20 október 2005

Þá er maður orðinn árinu eldri og hrukkunum farið að fjölga. Ég fékk að heyra það hérna í vinnunni þegar ég þóttist nú bara vera 23 að ég væri þá ansi ellileg 23 ára... Ægir og Gísli standa alltaf fyrir sínu. Ég fékk hins vegar að heyra margt fallegt frá öðrum en þeim og vil ég bara nota tækifærið og þakka kærlega fyrir mig :)

Í gær var hringt í mig frá Gallup - sem er svo sem ekki frásögu færandi nema að könnunin sem ég lenti í í þetta skiptið var um umferðaröryggi. Ég var að bakka út úr bílastæðinu í Faxatúninu þegar síminn hringdi og svaraði spurningunum í könnuninni á leiðinni heim. Ég þarf varla að taka það fram að ég á ekki handfrjálsan búnað þar sem hann hefur ekki fylgt með þeim símum sem ég hef átt hingað til. Svo á leiðinni heim, með aðra hönd á stýri, svaraði ég spurningum um aksturslag mitt, hvort ég væri alltaf með beltin spennt, hvort ég hefði keyrt undir áhrifum áfengis og hvort ég hefði keyrt og talað í símann án handfrjáls búnaðar... Mér fannst þetta hálf íronískt eitthvað. Miðað við efni könnunarinnar hefði nú kannski mátt byrja á því að spurja hvort að maður væri að keyra og hvort maður væri þá með handfrjálsan búnað...

Annars er mest lítið að frétta af þessum bænum. Æfingakennslan gengur bara vel og okkur Ásu líst vel á þetta. Við erum á kafi í lesson plans þessa dagana og erum að velta fyrir okkur hvað við eigum að kenna. Spurning um að nýta sér Airwaves hátíðina í næstu viku og búa til eitthvað skemmtilegt í kringum það. Í kvöld er Guðjón að spila og þá mætir minnz náttla á völlinn. Það er bara vonandi að Andri sé ekki að dæma í þetta skiptið ;)

Engin ummæli: