20 júlí 2003

Jæja, þá er helgarfríinu mínu að verða lokið. Ég var bara að slæpast á föstudaginn. Byrjaði daginn á að koma kössunum á pabba og fór síðan í apótekið til að kaupa aloe vera gel. Sólbruninn var allur skárri og ég er bara fín núna. My tomato days are over :) Ég og amma fórum á Ísafjörð til að kaupa þjóðhátíðarmiðana okkar og fengum þessa líka fínu bakpoka með. Þeir eru merktir Þjóðhátíð 2003 og innihalda picnic sett - alveg rosaflott - og nammi, gos og smokka. Við fórum svo í heimsókn til Dísu og Péturs og þegar ég kom heim þaðan fór ég að pakka niður í kassa. Í gær var ég svo að vinna í brúðkaupi hjá Halldóru Dagnýju frænku minni. Áður en ég mætti þangað fór ég til ömmu - sem afhenti mér smokkakassann úr bakpokanum sínum. Hún var þá búin að fatta að þetta væru smokkar... Hún tók pakkann nefnilegast upp því að hún hélt að þetta væri ópal eða eitthvað svoleiðis... Stundum er hún amma alveg snilld! Það var bara voða gaman í brúðkaupinu. Það gekk vel hjá okkur að þjóna en þegar kom að aðalréttinum kom í ljós að allt var í skralli og kokkurinn orðinn blindfullur.. Það tókst nú samt að redda öllu en óneitanlega varð vaktin hjá manni lengri og strembnari. Ég var mætt þarna kl 5 í gær og þurrkaði seinasta glasið kl 3 um nóttina. Ég er búin að vera alveg búin á því í dag, rétt náði að vakna til að sjá skemmtilega formúlukeppni en sofnaði um leið og hún var búin og hef bara verið í letikasti í allan dag. Amma kom hérna í hádeginu með konu sem ætlaði að fá að skoða sófann sem ég hef verið með í stofunni í vetur. Amma kenndi eitthvað svo í brjósti um konuna og gaf henni sófann sem hún tók med det samme þannig að ég er orðin sófalaus. Sem er nú reyndar allt í lagi, það er bara rétt rúmur mánuður þangað til að ég fer suður og strax komnir pappakassar út um allt.

Af því að ég er svona frekar tímanlega í því að pakka þá gef ég mér tíma til að fara í gegnum dótið mitt. Ég hef svo sem ekkert verið rosalega dugleg að henda - enda var ég það í fyrra þegar ég flutti hingað. En það er samt alveg ótrúlegt hvað manni tekst að sanka að sér miklu dóti. Ég er búin að fylla 10 kassa en samt er alveg fullt eftir. Sumt af þessu dóti er erfitt að skoða, margar sárar minningar sem tengjast því. Missárar eins og gengur. En þetta minnir mann á drauga fortíðarinnar sem maður hefur kannski ýtt soldið á undan sér að takast á við - og þá er bara að hella sér út í það verkefni!

Ég er oft spurð að því núna hvort ég hlakki ekki til þess að fara suður. Að mörgu leyti geri ég það. Það verður frábært að fara geta hitt allt liðið þar reglulega og ég hlakka mikið til þess að byrja í skólanum. En ég kvíði því líka að fara suður. Ég er orðin svo mikil smábæjarsál í mér að ég fer ekki einu sinni í Bónus á Ísafirði ef mér finnst vera of margir þar. Þá líður mér bara illa og ég vil bara komast út. Ég á líka eftir að sakna allra í skólanum. Þær eru nokkrar þar sem hafa gengið mér í móðurstað í vetur og stutt dyggilega við bakið á mér ef eitthvað hefur bjátað á. Svo er það náttúrulega hún amma. Ég hefði aldrei meikað að vera hérna í vetur ef ég hefði ekki haft hana hérna. Ég hef svo saknað þess í sumar að hafa ekki Ellu hérna. Við björguðum soldið vetrinum hjá hvor annarri. Óli reddaði mér líka alveg í vetur þegar mér leiddist hvað mest. Hann kann að stappa í mig stálinu. Annars er ég alveg sátt við að fara. Ég veit ekki hvort ég er alveg læknuð af Vestfjarðaveikinni en ég er alveg á því að ég hafði gott af því að vera hérna í vetur. Stundum var það erfitt, ég fer t.d. aldrei gömlu götuna mína, en það var líka oft gaman. Þetta síðastliðna ár verður allavegana gott innlegg í reynslubankann hjá mér, svo mikið er víst!

Jæja, ég er orðin alltof meir og ætla að hætta þessu röfli í bili. Það er stundum ágætt að fá útrás hérna á blogginu og gott fyrir vini og vandamenn mína líka. Þeir þurfa nefnilegast ekki hlusta á mig röfla á meðan ég fæ útrás hérna - og geta bara ,,slökkt" á mér ef þeir nenna ekki að lesa þetta!!

Engin ummæli: