Það getur nú stundum verið gaman að vera kennari....
Úr svörum og ritgerðum nemenda
Aðaleinkenni hesta er að vera sífellt á kappreiðum.
Ígulker teljast til skólpdýra. Þau ganga á prjónum.
Mörg dýr eru með heitt blóð, en í öðrum er það frosið.
Eva fæddist strax á eftir Adam. Því er sagt að Adam hafi ekki verið lengi í
París.
Á tímum landafundanna miklu urðu miklar framfarir í kortagerð enda þurfti
góð kort svo að löndin lentu ekki hvert ofan á öðru.
Grasekkjumaður er ekkill sem þjáist af heymæði.
Hæsta fjall á Íslandi ber nafnið Hvannadalshrúgur.
Í ástandinu lögðust íslenskar konur mjög lágt enþó ekki með öllum.
Helstu hlunnindi í sveitum eru sturta og sjónvarp.
Úr svari á prófi í kristnum fræðum í 7. bekk: "Á hvítasunnudag sendi Jesú
lærisveinum sínum heilan anda."
Úr bókmenntaprófi í 6. bekk: "Hvað merkir nafnorðið sammæðra?" Eitt svarið
var á svofelldan hátt: "Að nokkrar mæður eigi sama barnið."
Úr líffræðiprófi í 6. bekk: "Hvers vegna eru reykingamenn yfirleitt hand- og
fótkaldari en það fólk sem ekki reykir?" Einn svaraði: "Reykingamenn eru með
kalt blóð." Annar svaraði: "Reykingamenn þurfa svo oft að standa úti við
reykingar."
Gideonmenn voru í heimsókn í skólanum og einn þeirra lagði út af
orðunum: "Hvernig getur ungur maður haldið vegi sínum hreinum?" Þetta er
tilvitnun í Nýja testamentið, sem þeir Gideonmenn voru að gefa öllum 5.
bekkingum og var ekki ætlunin að nemendurnir legðu þarna eitthvað til
málanna. Einn guttinn stóðst þó ekki mátið og sagði: "Með því að reykspóla
ekki."
Kennari í barnaskóla var einhverju sinni að hlýða pilti yfir Faðirvorið.
Sjálfsagt hefur stráknum legið reiðinnar býsn á, því undir lok bænarinnar
mátti heyra hann segja; "eigi leið þú oss ífreistni, heldur frelsa oss í
hvelli."
Úr málfræðiprófi í 5. bekk í Mýrarhúsaskóla; Hvað nefnast íbúar
Húnavatnssýslu einu nafni ? Eitt svar var; "Sýslumenn" Annað var;
"Húnvettlingar "
27 desember 2004
Jæja þá eru jólin búin og maður komin aftur í vinnuna. Ég svaf og las mikið og hafði það bara nokkuð gott þrátt fyrir að vera í Reykjavík. Vonandi höfðuð þið það öll gott yfir jólin elskurnar mínar hvar sem þið voruð!
Birt af Erla Perla kl. 2:03 e.h. 0 skilaboð
21 desember 2004
Þeir eru alveg ótrúlegir þessir Ísfirðingar, rifu skúr sem þeir áttu ekki og segjast ekki vera bótaskyldir gagnvart þinglýstum eiganda. Ég veit ekki hvort að ég hefði sætt mig við þessi svör bæjarins ef ég hefði verið eigandi skúrsins....
Birt af Erla Perla kl. 3:01 e.h. 0 skilaboð
Jæja, þá er enn önnur einkun komin inn. Kennararnir eru greinilega alveg í gírnum að fara yfir. Ég fékk 9 í inngangi að kennslufræði erlendra mála og er náttla alveg í skýjunum með það!
Þá á ég bara eftir að fá einkun í Lífsleikni og menningu og þjóðlífi í enskumælandi löndum. Það er bara vonandi að það komi fyrir jól - það væri þá í fyrsta sinn að maður fengi greiðslu frá LÍN fyrir jól!
Birt af Erla Perla kl. 1:25 e.h. 0 skilaboð
20 desember 2004
Minnz er snillingur!!
Einkunirnar eru farnar að streyma inn. Ég fékk 8 í siðfræði og 9 í ensku máli svo ég held að það sé nokkuð ljóst að ég hafi ekki klúðrað því prófi!
Annars er hann Axel Ernir frændi minn 25 ára í dag. Ég vil bara óska honum innilega til hamingju með daginn!
Birt af Erla Perla kl. 1:50 e.h. 0 skilaboð
Ég er mikið búin að vera að velta fyrir mér hvern ég eigi að kjósa Vestfirðing ársins á bb. Ég ákvað að kjósa Sossu og systur fyrir Ástarvikuna í sumar. Þetta vakti gríðarlega athygli og var virkilega lofsvert framtak. Ég hvet alla til að kjósa þær systur og hvetja þær til að halda aðra ástarviku að ári.
Birt af Erla Perla kl. 10:44 f.h. 0 skilaboð
16 desember 2004
Ég er búin í prófunum!!!!!!!
Og fyrsta einkunin er meira að segja komin inn! Ótrúlegt en satt. Íslenskukennararnir eru svona duglegir. Ég fékk 8,5 - og markmiðið mitt var einfaldlega að ná þar sem þetta var ekki mitt sterkasta fag svo að ég er mjög sátt :)
Ég mætti hins vegar ósofin í Enskt mál og málnotkun þar sem nágranni minn var á ferðinni alla nóttina. Mér gekk samt ágætlega í prófinu þó svo ég væri alveg að sofna ofan í prófblaðið. Ég þarf svo bara að bíða og sjá hvort ég hafi nokkuð klúðrað þessu.
Í morgun kláraði ég svo prófin, tók heimapróf í menningu og þjóðlífi í enskumælandi löndum. Það gekk ágætlega en það var skrýtið að taka svona heimapróf. Maður veit að kennarinn gerir meiri kröfur og maður reynir einhvern vegin að gera betur. Ég hefði verið miklu fljótari að taka bara venjulegt próf, en það verður gaman að sjá hvað ég fæ.
Seinustu daga hef ég svo verið á þvælingi með henni ömmu minni. Er búin að gera allt fyrir jólin nema þrífa svo nú verður djammað á helginni og slappað af yfir hátíðarnar :)
Birt af Erla Perla kl. 9:11 e.h. 0 skilaboð
13 desember 2004
Þá eru bara tvö próf eftir. Enskt mál og málnotkun á morgun og mér hefur gengið alveg herfilega að læra fyrir það. Ég finn mér bókstaflega allt annað að gera en að læra. Ég er búin að skrifa öll jólakortin og pakka inn þeim gjöfum sem ég er búin að kaupa. Er samt ekki farin að þrífa, ætli ég geri það ekki fyrir seinasta prófið :p Ég vona samt að ég klúðri ekki prófinu!
Sú sem er með húsfélagið hérna var að biðja mig um að skrifa greinargerð um það ónæði sem er af kallinum við hliðina á mér. Allir eiga svo að skrifa undir hana og henni verður skilað til Félagsþjónustunnar. Vonandi ýtir það undir að kallinn komist að á elliheimili, fái einhverja hjálp og ég losni við hann!!! Gott fyrir alla, right!
Birt af Erla Perla kl. 10:29 e.h. 0 skilaboð
11 desember 2004
Congratulations, you're Little Miss Brainy!
Which Little Miss are you?
brought to you by
Birt af Erla Perla kl. 7:32 e.h. 0 skilaboð
10 desember 2004
Ég er alveg heavy pirruð núna. Ég bý við hliðina á kalli sem er gamall róni og löngu búinn að drekka frá sér allt vit. Ofan á allt annað er hann víst kominn með alzheimer svo ekki bætir það úr skák. Herbergið mitt liggur upp að íbúðinni hans þannig að þegar hann tekur tarnir og vakir heilu og hálfu næturnar með tilheyrandi látum get ég ekki sofið. Fyrir utan það hef ég getað leitt kallinn að mestu hjá mér þó svo hann berji reglulega á dyrnar hjá mér og reyni að komast inn til þess að skammast út af einhverjum hlutum sem eru aðeins til í hausnum á honum og ég er löngu hætt að reyna að skilja. Fyrst fór ég til dyra og svona þegar hann barði á hurðina en ef maður hunsar hann hættir hann venjulega fljótlega - þó svo hann eigi það til að berja á hurðina heilt kvöld eins og í seinustu viku. Allavegana, kallinn hefur verið ansi hress svo ekki sé nú meira sagt undanfarnar vikur og seinustu viku hef ég varla náð að sofa heila nótt.
Loksins svo þegar kallinn fer að þegja og hafa hægt um sig þá tekur kellingin fyrir neðan mig upp á því að vakna klukkan sex og stilla helv.... útvarpið í botn. Ég var því vöknuð klukkan sex í morgun og náði ekki að sofa dúr eftir það. Mér er alveg sama þó svo að umgengnisreglur í fjölbýlishúsum segi að hávaði sé leyfilegur eftir 7 á morgnana á virkum dögum, mér finnst það andskotans dónaskapur að hafa allt í botni á þeim tíma. Núna dreymir mig bara um einbýlishús á afskekktum stað þar sem ég get sofið í friði.
Birt af Erla Perla kl. 9:14 f.h. 0 skilaboð
05 desember 2004
Haldiði að við Agga höfum ekki farið í sund áðan - og við syntum og allt!! Allt of langt síðan við höfum gert það. Við ætluðum svo á Vegamót að fá okkur eitthvað gott að borða en þar var allt fullt svo við fórum á Brennsluna. Langt síðan ég hef farið þangað. Þar var bara allt tómt! Á laugardagskvöldi! Ég hef varla séð Brennsluna tóma á mánudagskvöldi en það er nú önnur saga. Við kíktum svo heim til mín að horfa á vídeó en nei þá dó bara sjónvarpið hennar Agnesar! Við tókum það bara sem hinti um að við ættum bara að fara að sofa núna en þá er eitthvað lítið fífl að bora og bora í stigaganginum hjá mér! Eftir miðnætti!! Ég bíð spennt eftir að hann hætti svo ég geti farið að sofa!!
Birt af Erla Perla kl. 1:12 f.h. 0 skilaboð
04 desember 2004
Þó svo að það séu nokkur ár síðan ég flutti að heiman þarf ég ennþá að sinna ákveðnum skyldum heima hjá mömmu. Sú sem er hvað tímafrekust er að skrifa á jólakortin. Ég tók fyrsta holl í jólakortaskrifum í gærkvöldi og þegar ég var búin að skrifa ,,þökkum allt gamalt og gott. Sjáumst hress á nýju ári" það oft að ég var að fá skrifkrampa fór ég að pæla af hverju eyðir maður tíma í þessi jólakort. Maður skrifar alltaf það sama, hefur hitt fæsta af jólakortalistanum á árinu og það sem maður skrifar í kortin verður einhvern vegin bara innantómt hjal.
Það kom púki upp í mér í gær og ég var að spá hvort ég mætti ekki bara skrifa ,,vonandi sjáumst við ekkert á nýja árinu" í staðin fyrir þetta hefðbundna sjáumst hress og allt það. Maður gæti kannski notað þetta til að ýta í einhverja sem maður vill heyra í en kemur sér ekki til að hafa samband við sjálfur. Maður myndi örugglega fá upphringingu ef maður segðist ekkert vilja hitta viðkomandi í framtíðinni. (Það þarf náttla ekkert að taka það fram að það fékkst ekki samþykkt hjá henni móður minni.)
Svo væri hægt að fara alla leið með svarta húmorinn og segja bara ,,Kæra fjölskylda, gleðileg jól og farsælt komandi ár. Svakalega erum við fegin að hafa ekkert hitt ykkur á líðandi ári og við vonum svo sannarlega að við sjáum ykkur ekki neitt á nýja árinu." En fæstir myndu kannski hafa húmor fyrir svona korti.
Annars hef ég nú samt gaman af jólakortum og það er heilög stund á aðfangadagskvöld þegar kortin eru opnuð. Ég reyni samt alltaf að gera mín kort svona pínu persónuleg því mér finnst svo gaman að fá svoleiðis kort. En hvað finnst fólki um jólakort? Er þetta hefð sem maður á að halda í? Má maður poppa þau upp með smá svörtum húmor?
Birt af Erla Perla kl. 1:01 e.h. 0 skilaboð
02 desember 2004
Ég er búin að vera uppfull af hugmyndum til að skrifa um hérna en um leið og ég kveiki á tölvunni gleymist allt og ég er uppfull af siðfræðikenningum Kant og Mill. Ég gæti haldið úti massa rökræðum um nytjastefnuna og siðfræðilögmál Kants hérna en ég efast um að einhver hafi áhuga á því. Það er sem sagt siðfræðipróf á mánudaginn og minnz er bara að læra. En núna er Alias í sjónvarpinu og þá er sko heilög stund!
Birt af Erla Perla kl. 9:08 e.h. 0 skilaboð