28 október 2005

Eru áfengisauglýsingar ekki bannaðar á Íslandi????

Maður er nú hættur að verða hissa við að sjá auglýsingar um léttvín og bjór en mér stóð nú ekki á sama þegar ég sá heilsíðuauglýsingu um Finlandia vodka í Birtu í morgun. Þetta vil ég ekki sjá í íslenskum fjölmiðlum. Hvað er lögreglan eiginlega að hugsa í þessum málum? Fá íslenskir fjölmiðlar að beygja og brjóta þessi lög eftir eigin hentugleikum? Hvað svo sem mönnum finnst um þessi lög þá á að fara eftir þeim á meðan þau eru í gildi. Menn verða þá einfaldlega að beita sér fyrir breytingu á löggjöfinni ef þeir eru ósáttir. Ég bíð núna spennt eftir að sjá hvort að eitthvað eigi eftir að gerast eftir auglýsinguna í Birtu í dag.

25 október 2005



Jæja... Ætli þetta sé ekki ágætis kennaragen bara? :-/

20 október 2005

Þá er maður orðinn árinu eldri og hrukkunum farið að fjölga. Ég fékk að heyra það hérna í vinnunni þegar ég þóttist nú bara vera 23 að ég væri þá ansi ellileg 23 ára... Ægir og Gísli standa alltaf fyrir sínu. Ég fékk hins vegar að heyra margt fallegt frá öðrum en þeim og vil ég bara nota tækifærið og þakka kærlega fyrir mig :)

Í gær var hringt í mig frá Gallup - sem er svo sem ekki frásögu færandi nema að könnunin sem ég lenti í í þetta skiptið var um umferðaröryggi. Ég var að bakka út úr bílastæðinu í Faxatúninu þegar síminn hringdi og svaraði spurningunum í könnuninni á leiðinni heim. Ég þarf varla að taka það fram að ég á ekki handfrjálsan búnað þar sem hann hefur ekki fylgt með þeim símum sem ég hef átt hingað til. Svo á leiðinni heim, með aðra hönd á stýri, svaraði ég spurningum um aksturslag mitt, hvort ég væri alltaf með beltin spennt, hvort ég hefði keyrt undir áhrifum áfengis og hvort ég hefði keyrt og talað í símann án handfrjáls búnaðar... Mér fannst þetta hálf íronískt eitthvað. Miðað við efni könnunarinnar hefði nú kannski mátt byrja á því að spurja hvort að maður væri að keyra og hvort maður væri þá með handfrjálsan búnað...

Annars er mest lítið að frétta af þessum bænum. Æfingakennslan gengur bara vel og okkur Ásu líst vel á þetta. Við erum á kafi í lesson plans þessa dagana og erum að velta fyrir okkur hvað við eigum að kenna. Spurning um að nýta sér Airwaves hátíðina í næstu viku og búa til eitthvað skemmtilegt í kringum það. Í kvöld er Guðjón að spila og þá mætir minnz náttla á völlinn. Það er bara vonandi að Andri sé ekki að dæma í þetta skiptið ;)

17 október 2005

Jæja, þá er fyrsti í æfingakennslu búin og bara 25 dagar eftir ;) Mér líst bara ágætlega á þetta þarna í Áslandsskóla. Kennarinn okkar er úber aktífur og áhugasamur og krakkarnir eru líflegir - í meira lagi kannski sumir. Það slær samt ekkert gamla bekkinn minn að vestan út held ég, það var sko líf í 79 árgangnum í denn ;)

Helgin var úber róleg, ég fór að vinna á laugardaginn eins og venjulega en svaf svo bara nánast fram á mánudagsmorgun. Var alveg búin á því. Á morgun þarf ég svo að taka við enn einu árinu í safnið og ætla að hefja það á því að skella mér í klippingu og litun - svona svo að gráu hárin sjáist ekki ;)

En jæja, kallinn minn er að koma að sækja mig. Hafið það gott elskurnar mínar :)

11 október 2005

Jæja, er að hanga niðrí skóla. Er að bíða eftir að Guðjón verði búinn í vinnunni svo ég geti sótt hann og þar sem mér leiðist þá ætla ég að gera svona núverandi lista eins og allir eru að gera núna.

Núverandi tími: 17.10
Núverandi föt: Gallabuxur, bleika H&M peysan mín og bleika úlpan frá Dagnýju og Hauki
Núverandi skap: Þreytt
Núverandi hár: Sítt og sauðalitað
Núverandi pirringur: offramboð af verkefnum í skólanum og skortur á frítíma
Núverandi lykt: Simply by Clinique
Núverandi hlutur sem þú ættir að vera að gera: Læra :p
Núverandi skartgripir: hálsmen, eyrnalokkar og úr
Núverandi áhyggja: æfingakennsla og verkefnaskil í saumavélinni
Núverandi löngun: Að kúra yfir góðri mynd með Guðjóni
Núverandi ósk: Mig langar mest að komast í Víkina til ömmu í hvíld og dekur
Núverandi farði: maskari og meik
Núverandi eftirsjá: Lífið er of stutt til að eyða því í eftirsjá...
Núverandi vonbrigði: Að komast að því að ég á meira eftir en ég hélt í saumavélinni
Núverandi skemmtun: Internetið bjargar mér frá leiðindum í skólanum
Núverandi ást: Guðjón Hrafn Lárusson
Núverandi staður: Reykjavík
Núverandi bók: Queen Bees and Wannabees
Núverandi bíómynd: Er á leiðinni á Stealth, The forty year old virgin og svo er hellingur sem mig langar að sjá á spólu
Núverandi Íþrótt: Er það ekki bara sund?
Núverandi Tónlist: Þögnin í Kennó
Núverandi lag á heilanum: Words don't come easy to me eftir að hafa lesið grein með því nafni hjá Samuel
Núverandi blótsyrði: Fuck held ég bara
Núverandi msn manneskjur: Dagný, Arnar, Biggi, Agga, Geiri, Silja, Hólmfríður, Katrín og Sara
Núverandi desktop mynd: Bolungarvík
Núverandi áætlanir fyrir kvöldið: Kúra með kærastanum
Núverandi manneskja sem ég er að forðast: Ætli ég verði ekki að segja Begga :-/
Núverandi hlutir á veggnum: Krítartafla og námsefni eftir nemendur KHÍ

08 október 2005

Jæja, það hafa verið annasamir dagar undanfarið og ekki tekur betra við í næstu viku. Seinasta vikan sem ég er í skólanum fyrir æfingakennslu svo það verður nóg að gera. Það er orðið alveg ákveðið að við Ása förum saman í Áslandsskóla í Hafnarfirði í æfingakennslu. Það er óneitanlega kominn smá fiðringur í magann en ég vona nú að þetta eigi eftir að ganga vel hjá okkur.

Það er ótrúlegt hvernig allt getur gengið á afturfótunum hjá manni stundum. Ég átti svoleiðis dag á miðvikudaginn. Vaknaði allt of seint og fattaði þá að ég hafði gleymt að hafa til allt draslið mitt kvöldið áður. Náði svo að skalla bílinn minn þegar ég var að setja skólatöskuna inn - ekki spurja mig hvernig. Mér er búið að vera illt í augabrúninni síðan en bólgan er farin að hjaðna.
Ég fór svo á bókasafnið í Kringlunni seinnipartinn til að skila bókum. Skellti pokanum á borðið og gerði mig líklega til að labba út. Þá argar bókavörðurinn á eftir mér hvort ég ætli ekki að taka bækurnar úr pokanum. Mér varð nú bara um og sagðist nú ekkert þurfa þennan poka. Þá horfði hún á mig hvössum augum og sagði að ég skyldi sko taka bækurnar úr pokanum. Svo ég labbaði til baka að borðinu, tók bækurnar úr pokanum og skildi allt eftir á borðinu og sagði bara pent gjörðu svo vel og gerði mig líklega til að labba út aftur. Þá spurði kellan hvort að ég ætlaði ekki að standa þarna á meðan hún skannaði bækurnar. Ég hélt nú ekki og arkaði beinustu leið út, alveg búin að fá nóg af tuðinu í kellingunni.
Ég fór svo og hitti Öggu í Kringlunni og við festumst inn í Oasis í rafmagnleysinu. Við hefðum getað labbað út með allt í búðinnu því að stelpurnar sem voru að vinna þarna voru ekkert að spá í því að þjófavarnarhliðið virkaði ekki í rafmagnsleysi... Agga og Agnes björguðu svo deginum á Vegamótum þar sem við stöllurnar hittumst og fengum okkur gott að borða í tilefni af afmælinu hennar Agnesar :)

Ég er búin að reyna að horfa á seinustu tvo þætti af Íslenska bachelornum en ég hef aldrei enst allan þáttinn. Þetta eru alveg skelfilega glataðir þættir!!! Ég skil ekki af hverju þetta má ekki heita Piparsveinninn upp á góða íslensku og af hverju þarf allt að vera nákvæmlega eins og í Bandarísku útgáfunni þegar þetta er augljóslega engan vegin að gera sig í íslensku samfélag?? Ég þekki nokkra sem horfa á þetta og arga úr hlátri en mér finnst þetta meira sorglegt en hitt. Ég fæ svo mikinn ógeðishroll að ég bara slekk á sjónvarpinu.

Haldiði að mín hafi svo ekki verið stoppuð af löggunni á leiðina í vinnuna í morgun! Ég var að syngja með einhverju lagi og tók ekki eftir því að löggan var að mæla á Breiðholtsbrautinni. Ég var nú samt ekki að keyra það hratt, undir hundraðinu allavegana. Ég tók hins vegar eftir því að löggan fór að keyra á eftir mér og bremsaði snarlega niður í löglegan hraða. Löggan elti mig nánast alla leið upp í vinnu og stoppaði mig á endanum. Ég sagðist nú bara hafa verið að syngja hástöfum og ekki alveg litið á hraðamælinn. Mér var sleppt með áminningu og ég beðin um að syngja lægra og kæra hægar í framtíðinni.

En jæja, ég ætla að fara að koma mér heim. Hafið það gott elskurnar mínar!

01 október 2005

Áfengi drepur 600.000 manns árlega í Evrópu. Mér hefur stundum fundist þessar upplýsingar vanta í málflutning þeirra sem berjast fyrir auknu frelsi í áfengismálum á Íslandi. Ekki það að ég sé ósammála þeim að öllu leyti, ég held að það þurfi að hugsa þessi mál algjörlega upp á nýtt hér á landi, en áfengi er skaðsamt engu að síður og þær þjóðir sem eru mun frjálslyndari í þessum málum en við erum eru ekkert endilega í betri málum en við. Við megum ekki gleyma því þegar við komum til útlanda að öðruvísi vínmenning er ekki alltaf kúltiveraðri og betri.

Loksins, loksins á að gera göng til Bolungarvíkur. Það þurfti mikið grjóthrun til að yfirvöld myndu taka sönsum en sem betur fer þurfti ekki stórt slys á Hlíðinni til þess. Ég hef fengið að heyra það að þessi gangagerð sé tómt bull því það eigi ekki að eyða peningum í eins fáar hræður og búa þarna. Svona orð eru varla svaraverð - við eigum öll jafnan rétt á öruggum samgöngum hvort sem við búum í Reykjavík, Reyðarfirði, Kópaskeri eða Bolungarvík. Og ef fólk vill horfa í krónur og aura þá er margfalt ódýrara að gera göng heldur en að halda við Hlíðinni - fyrir utan mannslífin sem hafa farið þar sem eru ómetanleg.