,,slökkt" á mér ef þeir nenna ekki að lesa þetta!!
Birt af Erla Perla kl. 10:24 e.h. 0 skilaboð
18 júlí 2003
HANN DANÍEL FRÆNDI MINN ER 8 ÁRA Í DAG. TIL HAMINGJU MEÐ DAGINN ELSKU DÚLLAN MÍN!!
Héðan úr Víkinni er allt gott að frétta. Veðrið í dag og í gær er búið að vera alveg geggjað. Ég var á morgunvakt í gær og fór beint í sund úr vinnunni og lá þar í sólbaði í einn og hálfan tíma. Síðan fór ég í mat til ömmu, en þar borðaði ég með ömmu og þremur systrum hennar. Það var rosalega gaman, mikið rifjað upp og hlegið. Í dag var ég að vinna til hádegis. Þá fór ég til ömmu í hádegismat - sem var að sjálfsögðu borðaður úti á svölum í góða veðrinu. Síðan dreif ég Gunnu Soffu - sem er að vinna með mér á Skýlinu - í göngutúr upp á Bolafjall. Við keyrðum upp á heiði og löbbuðum síðan vegin upp á fjallið. Þetta er nú svo sem ekki erfið ganga en er dágóður spotti - 7 km fram og til baka. Þegar við lögðum af stað var 18 stiga hiti og lítil sem engin gjóla og heiðskýrt. Þegar við komum upp var skyggnið samt ekki nógu gott. Við sáum vel inn Jökulfirðina en Riturinn var hulinn skýjum og mikill skýjabakki fyrir djúpinu. Að sjálfsögðu fór ég í sund eftir göngutúrinn og svo aftur í vinnu. Í vinnunni fór ég að taka eftir því að ég var orðin rjóð í kinnum eftir daginn. Eftir því sem liðið hefur á kvöldið hefur roðinn aukist og aukist og er ég núna eins og epli í framan. Það verður fróðlegt að sjá hvernig andlitið á mér verður á morgun...
Ég er byrjuð að pakka niður dótinu mínu. Er komin með í 5 kassa sem ég ætla að sjá hvort að pabbi geti tekið með sér suður á morgun. Ég þarf svo að fara í að redda mér fleiri pappakössum svo ég geti haldið áfram að pakka niður. Það er ágætt að geta dundað sér við þetta, farið í gegnum dótið sitt og svona. í einum kassanum er eiginlega bara gamalt skóladót. Alveg ótrúlegt hvað ég hef geymt mikið af þessu. Þetta er samt aðallega dót úr 4. og 6. bekk af einhverjum ástæðum. Síðan er líka dót úr 1. bekk og 6 ára bekk. Skriftarbækur og svoleiðis. Ég tími eiginlega ekki að henda þessu fyrst ég er nú búin að geyma þetta svona lengi. En ég henti samt úr kassanum - og það gerði ég víst líka seinast þegar ég fór í gegnum hann. Í einn kassann fór svo eiginlega bara töskur. Alveg merkilegt hvað ég á mikið af alls konar handtöskum :P Einn kassinn inniheldur bara kertastjaka. Þegar ég var að koma mér fyrir hérna í fyrra þá fór megnið af kertastjökunum mínum inn í skáp, samt eru kertastjakar alls staðar þar sem hægt er að koma því við...
Annars eru þetta ekkert svo margir stórir hlutir sem ég þarf að senda suður. Rúmið mitt, náttborðin, stofuborðið, hillusamstæðan, kommóðan.. Ég ætla að selja skrifborðið mitt - ef einhverjum vantar skrifborð!! Alveg í fínu lagi og lítið notað :p Svo er reyndar spurning með eina kommóðu og skattholið hennar mömmu.. Veit ekki alveg hvað ég geri við það.. Kannski Röggi geti notað eitthvað af þessu, hann er náttúrulega að byrja að búa.
Núna er ég komin í helgarfrí. Það ræðst á morgun hvort ég fæ heimsókn eða ekki - og þar með hvað ég verð dugleg að pakka niður og svoleiðis yfir helgina. Ég ætla samt að drífa mig inn á Ísafjörð á morgun og kaupa þjóðhátíðarmiðann - já og linsur. Svo var ég að spá hvort ég ætti að fara að þrífa bílinn minn, en æi... Einhvern vegin finn ég alltaf eitthvað annað að gera þegar kemur að því! Ég er að spá í að tékka á því á Ísafirði hvað það kostar að láta bóna bílinn. Ég verð eiginlega að láta bóna hann áður en ég fer að keyra suður. Kannski ég þrífi hann að innan sjálf. En já, varðandi heimsóknina - af því að Dagný systir er svo forvitin - þá skal ég segja þér það Dagný mín að ég kynntist strák um daginn sem ætlar kannski að kíkja á mig. En maður á að fá að halda soldlu fyrir sig þegar hlutirnir eru svona nýjir. Ef hlutirnir þróast í rétta átt færðu að vita meira ;)
Ég sá í gestabókinni færslu frá fyrrverandi nemanda mínum. Viðkomandi gat nú ekki skrifað undir nafni - en ég ætla bara að vona að ég hafi ekki kennt honum stafsetningu :p Samt tek ég viljann fyrir verkið og mér þótti vænt um að sjá þessa færslu. Nú mega þessir gemlingar fara að skoða bloggið mitt eins og þeir vilja - fyrst ég er ekki að fara að kenna þeim. Og endilega kommentera og skrifa í gestabókina krakkar!! Þið verðið eiginlega að fara að blogga líka svo ég geti fylgst almennilega með ykkur ;)
En jæja, ég ætla að fara að henda mér í háttinn. Ég vona bara að ég verði sæmilega útlítandi á morgun - að sólbruninn hafi ekki farið alveg með mig... En ég meina, hverjum dettur í hug að bera á sig sólvörn í góðu veðri á Íslandi....
Birt af Erla Perla kl. 1:47 f.h. 0 skilaboð
13 júlí 2003
Well, ég er nú svo sem ekki búin að gera neitt merkilegt yfir helgina. Var bara að vinna og gera ekki neitt. EN - mamma fór og skoðaði íbúð fyrir mig og Jóa í gær. Jói átti að fara með en þurfti svo að vinna og komst ekki. Mömmu leist svona líka vel á íbúðina að hún tók henni fyrir okkar hönd og ég er því búin að fá íbúð!! Og það sem meira er - Kennó er hinum megin við götuna!! Ég er því búin að vera rosalega lukkuleg því það er bara allt að ganga upp hjá mér núna - og hjá okkur. Röggi bróðir komst að í Búseta og er að fara að flytja að heiman. Svenna frænka er svo að koma vestur á þriðjudaginn og jafnvel fæ ég gest á næstu helgi. En það á allt eftir að skýrast.
Birt af Erla Perla kl. 5:09 e.h. 0 skilaboð
11 júlí 2003
Jæja, bara 21 dagur í Þjóðhátíð!!! Ég er farin að hlakka ekkert smá mikið til!! Hildur er farin að senda mér mail frá Eyjum um undirbúningin. Hvað sé búið að setja upp og svona. Það kemur manni alveg í gírinn að fá svona pósta :) Aldrei þessu vant er svo hægt að kaupa miða í forsölu út um allt land þannig að ég þarf bara að skreppa á Ísafjörð til að redda mér miða. Algjör lúxus. Síðan ætla ég að fá elskurnar mínar útí Eyjum til að fara í Ríkið fyrir mig eins og vanalega. Allt gert til að spara plássið í bílnum.
Annars er bara allt gott að frétta héðan úr Víkinni. Mamma og Rakel voru hjá mér á síðustu helgi. Það var voða gott að fá mömmu aðeins í heimsókn. Hún hefur ekki komið hingað síðan amma hélt upp á afmælið sitt á milli jóla og nýárs. Ég, mamma, Kolla (systir mömmu) og Rakel fórum saman á ball niðrí Félagsheimili á laugardagskvöldið. Rakel var ekki alveg að fíla sig þarna og fór fljótlega heim. Við hinar djömmuðum hins vegar þangað til að ballið var búið þrátt fyrir að þetta hefði ekki verið týpískt bolvískt ball. Það var sjóstangveiðimót hérna á síðustu helgi og það var aðallega fólk sem hafði verið að keppa á því sem var á balli. Við þekktum nánast engan. En þetta var voða gaman allt saman.
Í fyrradag fór ég í sjötugsafmæli hjá Binnu Páls - mömmu Vagnssystkinana. Það var opið hús niðrí Félagsheimili og krakkarnir hennar voru búnir að skipuleggja svaka dagskrá. Það var mikið sungið og hlegið en hápunkturinn var þegar leynigesturinn tróð upp. Krakkarnir gáfu mömmu sinni Pál Rósinkrans í afmælisgjöf. Hann kom ásamt píanóleikara og þeir spiluðu í rúman hálftíma. Alveg magnaðir. Sérstaklega þegar þeir spiluðu When I Think of Angels.
Kolla er búin að vera hérna með púkana sína í tæpar 2 vikur. Sigrún og Hjölli ætla svo að kíkja í heimsókn seinna í mánuðinum og Sofie - sem var að vinna með mér á Kaffi Reykjavík - er komin til landsins ásam Jason, kærastanum sínum, og þau ætla að kíkja á mig líka. Væntanlega í næstu viku. Það verður svaka gaman að hitta hana, ég hef ekki séð hana í eitt og hálft ár held ég bara. Það verður því gestkvæmt fram að Þjóðhátíð - þannig að tíminn ætti að líða eitthvað og mér ætti ekki að leiðast. Eftir Þjóðhátíð verður bara unnið og pakkað niður þannig að sumarið verður búið áður en maður veit af!
Jæja, þarf að fara að drífa mig, á að mæta í vinnu bráðum.
Birt af Erla Perla kl. 3:20 e.h. 0 skilaboð
10 júlí 2003
TIL HAMINGJU MEÐ AFMÆLIÐ PÉTUR! VONANDI HAFÐIRÐU ÞAÐ GOTT Í DAG :)
Birt af Erla Perla kl. 1:32 f.h. 0 skilaboð
09 júlí 2003
LOVE is your chinese symbol!
What Chinese Symbol Are You?
brought to you by Quizilla
Birt af Erla Perla kl. 12:56 f.h. 0 skilaboð
05 júlí 2003
Ji, ég er svo stolt af mér. Ég var alveg að klúðra síðunni minni í seinustu viku og var orðin nett pirruð, kunni ekkert á þetta. Svo er ég bara búin að laga þetta alveg sjálf!! Ég spurði reyndar Baldur Smára að því hvernig ég fengi íslensku stafina inn aftur - og það reyndist vera afar auðvelt verk... Að sjálfsögðu... En linkarnir eru allir komnir inn og gestabókin og ég gat sett inn teljara. Ég skildi reyndar ekkert í teljari.is - ekki nógu imbaproof síða! Þannig að ég náði bara í teljara á bravenet. Ég þarf bara að vita hvernig ég skíri gestabókarlinkinn minn "Gestabók".. Spyr Hjördísi eða Þórdísi að því þegar ég hitti þær næst á msn. Annars verð ég að viðurkenna að ég man ekki slóðina á síðunni hennar Öggu. Set hann inn seinna þegar ég er búin að spjalla við Öggu Pöggu Pí.
Annars er það helst að frétta að ég er að vinna og svo vinn ég stundum meira. Á fríhelgi núna. Kolla er hérna með gríslingana og verður í hálfan mánuð. Svo eru mamma og Rakel hérna yfir helgina. Þannig að það er meira en nóg að gera og enginn friður. Ég er orðin ansi þreytt á þessu vinnu stússi, hefði greinilega þurft að taka mér nokkurra daga frí eftir skólaslit. En ég hvíli mig bara í haust.
Bara 28 dagar í Þjóðhátíð!! Ég er búin að fá miðana í dallinn senda, þá er bara að fara í Ríkið og kaupa miðann í dalinn. Ég heyrði Þjóðhátíðarlagið í dag. Ég veit eiginlega ekki alveg hvernig mér líst á það. Það á eflaust eftir að venjast vel en mér finnst það einhvern vegin ekki nógu ,,þjóðhátíðarlegt". En maður verður nú að vera jákvæður og gefa því sjens.
Sigrún föðursystir og maðurinn hennar ætla að koma hingað vestur seinnipartinn í júlí. Það verður gaman að fá þau í heimsókn. Annars hugsa ég að ég fái ekki fleiri heimsóknir hingað vestur. Ég er alveg búin að gefa upp vonina á þessum vinum mínum. Mér finnst það alveg stórmerkilegt hvað þeim finnst langt vestur en stutt suður fyrir mig. En ég ætla ekki að tjá mig frekar um það hér - ég gæti móðgað einhvern.
Það er búið að bjóða mér og Jóa góða íbúð upp í Breiðholti. Hann og mamma fara vonandi að skoða hana á sunnudaginn. Ef okkur líst vel á tökum við hana náttúrulega. Ég vona eiginlega að það gangi upp, langar að fara að hafa það alveg öruggt hvar ég kem til með að búa næsta vetur.
Jæja, er búin með einn bjór og þreytan farin að segja til sín. Er að spá í að fara að koma mér í háttinn og njóta þess að sofa út í fyrrramálið!
Birt af Erla Perla kl. 12:27 f.h. 0 skilaboð