04 desember 2004

Þó svo að það séu nokkur ár síðan ég flutti að heiman þarf ég ennþá að sinna ákveðnum skyldum heima hjá mömmu. Sú sem er hvað tímafrekust er að skrifa á jólakortin. Ég tók fyrsta holl í jólakortaskrifum í gærkvöldi og þegar ég var búin að skrifa ,,þökkum allt gamalt og gott. Sjáumst hress á nýju ári" það oft að ég var að fá skrifkrampa fór ég að pæla af hverju eyðir maður tíma í þessi jólakort. Maður skrifar alltaf það sama, hefur hitt fæsta af jólakortalistanum á árinu og það sem maður skrifar í kortin verður einhvern vegin bara innantómt hjal.

Það kom púki upp í mér í gær og ég var að spá hvort ég mætti ekki bara skrifa ,,vonandi sjáumst við ekkert á nýja árinu" í staðin fyrir þetta hefðbundna sjáumst hress og allt það. Maður gæti kannski notað þetta til að ýta í einhverja sem maður vill heyra í en kemur sér ekki til að hafa samband við sjálfur. Maður myndi örugglega fá upphringingu ef maður segðist ekkert vilja hitta viðkomandi í framtíðinni. (Það þarf náttla ekkert að taka það fram að það fékkst ekki samþykkt hjá henni móður minni.)

Svo væri hægt að fara alla leið með svarta húmorinn og segja bara ,,Kæra fjölskylda, gleðileg jól og farsælt komandi ár. Svakalega erum við fegin að hafa ekkert hitt ykkur á líðandi ári og við vonum svo sannarlega að við sjáum ykkur ekki neitt á nýja árinu." En fæstir myndu kannski hafa húmor fyrir svona korti.

Annars hef ég nú samt gaman af jólakortum og það er heilög stund á aðfangadagskvöld þegar kortin eru opnuð. Ég reyni samt alltaf að gera mín kort svona pínu persónuleg því mér finnst svo gaman að fá svoleiðis kort. En hvað finnst fólki um jólakort? Er þetta hefð sem maður á að halda í? Má maður poppa þau upp með smá svörtum húmor?

Engin ummæli: