Ég má til með að lýsa andúð minni á nýju auglýsingunum frá Símanum. Fyrir þá sem ekki hafa séð þessar auglýsingar eru skilaboð þeirra þau að stundum sé betra að senda sms. Ég hef séð tvær útgáfur af þessari auglýsingu. Í annarri er stelpa að dömpa strák, hann grætur og foreldrar hans koma inn. Þau eru ekki sátt við stelpuna sem er vægast sagt vandræðaleg og skilaboð auglýsingarinnar skýr. Hún hefði náttla átt að dömpa gæjanum í gegnum sms og forðast þessar óþægilegu aðstæður. Í hinni útgáfunni er afi að halda á dóttursyni sínum undir skírn. Dóttir hans minnir hann stöðugt á hvað barnið á að heita en gamli maðurinn man það ekki og á endanum argar dóttir hans nafnið á barninu yfir kirkjuna. Hún hefði náttla átt að senda gamla manninum, já eða prestinum, sms fyrir athöfnina.
Ég skil ekki hvernig í ósköpunum Símanum dettur það til hugar að senda frá sér svona auglýsingar. Seinni auglýsingin dæmir sig algjörlega sjálf. Gamli maðurinn augljóslega með Alzheimer eða aðra heilabilun og auglýsingin gjörsamlega lítilsvirðir og niðurlægir gamalt fólk. Ég veit hins vegar um nokkra sem finnst fyrri auglýsingin nokkuð sniðug bara. Fyndin. Ég sé hins vegar ekkert fyndið við það að áhrifamáttur auglýsinga sé notaður til að hvetja fólk til að forðast það að taka ábyrgð á sínu lífi og lauma sér í gegnum það með sms-um því það er það sem auglýsingin bókstaflega gerir.
Mér finnst Síminn vera minna fyrirtæki fyrir að auglýsa sig svona og ég verð að viðurkenna að ég er ekki langt frá því að hringja þangað og kvarta formlega undan þessum auglýsingum og færa mín símaviðskipti annað. Og hana nú!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli