10 september 2003

Alveg finnst mér makalaus þessi umræða um þingmennina og löghlýðni þeirra sem virðist vera að tröllríða öllu núna. Þau lögbröt sem þeir virðast hvað helst hafa framið eru - svona eins og hjá öðrum í landinu - eru umferðarlagabrot. Mér finnst það alveg gjörsamlega út úr kú að ætlast til þess að þingmenn tilkynni um það í hvert einasta skipti sem þeir eru sektaðir fyrir of hraðann akstur. Ölvunarakstur er kannski annað og alvarlegra mál - en samt einkamál hvers og eins þingmanns. Eða er það ekki? Mér finnst það ekki hægt að ætlast til þess að þeir haldi lögin eitthvað súper betur en allir aðrir einfaldlega af því að þeir setja þau. Það er nefnilegast þannig að þingmennirnir okkar eru mennskir - en ekki einhver ofurmannleg fyrirbæri sem eru fullkomin í alla staði. Fyrir utan það þá eru þeir miklu meira á ferðinni um landið heldur en hinn almenni borgari og þar af leiðandi ættu að vera meiri líkur á því að löggan stoppi þá.

Reyndar finnst mér ekki eðlilegt að sitjandi þingmenn séu í fangelsi eins og raunin er núna og finnst alveg stórmerkilegt að maður með yfirvofandi fangelsisvist á bakinu sé kosinn inn á þing. En að ætla að þyngja refsinguna hans af því að hann ók 15 km yfir hámarkshraða fyrir einhverjum árum er alveg fáránlegt. Það fær mann eiginlega til að hugsa hvort að Ríkissaksóknara sé eitthvað óvenju illa við þennan tiltekna mann. Að hann skuli einblína svona rosalega á þvílíkan tittlingaskít er alveg með ólíkindum.

Í fréttum Stöðvar 2 var fjallað um þetta mál og m.a. sagt frá því að öllum þingmönnum hefði verið sendar þrjár spurningar og þar á meðal hvort þeir hefðu e-n tíman gerst brotlegir við lögin minnir mig. Stærsti hluti þingmanna svaraði ekki þessum spurningum en þeir sem svöruðu höfðu keyrt of hratt. Þeir sem ekki svöruðu voru taldir upp eins og þeir væru þar með settir í skammarkrókinn. Mér fannst þetta hálf tilgangslaust og hallærislegt hjá fréttastofunni. Verð bara að viðurkenna það. Það hefur tíðkast í stjórnmálum á Íslandi að leyfa fólki að hafa sitt einkalíf fyrir sig og ég sé ekki alveg pointið með að fara að breyta því.
Það kom þarna fram að pabbi hefði ekki svarað þessum spurningum. Mér finnst það ekkert skrýtið að kallinn hafi ekki viljað svara þessu. Hann kæmi út eins og stórglæpon með allar sínar hraðasektir. Hann var meira að segja áskrifandi hjá Löggunni á Ísafirði á tímabili :p

Engin ummæli: