23 júlí 2003

Hellú!! Bara 10 dagar í Eyjar og vika þangað til að ég fer suður :) Ég hef tvo daga til að slæpast í Reykjavík áður en ég fer til Eyja - og ég ætla svooo að fara á Brennsluna og fá mér super nachos og e-ð annað svaðalega gott að borða. If you wanna join me just let me know ;) Svo verð ég eiginlega að fara að Pizza Hut því ég gleymi því alltaf þegar ég er í bænum. Ég sleppi frekar Stylnum núna því ég á eftir að búa í návígi við hann í vetur.

Annars er ég búin að vera svaka löt. Ég var bara að vinna og slæpast í gær og í dag var ég bara að vinna og slæpast. Þarf að fara að gera eitthvað í þessu því ég hef svo lítinn tíma í ágúst til að pakka niður og svoleiðis. Mamma ætlar að vísu að reyna að koma vestur og hún ætti að geta tekið eitthvað af dóti fyrir mig, svo kemur Kolla líka og ég get kannski doblað hana til að hjálpa mér eitthvað. Æi, þetta reddast allt. Ég vakna bara á skikkanlegum tíma á morgun og verð dugleg áður en ég fer að vinna. Svo á ég frí á fimmtudaginn.. Ég var svo að fatta að ég þarf að fara að spá hvað ég þarf að taka með mér til Eyja - og reyna að hafa það sem minnst af dóti því að ég þarf að taka dekkin með mér suður og koma þeim í geymslu á Nesdekk og amma keyrir með mér og hún verður pottþétt með fullt af töskum þannig að bíllinn verður vel fullur.

Hildur vinkona í Eyjum var að segja mér að Árni Johnsen verður í helgarleyfi á þjóðhátíð. Vandamálið er bara að hann á að vera kominn á svefnstað sinn kl. 22 en brekkusöngurinn byrjar ekki fyrr en kl. 23. Það er því spurning hvort það verði hægt að fá leyfið framlengt um svona 3 tíma - eða bara að flýta brekkusöngnum!! Ég vona bara að kallinum verði vel tekið ef hann fær að vera með brekkusönginn. Mér finnst umræðan um hann núna alveg ofboðslega leiðinleg og á lágu plani. Vissulega braut hann af sér en hann er líka búinn að gjalda fyrir það og þjóðhátíð er ekki vettvangurinn fyrir persónulegt skítkast og leiðindi. Hvern skaðar það eiginlega ef hann fær að koma þarna fram?? Nákvæmlega engann. Ég finn eiginlega til með fólkinu sem hefur það lítinn þroska að það nennir að eyða orkunni sinni og tímanum sínum í að vera með skítkast og leiðindi út af einhverju sem skiptir engu máli fyrir það. Það vantar alveg þá umræðu í samfélagið okkar að fangelsin eiga að vera endurhæfing og þegar menn hafa tekið út sína refsingu þá eiga þeir skilinn annan sjens. Kannski er ástæðan fyrir því að umræðan er svona sú að lítil sem engin endurhæfing fer fram í íslenskum fangelsum. Mér fannst það nokkuð sniðugt hjá föngunum á Litla Hrauni að senda Árna bréf og biðja hann um að sækja um flutning til að hann gæti með eigin augum séð aðbúnað fanga þar. Það kæmi mér margt meira á óvart en að hann væri ekki góður og ekki mikið lagt upp úr því að vinna að málefnum fanganna. Enda eru þeir oft að koma mun verri út heldur en þeir voru þegar þeir fóru inn og hver er hagur almennings af því?!?! Það sýnir kannski viðhorf Íslendinga til fangelsismála að víðast var hlegið að þessari beiðni fanganna. Það þykir bara gott mál að henda þeim sem eitthvað hafa gert af sér þangað inn og helst henda lyklinum. Fornaldarhugsunarháttur sem gerir engum gott! Björn Bjarnason dómsmálaráðherra ætti að fara að huga að þessum málum - það er bara verst að venjulega er hann fullur af bölvuðu kjaftæði en gerir ekki neitt. Maður ætti kannski að fara að óska eftir stefnum stjórnmálaflokkanna í fangelsis- og dómsmálum? Þeir hafa þó allavegana fjögur ár til að móta hana ef hún er ekki til...

Ég verð bara að deila með ykkur einu atviki sem ég lenti í í seinustu viku. Ég fór í Ríkið til að kaupa bjór (hann vex nefnilegast ekki í ísskápnum mínum ólíkt því sem sumir halda :P) og fékk svona líka góðan díl á bjórnum. Ég keypti tvær kippur og borgaði fyrir þær báðar 1300 krónur.. Ég veit ekki hvort að það var 2 fyrir 1 dagur í Ríkinu en ég efast einhvern vegin um það. Stelpugreyið sem var að afgreiða mig var bara svona utan við sig. Ég var ekki að trúa því að stelpan væri ekki að fatta þetta - að 1300 fyrir tvær kippur gæti bara ekki staðist.. En ég labbaði út sátt með mitt - ágætt að fá smá bónus eftir að hafa lagt talsvert til þessarar verslunar í gegnum árin!



Engin ummæli: