Jæja, bara 21 dagur í Þjóðhátíð!!! Ég er farin að hlakka ekkert smá mikið til!! Hildur er farin að senda mér mail frá Eyjum um undirbúningin. Hvað sé búið að setja upp og svona. Það kemur manni alveg í gírinn að fá svona pósta :) Aldrei þessu vant er svo hægt að kaupa miða í forsölu út um allt land þannig að ég þarf bara að skreppa á Ísafjörð til að redda mér miða. Algjör lúxus. Síðan ætla ég að fá elskurnar mínar útí Eyjum til að fara í Ríkið fyrir mig eins og vanalega. Allt gert til að spara plássið í bílnum.
Annars er bara allt gott að frétta héðan úr Víkinni. Mamma og Rakel voru hjá mér á síðustu helgi. Það var voða gott að fá mömmu aðeins í heimsókn. Hún hefur ekki komið hingað síðan amma hélt upp á afmælið sitt á milli jóla og nýárs. Ég, mamma, Kolla (systir mömmu) og Rakel fórum saman á ball niðrí Félagsheimili á laugardagskvöldið. Rakel var ekki alveg að fíla sig þarna og fór fljótlega heim. Við hinar djömmuðum hins vegar þangað til að ballið var búið þrátt fyrir að þetta hefði ekki verið týpískt bolvískt ball. Það var sjóstangveiðimót hérna á síðustu helgi og það var aðallega fólk sem hafði verið að keppa á því sem var á balli. Við þekktum nánast engan. En þetta var voða gaman allt saman.
Í fyrradag fór ég í sjötugsafmæli hjá Binnu Páls - mömmu Vagnssystkinana. Það var opið hús niðrí Félagsheimili og krakkarnir hennar voru búnir að skipuleggja svaka dagskrá. Það var mikið sungið og hlegið en hápunkturinn var þegar leynigesturinn tróð upp. Krakkarnir gáfu mömmu sinni Pál Rósinkrans í afmælisgjöf. Hann kom ásamt píanóleikara og þeir spiluðu í rúman hálftíma. Alveg magnaðir. Sérstaklega þegar þeir spiluðu When I Think of Angels.
Kolla er búin að vera hérna með púkana sína í tæpar 2 vikur. Sigrún og Hjölli ætla svo að kíkja í heimsókn seinna í mánuðinum og Sofie - sem var að vinna með mér á Kaffi Reykjavík - er komin til landsins ásam Jason, kærastanum sínum, og þau ætla að kíkja á mig líka. Væntanlega í næstu viku. Það verður svaka gaman að hitta hana, ég hef ekki séð hana í eitt og hálft ár held ég bara. Það verður því gestkvæmt fram að Þjóðhátíð - þannig að tíminn ætti að líða eitthvað og mér ætti ekki að leiðast. Eftir Þjóðhátíð verður bara unnið og pakkað niður þannig að sumarið verður búið áður en maður veit af!
Jæja, þarf að fara að drífa mig, á að mæta í vinnu bráðum.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli