18 júlí 2003

HANN DANÍEL FRÆNDI MINN ER 8 ÁRA Í DAG. TIL HAMINGJU MEÐ DAGINN ELSKU DÚLLAN MÍN!!

Héðan úr Víkinni er allt gott að frétta. Veðrið í dag og í gær er búið að vera alveg geggjað. Ég var á morgunvakt í gær og fór beint í sund úr vinnunni og lá þar í sólbaði í einn og hálfan tíma. Síðan fór ég í mat til ömmu, en þar borðaði ég með ömmu og þremur systrum hennar. Það var rosalega gaman, mikið rifjað upp og hlegið. Í dag var ég að vinna til hádegis. Þá fór ég til ömmu í hádegismat - sem var að sjálfsögðu borðaður úti á svölum í góða veðrinu. Síðan dreif ég Gunnu Soffu - sem er að vinna með mér á Skýlinu - í göngutúr upp á Bolafjall. Við keyrðum upp á heiði og löbbuðum síðan vegin upp á fjallið. Þetta er nú svo sem ekki erfið ganga en er dágóður spotti - 7 km fram og til baka. Þegar við lögðum af stað var 18 stiga hiti og lítil sem engin gjóla og heiðskýrt. Þegar við komum upp var skyggnið samt ekki nógu gott. Við sáum vel inn Jökulfirðina en Riturinn var hulinn skýjum og mikill skýjabakki fyrir djúpinu. Að sjálfsögðu fór ég í sund eftir göngutúrinn og svo aftur í vinnu. Í vinnunni fór ég að taka eftir því að ég var orðin rjóð í kinnum eftir daginn. Eftir því sem liðið hefur á kvöldið hefur roðinn aukist og aukist og er ég núna eins og epli í framan. Það verður fróðlegt að sjá hvernig andlitið á mér verður á morgun...

Ég er byrjuð að pakka niður dótinu mínu. Er komin með í 5 kassa sem ég ætla að sjá hvort að pabbi geti tekið með sér suður á morgun. Ég þarf svo að fara í að redda mér fleiri pappakössum svo ég geti haldið áfram að pakka niður. Það er ágætt að geta dundað sér við þetta, farið í gegnum dótið sitt og svona. í einum kassanum er eiginlega bara gamalt skóladót. Alveg ótrúlegt hvað ég hef geymt mikið af þessu. Þetta er samt aðallega dót úr 4. og 6. bekk af einhverjum ástæðum. Síðan er líka dót úr 1. bekk og 6 ára bekk. Skriftarbækur og svoleiðis. Ég tími eiginlega ekki að henda þessu fyrst ég er nú búin að geyma þetta svona lengi. En ég henti samt úr kassanum - og það gerði ég víst líka seinast þegar ég fór í gegnum hann. Í einn kassann fór svo eiginlega bara töskur. Alveg merkilegt hvað ég á mikið af alls konar handtöskum :P Einn kassinn inniheldur bara kertastjaka. Þegar ég var að koma mér fyrir hérna í fyrra þá fór megnið af kertastjökunum mínum inn í skáp, samt eru kertastjakar alls staðar þar sem hægt er að koma því við...

Annars eru þetta ekkert svo margir stórir hlutir sem ég þarf að senda suður. Rúmið mitt, náttborðin, stofuborðið, hillusamstæðan, kommóðan.. Ég ætla að selja skrifborðið mitt - ef einhverjum vantar skrifborð!! Alveg í fínu lagi og lítið notað :p Svo er reyndar spurning með eina kommóðu og skattholið hennar mömmu.. Veit ekki alveg hvað ég geri við það.. Kannski Röggi geti notað eitthvað af þessu, hann er náttúrulega að byrja að búa.

Núna er ég komin í helgarfrí. Það ræðst á morgun hvort ég fæ heimsókn eða ekki - og þar með hvað ég verð dugleg að pakka niður og svoleiðis yfir helgina. Ég ætla samt að drífa mig inn á Ísafjörð á morgun og kaupa þjóðhátíðarmiðann - já og linsur. Svo var ég að spá hvort ég ætti að fara að þrífa bílinn minn, en æi... Einhvern vegin finn ég alltaf eitthvað annað að gera þegar kemur að því! Ég er að spá í að tékka á því á Ísafirði hvað það kostar að láta bóna bílinn. Ég verð eiginlega að láta bóna hann áður en ég fer að keyra suður. Kannski ég þrífi hann að innan sjálf. En já, varðandi heimsóknina - af því að Dagný systir er svo forvitin - þá skal ég segja þér það Dagný mín að ég kynntist strák um daginn sem ætlar kannski að kíkja á mig. En maður á að fá að halda soldlu fyrir sig þegar hlutirnir eru svona nýjir. Ef hlutirnir þróast í rétta átt færðu að vita meira ;)

Ég sá í gestabókinni færslu frá fyrrverandi nemanda mínum. Viðkomandi gat nú ekki skrifað undir nafni - en ég ætla bara að vona að ég hafi ekki kennt honum stafsetningu :p Samt tek ég viljann fyrir verkið og mér þótti vænt um að sjá þessa færslu. Nú mega þessir gemlingar fara að skoða bloggið mitt eins og þeir vilja - fyrst ég er ekki að fara að kenna þeim. Og endilega kommentera og skrifa í gestabókina krakkar!! Þið verðið eiginlega að fara að blogga líka svo ég geti fylgst almennilega með ykkur ;)

En jæja, ég ætla að fara að henda mér í háttinn. Ég vona bara að ég verði sæmilega útlítandi á morgun - að sólbruninn hafi ekki farið alveg með mig... En ég meina, hverjum dettur í hug að bera á sig sólvörn í góðu veðri á Íslandi....

Engin ummæli: