16 mars 2005

Jæja, smá blogg fyrir Bigga.

Æfingakennslan er bara búin að ganga fram úr okkar björtustu vonum. Þau eru nú ekkert alltaf auðveld greyin en þau eru góð inn við beinið og það er gaman að þeim. Ég er búin að næla mér í miður skemmtilega pest og var veik heima í gær og missti af flutningnum á þemaverkefninu. Þar fóru þau víst á kostum í hlutverki íþróttafréttamanna. Þemaverkefnið okkar var handbolti og krakkarnir áttu að bregða sér í hlutverk íþróttafréttamanns og lýsa leik. Við fengum Arnar Björnsson á Stöð 2 í heimsókn til að spjalla við krakkana og það vakti mikla lukku. Þau voru að vísu orðin ansi nærgöngul undir restina (Hvar áttu heima?....) en heimsókninni lauk á því að þau fengu öll eiginhandaráritun hjá honum sem vakti gleði hjá púkunum og hlátur hjá kennurunum ;)

Það er svo farið að styttast í flutninga hjá mér og því miður er ég ekki enn þá búin að fá íbúð :( Það verður því bara hótel mamma þangað til annað kemur í ljós. Planið er að flytja allt dótið á skírdag í geymslu. Þá hef ég páskana til að vinna og læra og hef nokkra daga til að þrífa og ganga frá íbúðinni. Ég ætla reyndar að vera búin að fara með flesta kassana fyrir páska svo að flutningarnir gangi fljótt fyrir sig. En þá er það bara smjaðrið, mig vantar tvo til þrjá fílhrausta karlmenn til að hjálpa til í svona klukkutíma á skírdag. Fínasta líkamsrækt fyrir páskaátið ;) ;)

Engin ummæli: